05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Sigurjón Jónsson:

Jeg skal byrja á að lýsa yfir því, að jeg er þakklátur hv. meiri hl. nefndarinnar fyrir það, hvernig hann hefir tekið frv. þessu, þar sem hann leggur til, að það sje samþ. með örlitlum breytingum.

Einn nefndarmanna, hv. þm. V.-Sk. (JK), hefir ekki getað gengið inn á frv. og vill vísa málinu til stjórnarinnar. Það eru aðallega tvær ástæður, sem hann ber fram máli sínu til stuðnings. Annarar þeirra er getið í nál. hans, þar sem hann telur, að frv. þetta, ef að lögum verður, muni heldur verða til þess að auka berklavarnakostnaðinn en minka hann. Jeg býst við því, að hann hafi hjer í huga aukinn kostnað fyrir þau hjeruð, er hafa enn ekki náð hámarksgjaldi, enda sagði hann eitthvað á þá leið, að með þessu frv. ætti nú að refsa þeim, sem sparlegast hefðu á haldið.

Hin ástæðan, er hann færði fram, var sú, að hjer væri um stefnubreytingu að ræða, og ef Alþingi samþykti þetta frv., þá ætti það óhægt um vik að taka málið til rækilegrar yfirvegunar.

Jeg skal nú athuga nokkru nánar þessi tvö atriði.

Hv. þm. (JK) heldur því fram, að kostnaður út af berklavarnalögunum sje orðinn mjög mikill. Þetta er alveg rjett. En hann heldur því fram, að kostnaður þessi muni aukast, ef frv. mitt verður samþ. Hann heldur því líka fram, að sýslu- og bæjarfjelög muni ekki, ef frv. verður samþykt, eins og áður hugsa um að draga úr kostnaðinum, ef þau eru skuldbundin til þess að greiða hámarksgjaldið, sem nú er 2 krónur á hvern búsettan eða heimilisfastan mann, án tillits til þess, hverjar ráðstafanir þær geri til þess að hindra berklaveikina og draga úr þeim kostnaði, er af henni leiðir. Sannleikurinn er nú sá, að nálega öll bæjar- og sýslufjelög greiða hámarkið, eða 2 krónur. Gagnvart öllum þeim bæjarfjelögum og sýslufjelögum, sem þegar greiða hámarksgjaldið, getur þessi röksemdafærsla hv. þm. alls ekki staðist. En það munu þó vera fjögur hjeruð alls, er greiða eitthvað minna. Hv. frsm. minni hl. (JK) ætlar nú líklega þessum fjórum hjeruðum það, að þau muni ekkert hugsa um að halda niðri kostnaðinum, eins og þau hafa gert að þessu, ef frumvarp þetta nær fram að ganga. Jeg tel nú þetta getsakir hjá hv. þm. í garð þeirra hjeraða. Get jeg ekki sjeð, að þessar getsakir hafi við nokkur rök að styðjast.

Jeg vil hjer benda á, að samkvæmt frv. hefir stjórnarráðið úrskurðarvald um það, hvenær sjúklingur er styrkhæfur. Þar segir svo, í seinasta málsl.

1. gr. (með leyfi hæstv. forseta):

„Úrskurðar stjórnarráðið ... hvort sjúklingur sje styrkhæfur og að hve miklu leyti“.

Hjer er því stjórnarráðinu í sjálfsvald sett, hvern eða hverja sjúklinga það telur styrkhæfa.

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, hve mikið berklakostnaðarstyrkurinn hefir aukist á seinustu árum og hve þungan bagga ríkissjóður ber nú hans vegna. Kostnaðurinn er nú orðinn alt að 3/4 milj. króna. Þar af greiðir ríkissjóður um 500 þús., en sveitar- og bæjarsjóðir yfir 200 þús. kr. Eins og lögin nú eru, höfum við engin ákvæði um, hverjir skuli hafa eftirlit með og hverjir skuli úrskurða þá reikninga, er af berklavarnalögunum leiða, og það má ekki dragast lengur, að ákvæði sjeu um þetta sett. Vegna þess, hve kostnaðurinn er orðinn mikill, 3/4 miljón króna á ári, þá er sjálfsagt, að haft sje eftirlit með reikningum og að þeir komi allir á einn stað, í staðinn fyrir það, að nú eru þeir úti um alt land — hjá bæjarstjórnum og sýslufjelögum.

Það segir sig sjálft, að þeir, sem eiga að úrskurða þessa reikninga, verða að fylgjast með öllu því, er í málinu gerist. Um sparnaðinn af frv. þessu þarf ekki að taka fram annað en það, að sjálfsagt þykir, að gott og trygt eftirlit sje með öllum greiðslum ýr ríkissjóði, reikningar sjeu vandlega yfirfarnir og úrskurðaðir, nema hvað berklavarnakostnaðinn snertir. Þar er engin ein stofnun, sem ber aðalábyrgð á greiðslunum. Þessu vil jeg kippa í lag og geri jeg ákveðið ráð fyrir, að af því mundi sparnað leiða, segjum, að hann yrði 2%, þá getur hann náð 15 þús. kr. Við höfum oft horft í minna hjer á þingi, en jeg vil þó láta þess getið, að sparnaðurinn getur orðið miklu meiri en þetta.

Við hv. þm. V.-Sk. (JK) höfum komist að svipaðri niðurstöðu um, hve mikið sje greitt fyrir læknishjálp vegna þessara laga. — Ekki er nú hægt að sjá nákvæmlega, hve mikið er greitt til lækna. Jeg hefi spurst fyrir um það í stjórnarráðinu, hve miklu muni nema það, sem læknum hefir verið greitt, en fjekk það svar, að það væri ekki hægt, vegna þess, að reikningarnir væru úti um alt land.

Þetta sýnir best, hvernig eftirlitið með þessum lögum er.

Það er rjett hjá hv. þm. V.-Sk., að kostnaður til lækna út af berklavörnunum mun nema 70–100 þús. kr. á ári. Jeg hefi reynt að afla mjer upplýsinga um þetta og hefi fengið að vita, að árið 1925 nam lækniskostnaður við eitt sjúkrahús hjer á landi um 8840 kr., og árið 1926 við sama sjúkrahús um 8700 kr. Þessi kostnaður er, að því jeg framast veit, um 13% af öllum sjúkrakostnaðinum við umrætt sjúkrahús.

Jeg tek undir það með hv. frsm. minni hl. (JK), að það er einkennilegt, að ríkið skuli greiða einni stjett embættismanna svo mikið fje fyrir aukaverk, mönnum, sem hafa ákveðin embœttismannalaun frá ríkinu, En þetta má best laga með því, að stjórnarráðið fái alla reikninga í sínar hendur.

Þá var hv. þm. (JK) að tala um, að með þessu frv. ætti að refsa þeim hjeruðum, sem svo hefðu vel barist gegn berklaveikinni, að þau þyrftu ekki ennþá að greiða hámarksgjaldið. Ef þetta er rjett, þá ætti hitt að vera rangt, að láta ríkissjóð greiða 2/3 af berklavarnakostnaðinum, eins og nú á sjer stað. Sá kostnaður er tekinn af öllum landsmönnum jafnt — og hvaða refsing er það þá, þótt svo sje fyrir mælt í lögum, að öll hjeruð skuli greiða jafnt til berklavarnanna ? Hjer er líka þess að gæta, að þau hjeruð, sem hafa verið svo lánsöm, að þar eru fáir berklaveikissjúklingar, standa betur að vígi með að greiða þetta gjald heldur en þau hjeruð, þar sem mikið er um berklaveiki.

Þá vil jeg minnast á það atriði, ei mjer virðist aðalatriðið hjá hv. minni hluta (JK), þar sem hann segir, að við stöndum ver að vígi með að endurskoða berklavarnalögin, ef þetta frv. nær fram að ganga. En þetta er ekki rjett, því að hjer er ekki um neina stefnubreytingu að ræða og við stöndum jafnt að vígi eftir sem áður með að endurskoða lögin. Hjer er aðeins gengið út frá því, að sýslusjóðir og kaupstaðasjóðir greiði jafnt, hámarksgjaldið, en allir reikningar verði sendir stjórnarráðinu til endurskoðunar. Með því móti getur maður hugsað sjer, að eitthvað verði dregið úr kostnaðinum, og þá á fyrst og fremst að draga úr kostnaði ríkissjóðs. En það liggur opið fyrir að lækka útgjöld bæjar- og sýslusjóða, ef þeir tímar skyldu koma, sem þó er lítið útlit fyrir, að okkur takist að draga svo mikið úr berkla- varnakostnaðinum, að sá upprunalega ákveðni hluti sýslu- og bæjarfjelaga fari alment niður úr hámarksgjaldinu, því að reynslan er sú, að hann eykst nú hröðum fetum ár frá ári.