14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Mjer varð að orði, þegar jeg sá dagskrána, að auðsjeð væri, að þing væri búið að standa lengi. Sama sjest á fundarbyrjuninni, þar sem leitað er afbrigða fyrir hvorki meira nje minna en átta mál. Annars ætlaði jeg að segja fáein orð viðvíkjandi þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Það var að heyra á hv. 5. landsk. við 2. umr., að honum þætti nefndin hafa kastað höndunum til afgreiðslu þessa frv. Jeg gat ekki fallist á, að nein hætta væri í því fólgin, þó að frv. gengi fram óbreytt, því að ráðherra mundi sjá um, að sett væru í reglugerð þau ákvæði, sem þörf væri á. Nefndin viðurkennir þó, að henni hafi sjest yfir að tiltaka, til hve langs tíma leyfið skyldi veitt. Ber hún því fram brtt. þess efnis, að leyfið skuli veitt til 5 ára. Jeg held, að ekki sje að neinu leyti varhugavert að samþykkja frv. eftir að þessi brtt. hefir verið samþykt. Ef leyfið þætti gefast illa, yrði það vitanlega ekki framlengt eftir að þessi 5 ára tími væri útrunninn.