30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Frumvarp það, sem hjer um ræðir, var flutt í hv. Nd. af hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og samþykt þar. Allshn. hjer hefir haft málið til meðferðar, og að hennar áliti verður því ekki neitað, að frv. felur að vissu leyti í sjer umbætur á núverandi fyrirkomulagi að því er snertir framkvæmd berklavarnalaganna. Sjerstaklega ætti að geta náðst eftirlit með daggjöldum og öðrum kostnaði í sambandi við framkvæmd laganna frekar en nú er. Hinsvegar hefir þegar komið í ljós, að sá kostnaður, sem af berklavörnunum leiðir og fer sívaxandi, sje þegar orðinn ofvaxinn ríkissjóði. Þegar á þinginu 1924 var borið fram frv. til laga um breytingu á þessari löggjöf, sem miðaði að því að draga úr kostnaði ríkissjóðs. Það var ekki samþykt, heldur var því vísað til hæstv. stjórnar, vegna þess aðallega, að menn töldu, að löggjöfin væri ekki farin að sýna sig svo, að ástæða þætti til að breyta henni að svo komnu. Nú hefir þessi kostnaður aukist mjög síðan og allshn. þessarar hv. deildar er yfirleitt þeirrar skoðunar, að endurskoðun berklavarnalaganna sje harla nauðsynleg. Að þessu leyti er enginn ágreiningur meðal nefndarmanna, en einn þeirra, hv. þm. A.- Húnv. (GÓ), sem hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, er samt þeirrar skoðunar, að þetta frv. geti gengið fram, þó að hann hinsvegar álíti, að löggjöfina í heild sinni þurfi að endurskoða. En meiri hl. nefndarinnar leit svo á, að með því að samþ. þetta frv. væri tafið fyrir endurskoðun laganna í heild og framkvæmdum þeirra. Okkur duldist ekki, að mestu gallarnir eru reyndar ekki á lögunum sjálfum, heldur á framkvæmd þeirra, af því að þau opna aðgang að miklum kröfum á ríkissjóð, sem að vísu eru í flestum tilfellum rjettmætar, en geta þó orðið of frekar, ef hlutaðeigandi yfirvöld hafa ekki nægilegt aðhald í því efni.

Við umr. þessa máls í hv. Nd. var bent á ýmislegt, sem gerði kostnaðinn meiri en hann þyrfti að vera. Til dæmis var minst á, hvað læknishjálp væri yfirleitt dýr og fullyrt, að að minsta kosti 100 þúsund krónur af hinum opinbera berklavarnakostnaði færi í beina læknishjálp. Nefndin er þeirrar skoðunar, að það sje mjög nauðsynlegt fyrir þingið að fela hæstv. stjórn þessa löggjöf til endurskoðunar til næsta þings, í því trausti, að umbætur fengjust, ef á að halda við grundvallarhugsun sjálfra berklavarnalaganna, þeirri, að berklasjúklingar, sem eru svo illa efnum búnir, að þeir standast ekki kostnaðinn af veikindum sínum, þurfi ekki að fara á mis við nauðsynlega aðbúð og læknishjálp. Þessi mannúðarhugsun, samfara nauðsyninni á að vernda þjóðfjelagið gegn þessari hættulegu veiki, virðist vera uppruni og orsök berklavarnalöggjafarinnar í heild sinni. En hinu er ekki hægt að loka augunum fyrir, að framkvæmd laganna verður ríkissjóði æ kostnaðarsamari. Þess vegna þarf að taka löggjöfina og framkvæmd hennar, einkum kostnaðarhliðina, til gagngerðrar athugunar. Með það fyrir augum leggur allshn. til, að þessu máli verði nú vísað til stjórnarinnar, í því trausti, að hún taki það til nákvæmrar athugunar og leggi árangurinn í frv.formi fyrir næsta þing.