17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer var áður kunnugt um skoðun hv. þm. N.-Þ. (BSv), sem hann flutti nú á ný með fullri sæmd. En það verður varla sagt, að hv. þm. Borgf. (PO) hafi gert. Ummæli þau, er hann viðhafði, álít jeg ekki sæmandi á löggjafarþingi sjálfstæðs ríkis.

En úr því að deilur eru risnar um þetta mál, er rjett að gera í heyranda hljóði grein fyrir því, af hverju nú er farið fram á að fjölga nefndarmönnum. — Ávalt síðan þessi nefnd var stofnuð, hafa verið 4 flokkar á þingi Dana, allir töluvert stórir, stundum svipaðir að stærð. Í upphafi óskaði einn þessara flokka, Íhaldsflokkurinn, ekki að eiga sæti í nefndinni, en nú hefir honum snúist hugur. Eftir þeim reglum, sem gilda um kosningar í danska þinginu, hefir Íhaldsflokkurinn atkvæðamagn til að ná sæti í nefndinni, þótt þar sitji aðeins 3 fulltrúar frá hvorri þjóð. En það hefði aftur á móti í för með sjer, að minsti flokkurinn, „radikalir“, yrði að láta af sínu sæti.

Jeg skal ekki segja mikið um þessa nefnd eða starfsemi hennar. Af Íslendinga hálfu hefir altaf verið gert lítið úr henni, en hún hefir þó a. m. k. áunnið eitt. Hún hefir getað afstýrt því, að mál, sem snerta bæði Danmörku og Ísland, hafi orðið að deiluefni milli flokka í danska þinginu. Um áhrif nefndarinnar á íslenska löggjöf er óþarft að tala. Þau hafa aldrei verið nein, og jeg býst við, að svo verði einnig framvegis. Verksvið nefndarinnar hefir orðið alt annað: að leiða til lykta ýms ágreiningsefni og gera samninga á ýmsum sviðum. Þar hefir hún unnið gott starf. — Jeg held, að frá okkar hálfu væri gert alt of mikið úr áhrifum hennar á íslenska löggjöf, ef það væri þess vegna gert að kappsatriði, hvort í henni sitja 3 menn eða 4 frá hvorum aðilja. Nefndin hefir ekkert skift sjer af íslenskri löggjöf, og á ekki að gera það.

Jeg lít því svo á, að hjer sje aðeins um að ræða vinsamlega tilhliðrunarsemi við óskir þess aðilja, sem við höfum hvort sem er mikið saman við að sælda. Þetta kostar okkur ekkert annafi en þóknun til eins manns viðbót.