14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jón Baldvinsson:

Jeg held jeg hafi minst á fleiri atriði í frv. við 2. umr. en tímatakmarkið. Meðal annars hafði jeg á móti því, að ráðherra væri veittur rjettur til þess að setja öll skilyrði, og í því felst svo mikið, þó að jeg skýrði það ekki með upptalningu á hverju einstöku atriði, að nefndin gat ekki álitið, að öllum kröfum væri fullnægt, þó að hún kæmi með eina einustu. brtt. Það er margt fleira, sem athuga þyrfti. Jeg álít t. d. alls ekki rjett, að leyfishafi sleppi við skemtanaskatt. Mjer er sagt, að fjelagið „Fákur“ selji aðgang að skemtunum sínum án þess að greiða nokkurn skatt. Mjer finst að minsta kosti, þegar árshátíð skikkanlegra fjelaga er skattlögð háum skatti til þjóðleikhússins, þá megi eins skattleggja þetta. Og þegar fjelagið hefir gert tvent ólöglegt, rekið ólöglega veðmálastarfsemi og engan skemtanaskatt borgað, enda þótt það hafi selt aðgang að veðreiðunum, þá sje jeg ekki, að það sje sjerstaklega verðlaunavert fyrir þetta; en verðlaun eru því veitt, ef farið er að gefa því leyfi til veðmálastarfsemi, því að af henni geta verið miklar tekjur. Þannig er t. d. í einum bæ í Englandi, að tekjur af slíkri veðmálastarfsemi eru svo miklar, að borgararnir þurfa engin gjöld að greiða til sveitarfjelagsins. En hjer ganga tekjurnar af þessari veðmálastarfsemi til fjelagsins, sem fyrir kappreiðunum stendur, og þeirra, sem hestana eiga, enda þótt þeim sje að einhverju leyti varið til reiðvegarins, því að það er hestaeigenda að halda honum við, en það er ekki hestamannafjelagið, sem leggur fjeð fram, heldur almenningur. Jeg vildi nú heyra frá hv. allshn., hvort hún lítur svo á, að aðgangur að kappreiðunum eigi að vera laus við skemtanaskatt, eins og verið hefir til þessa. Þó að frv. þetta sje ekki nema 4 eða 5 línur, þá er þó margt, sem um það er hægt að segja; það felur í sjer svo margt af óþektum ákvæðum, sem maður veit ekki um, hvernig koma til með að hljóða, þegar þau koma úr penna ráðherrans. Það þyrfti því sem flest að koma fram undir þessum umræðum, sem hægt væri að taka tillit til, þegar þetta sjerleyfi verður veitt. Jeg segi „sjerleyfi“, því að hjer er um ekkert annað að ræða en sjerleyfi til veðmálastarfsemi fyrir hestamannafjelagið „Fák“, því ef t. d. hinir góðkunnu hestamenn í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum vildu hafa veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar hjá sjer, þá væri þeim það ekki leyfilegt; þeir yrðu því að fá „Fák“ norður með veðmálabankann. Sama væri að segja um Rangæinga, því að þeir eru líka hestamenn miklir. Þeir yrðu líka að fá „Fák“ austur, ef þeir vildu hafa þessa veðmálastarfsemi hjá sjer. Annars er jeg ekki með þessu að halda því fram, að það sje æskilegt að fá þessa veðmálastarfsemi sem fyrst, heldur tel jeg þvert á móti, að „frestur sje á illu bestur“, því að slík starfsemi er ekki sá kínalífselixír, sem nokkuð getur bætt.