05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. meiri hl. (Jón Guðnason):

Mig furðar á þeim viðtökum, sem þetta frv. hefir fengið bæði hjá hv. frsm. minni hl. (JK) og nú síðast hjá hæstv. forsrh. (JÞ). Hann lagði áherslu á það, að taka þyrfti öll lögin til endurskoðunar, en jeg get ekki sjeð, að þetta frv. komi að neinu leyti í bága við þá endurskoðun. Þetta er fyrirkomulagsatriði, sem ekki er afgerandi fyrir berklavarnirnar í heild, en sem, frá okkar sjónarmiði, miðar að því að losa einstök hjeruð við mikla erfiðleika og hjálpa þeim aðiljanum, sem ber þyngstu byrðina, ríkissjóði, til að hafa beint eftirlit með kostnaðinum.

Jeg get ekki betur sjeð en að þótt þessi endurbót nái fram að ganga, þá liggi alveg eins opið fyrir að taka berklavarnalögin til gagngerðrar endurskoðunar á næstunni. En með það fyrir augum, að sú endurskoðun getur dregist um óákveðinn tíma, leggjum við áherslu á, að frv. þetta verði samþ.

Hv. flm. (SigurjJ) hefir nú upplýst, að reikningarnir ganga beint til hjeraðanna og þau eru krafin greiðslu á þeim, án þess þau hafi aðstöðu til þess að gagnrýna þá svo sem þyrfti. — Mjer er kunnugt um, að oft hefir verið gengið hart að hjeruðunum með þessar skuldakröfur, og hafa þau þá ekki kunnað við að láta krefja sig lengi, enda ekki haft aðstöðu til annars. Vitanlega má segja, að þetta sje ekki aðalatriði, að reikningarnir skuli sendir beint til stjórnarráðsins. En hitt er mikilsvert atriði, að ekki sje lögð svo þung byrði á sýslusjóðina eins og gert er með lögunum eins og þau eru nú. Jeg vænti svo að lokum, að hv. deild samþykki þetta frv. og að hún sje mjer sammála um það, að með þessu frv., þó að lögum verði, sjeu engar hömlur lagðar á heildarendurskoðun berklavarnalaganna, þegar ástæða þykir til.