05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 245, hefi jeg ekki getað átt samleið með háttv. meiri hl. um afgreiðslu þessa máls. Og þar sem jeg geri það að tillögu minni, að málinu verði vísað til hæstv. stjórnar, þá vil jeg leyfa mjer að rökstyðja það nokkru nánar.

Þegar þetta mál, um varnir gegn berklaveiki, var til meðferðar á Alþingi 1921, var gert ráð fyrir, að kostnaður sá, er ríkissjóður þyrfti að greiða vegna meðlags með sjúklingum samkv. 14. gr. berklavarnalaganna, mundi nema um 72 þús. kr., eða sem næst 22 þús. kr. fram yfir það, sem ríkissjóður greiddi þá í meðlag vegna berklasjúklinga.

Hinsvegar var búist við, að kostnaður þessi mundi aukast nokkuð og meðal annars gert ráð fyrir, að fjölga þyrfti rúmum fyrir berklaveika sjúklinga, og mundi þá kostnaðurinn þokast upp í 122 þús. kr. Ennfremur bjóst berklaveikisnefndin við, að byggja þyrfti sumarhæli fyrir 30–40 börn, en meðlag ríkissjóðs með börnum þessum áætlað um 2–3 þús. kr., og var þá berklavarnakostnaðurinn kominn upp í 125 þús. kr. samkvæmt áætlun nefndarinnar. En til þess nú að vera alveg ugglaus um, að hvergi skeikaði í kostnaðaráætlun, bætti nefndin við heildarupphæð þessa 9 þús. kr. Var þá hinn árlegi meðlagskostnaður ríkissjóðs orðinn 130–140 þús. kr., en þótti svo varlega áætlaður, að ekki kæmi til mála, að hann færi þar fram úr.

Jeg býst ekki við, að á Alþingi 1921, eða nú, sje nokkur sá þm., sem sæi eftir þessum 130–140 þús. kr. til berklavarna, ef hægt hefði verið með því að vinna bug á þessum voðalega vágesti. En það fór hjer sem raunar alt of oft hefir átt sjer stað, að áætlanirnar stóðust ekki og kostnaður varð allur annar og margfaldaðist ár frá kostnaðurinn hefir orðið þessi ár, sem ári. Jeg ætla nú að skýra frá, hver berklavarnalögin hafa verið í gildi:

Árið 1922 varð kostnaðurinn 131240,99 kr.

• 1923 verður hann 280914,09 —

— 1924 er hann áætlaður 75 þús. kr., en verður 331747,26 —

• 1925 er hann áætlaður 300 þús. kr., en verður 504076,72 —

• 1926 er hann líka áætlaður 300 þús. kr.,

• en ekki sjeð enn með vissu, hvað hann verður, því að enn eru ekki allir reikningar komnir fram. Þó mun óhætt að gera ráð fyrir því, að kostnaðurinn komist eitthvað yfir það, sem hann var árið áður, eða töluvert á 6. hundrað þúsund króna.

Samkv. þessari skýrslu fer berklavarnakostnaðurinn stöðugt vaxandi og hækkar hröðum skrefum.

Það er langt síðan mönnum ofbauð þessi gífurlegi kostnaður, og nokkuð síðan farið var að ræða um það hjer á þingi, að eitthvað þyrfti að gera til þess að færa hann niður. En hingað til hefir menn greint á um, hvernig það skyldi gerast, og því hefir ekkert úr því orðið.

Í frv. því, sem hjer liggur fyrir, er farið fram á þá breytingu á 14. gr. berklavarnalaganna, að gjald sýslu- og bæjarfjelaga verði fastsett 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann í lögsagnarumdæminu. Nú er það svo, að sýslu- og bæjarfjelög greiða 2/5 kostnaðar vegna berklavarnalaganna, en kostnaður hvers einstaks sýslu- og bæjarfjelags má ekki fara fram úr 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann í lögsagnarumdæminu. Fari kostnaðurinn fram úr þessari upphæð, þá endurgreiðist mismunurinn úr ríkissjóði.

Það mun að vísu svo komið, að flest sýslu- og bæjarfjelög hafa þegar náð þessu hámarki, en þó eru fáein, sem eru þar fyrir neðan enn, En þó svona sje ástatt, er varhugavert að ganga inn á þá braut, sem ætlast er til með frv.

Jeg skal nú ekki fara mörgum orðum um það ranglæti, sem hjer verður framið gagnvart þeim hjeruðum, sem ekki hafa náð hámarkinu. Þessi breyting mundi verka sem svipuhögg á þessi hjeruð fyrir þeirra baráttu við að koma berklavarnakostnaðinum niður. Þetta ranglæti gagnvart þessum fáu hjeruðum er þó aukaatriði, því að annað atriði er þar enn alvarlegra, og það er, að ef frv. verður samþ., þá eykur það stórum kostnað og gerir berklavarnirnar þó ekki öruggari heldur en þær eru nú. pað er auðvelt að sýna fram á þetta.

Þegar fastsett hefir verið samkv. frv., að hvert sýslufjelag og bæjarfjelag skuli greiða 2 krónur fyrir hvern heimilisfastan mann, þá er ekki lengur nein ástæða til þess fyrir sýslu- eða bæjarfjelög að reyna, eins og áður, að komast ljettara út af berklavarnakostnaðinum. Með frv. á að skylda þau til þess að greiða hámarksgjaldið, sem nú er, 2 krónur, alveg án tillits til hins raunverulega kostnaðar. Þau hafa ekki framar neinn áhuga fyrir því að fá kostnaðinn niður.

En hverjar yrðu afleiðingar þessa? Mundi það ekki taka burt frá stjórnarvöldum hjeraðanna öflugustu hvötina til útrýmingar berklaveikinnar? Því þess verða menn vel að gæta, að hjer fer þetta tvent saman: dyggileg barátta móti berklaveikinni og von um minkandi útgjöld vegna berklavarnalaganna. — Sje vel og öfluglega unnið að útrýmingu veikinnar, er hægt að fá kostnaðinn niður. Þetta stóra vopn í baráttunni móti berklaveikinni er með frv. þessu slegið úr höndum hjeraðsstjórnanna.

Berklavarnakostnaðurinn er nú orðinn svo mikill, að menn hljóta að hafa áhuga fyrir því að fá hann lækkaðan með einhverju móti. Jeg er viss um, að það getur tekist, ef breytt er ýmsum ákvæðum berklavarnalaganna. En verði frv. þetta samþ., hefir það öfugar verkanir við það, sem hv. flm. (SigurjJ) og öll þjóðin ætlast til.

Jeg hefi tekið það fram í nál. mínu, að jeg álít, að endurskoða þurfi berklavarnalögin. Og þess er áreiðanlega full þörf, því að reynslan hefir sýnt og sannað, að þau lög eru mjög gölluð.

Hinn mikli kostnaður, sem ríkið og hjeruðin bera nú vegna berklavarna, stafar að miklu leyti af óheppilegum ákvæðum í lögunum, svo sem t. d. ákvæðum 14. gr. (í upphafi), þar sem svo er fyrir mælt, að berklaveikissjúklingar skuli annaðhvort fá ókeypis sjúkrahús- eða hælisvist, eða þá alls ekki neitt. Með þessu ákvæði er ekki um neinn meðalveg að ræða. Það er engin leið til þess, að hið opinbera — sýslusjóðir, bæjarsjóðir og ríkissjóður — og sjúklingar skifti kostnaðinum niður á milli sín. En þessu þarf að koma þannig fyrir, að allir þessir aðiljar hafi áhuga fyrir því að fá þennan gífurlega kostnað lækkaðan.

Það mun líka mega fullyrða, að nú dvelja hjer í heilsuhælum og sjúkrahúsum miklu fleiri sjúklingar en þurfa þar að vera. En þetta stafar af óheppilegum ákvæðum berklavarnalaganna, og þetta hleypir fram kostnaði ríkissjóðs að stórum mun.

Það er eflaust margt fleira en jeg hefi nú drepið á, sem þarf að endurskoða í lögunum um varnir gegn berklaveiki. T. d. mun það nú vera svo við sjúkrahús víðsvegar um land, að læknar fá sjerstaka borgun fyrir að stunda þessa sjúklinga, og að sú borgun er tekin og miðuð við fjölda legudaga. Berklavarnalögin eru hjer liður í atvinnugrein læknanna. Hjer gæti komið til álita að skylda hjeraðslækna til þess að stunda þessa sjúklinga fyrir litla eða enga borgun, og er þó ekki lagt meira á þá með því heldur en ýmsa aðra embættismenn þjóðfjelagsins, sem verða að inna af hendi margskonar og vandasöm verk fyrir ekki neitt. Eftir því, sem jeg hefi komist næst, mun láta nærri, að 70–100 þús. kr. af berklavarnakostnaðinum fari til lækna. Þetta er engin smáræðis fúlga.

Eins og jeg hefi tekið fram í nál. mínu, get jeg ekki fallist á, að frv. þetta verði samþykt nú. Jeg álít, að betra sje að endurskoða lögin, og þó sjerstaklega að reyna að finna einhverja leið til þess að koma hinum gífurlega kostnaði, sem af þeim leiðir, eitthvað niður. Og jeg álít, að besta ráðið til þess sje að fá hjeruðin og sjúklingana þar í lið með sjer.

Jeg legg þess vegna til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, með þeim formála, að hún taki berklavarnalögin til endurskoðunar, og þó sjerstaklega þau ákvæði þeirra, er jeg hefi minst á hjer á undan, og reyni svo að koma með góðar till. um breytingar fyrir næsta þing. Jeg álít, að stjórnin hafi besta aðstöðu til þessa. Hún hefir fengið allar þær upplýsingar, sem hv. meiri hl. nefndarinnar vill að komi fram. Og stjórnin er svo stór aðili í þessu máli, að hún á hreint og beint heimtingu á því að fá alla reikninga berkla- varnakostnaðinum viðvíkjandi í sínar hendur, — líka þá reikninga, sem bæjar- eða sýslusjóðir hafa greitt og geyma hjá sjer.

Berklavarnalögin hafa nú fengið talsverða reynslu, og reynslan hefir sýnt, að kominn er tími til þess að endurskoða þau og fá kostnaðinn við framkvœmd þeirra lækkaðan, án þess þó að draga úr gildi laganna sjálfra og því hlutverki, sem þeim er ætlað að vinna.