13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Mjer láðist að geta þess, að einn nefndarmanna hefir skrifað undir nál. á þskj. 352 með fyrirvara, þar sem er hv. 1. landsk. (JJ), en það kom til af því, að um sjálft málefnið hafði enginn ágreiningur orðið, að mjer sást yfir að segja frá þessu.

En út af ræðu hæstv. forsrh. (JÞ) vil jeg taka fram, að ef útlit er fyrir, að tíminn verði naumur til þess að dýpka hafnirnar bæði á Akureyri og í Vestmannaeyjum, þá verður að nota besta tíma ársins til dýpkunar höfninni í Vestmannaeyjum, því að jeg geri ráð fyrir, að hægt sje að vinna lengur fram eftir hausti á Akureyri en þar, vegna staðhátta og veðurfars.