14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Mjer finst hv. 5. landsk. (JBald) orðinn miklu reikulli í aðfinslum sínum heldur en hann var við 2. umr. Þá fann hann frv. til foráttu aðallega það, að leyfistíminn væri ekki ákveðinn. Nú hefir nefndin gert tilraun til að bæta úr þessu atriði, en háttv. þm. virðist litlu ánægðari. Jeg hygg, að þó nefndin hefði tiltekið tveggja ára bil, í stað fimm, hefði hann ekki heldur orðið ánægður og fært sig ofan í 1 ár. (JóhJóh: Eða 6 mánuði). Já, ef til vill. En það er auðfundið, að eitthvað annað vakir fyrir þessum hv. þm. en það, hvernig frv. lítur út. Hann talaði um, að þingmenn mundu hafa látið undan „agitation“. Jeg skal ekkert afsaka mig í því efni, en jeg get þó getið þess, að jeg hefi haft góðan frið fyrir „agitationum“. Á það má líka minna, að þeir geta líka orðið fyrir „agitation“, sem eru á móti málinu. Þá talaði hv. þm. um, að ráðherra væri veitt sjálfdæmi til að ákveða fjelaginu kjörin, og því væri ekki gert að greiða neinn skatt. Víst á það að greiða skatt, þó að hann komi því til eigin nota. Þá hjelt hann, að þetta gæti orðið stórgróðafjelag á 5 árum. Það er nú ekki vanalegt, að fjelög taki svo skjótum framförum, og ef þetta fjelag verður svona bráðþroska, finst mjer það heldur benda á, að einhver þörf sje fyrir það. En það er nú sannast að segja, að nefndin lítur ekki á þetta sem stórmál, enda finst mjer það varla hægt. Þá sagði háttv. þm., að ilt hefði hlotist af erlendri veðmálastarfsemi, en þó kvartaði hann jafnframt yfir því, að erlend lög um þetta efni skyldu ekki vera tekin hjer til fyrirmyndar. Jeg verð nú að halda, að þessi erlendu lög sjeu eitthvað gölluð, ef þau hafa reynst mjög illa, og því ekki beinlínis eftirsóknarvert að taka þau til fyrirmyndar. En hvernig heldur hv. þm., að hægt sje að koma í veg fyrir, að menn veðji? Ætli það væri nokkuð auðveldara, þó engin lög væru um þetta? Háttv. þm. fanst ófært að hafa nafn fjelagsins í lögunum. Jeg býst við, að engin vandræði yrðu úr að breyta því atriði, ef fjelagið legðist niður, svo að annað fjelag gæti komist undir þessi lög. Annars býst jeg við, ef fjelagið „Fákur“ deyr, að hv. þm. harmi það ekki svo mjög, þó að lögin falli þá líka niður. Ef honum þykja lögin fráleit, er undarlegt, að hann skuli vilja slá þennan varnagla í því skyni, að þau geti staðið sem lengst.

Annars nenni jeg ekki að þrátta lengur um þetta 5 lína frv. Nefndin er ekki svo glöggskygn, að hún sjái neitt athugavert við að samþ. það með þessari breytingu, sem hún ber. fram.