05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. meiri hl. (Jón Guðnason):

Jeg hefi ekki mikið að segja, því að hv. flm. (SigurjJ) hefir alveg tekið af mjer ómakið og sýnt glögt, hve mikil þörf er á því, að frv. þetta nái fram að ganga. Frv. þetta, ef að lögum verður, verður ekki til þess að auka berkla- varnakostnaðinn, heldur þvert á móti.

Það segir sig sjálft, að það verður miklu auðveldara að hafa hönd í bagga með því, að kostnaðurinn aukist ekki, eða fari ekki fram úr hófi, ef stjórnarráðið fær alla reikningana í sínar hendur. Jeg get hugsað, að það reynist svo, eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) tók fram, að nokkur tími líði áður en þessi lög verða tekin til rækilegrar endurskoðunar. Misrjetti það, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) talaði um gagnvart þeim hjeruðum, sem ekki hafa náð hámarki, verður hverfandi lítið. Enda eru það ekki nema fá hjeruð og getur eigi orðið um stórar upphæðir að ræða. Hinsvegar standa þau hjeruð sig vel við að leggja þetta fram, sem eru laus við þennan voðalega vágest og afleiðingar hans. Það er rjett hjá hv. þm. Ísaf., að í þessu kemur fram sú sama stefna, sem uppi var þegar berklavarnalögin voru samin. Jeg tel það mjög varhugavert að ganga inn á þá braut, að draga úr berklavarnakostnaðinum með því að draga úr sjúklingum að leita sjer læknishjálpar með opinberum styrk. Hitt er ekki nema rjett, að stjórnarráðið úrskurði, hvort sjúklingarnir sjeu styrkhæfir, eða að hve miklu leyti, og sje þá litið á efnahaginn. Jeg lít svo á, að stjórnin standi í þeim efnum fult svo vel að vígi eins og hjeruðin, einkum að því er snertir að líta hlutlaust á málið.

Brtt. þær, sem við höfum flutt við frv., eru smávægilegar. Við 3. gr. höfum við bætt því ákvæði um ljóslækningasjúklinga, að þeim skuli greiddur styrkur úr ríkissjóði að því er lækningakostnaðinn snertir. önnur brtt. er aðeins til skýringar, en 3. brtt. er nýtt ákvæði.

Að svo mæltu vil jeg aðeins leyfa mjer að óska þess, að frv. nái samþykki hv. deildar.