05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Sigurjón Jónsson:

Hvað það snertir, að með þessu frv. sje áhuginn tekinn frá landsmönnum á því að halda berklavarnakostnaðinum niðri, þá er það vitanlegt, að hjeruðin eru flest öll á hámarki um kostnað af þessum lögum, samkv. breytingum á lögunum frá 20. júní 1923. Það eru aðeins 4 hjeruð, sem ekki hafa náð því enn, og öll líkindi eru til þess, að þau muni ná því, e. t. v. í ár. Veikin hefir farið vaxandi alstaðar og það getur naumast dregið úr áhuganum á að halda kostnaðinum niðri, að hjeruðin greiði hið sama og þau greiða nú.

Þá er uppástunga hv. þm. V.-Sk. (JK) um það, að allir reikningar skuli koma til stjórnarráðsins áður en þeir eru greiddir. Um hana er það að segja, að eins og nú er háttað hafa sjúkrahús heimild til að innheimta reikningana hjá sýslu- og bæjarfjelögum, og þegar þeir koma til stjórnarráðsins, eru hjeruðin búin að greiða sinn hluta. Stjórnarráðið getur því ekki eins og nú er ástatt haft bein afskifti af þessu.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta að sinni.