30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skildi ræðu hæstv. forsrh. (JÞ) þannig, að hann hefði skilið mig svo, sem jeg væri að mótmæla því, að berklavarnalöggjöfin væri endurskoðuð. (Forsrh. JÞ: Nei, nei). Jæja, mjer skildist það samt svo, en það er síður en svo, að mjer þyki þessi endurskoðun óþörf, og þótt frv. verði samþykt, þá getur hv. deild gjarnan komið með þáltill. til hæstv. stjórnar, í þá átt að hún láti endurskoða lögin, ef ekki þykir nægilegt það umtal, sem hefir orðið um það í báðum deildum. En það er ekki meining mín, þótt jeg telji frv. til bóta, að jeg vilji láta það koma í veg fyrir, að lögin verði endurskoðuð, en það má líka taka tillit til þess, að þó að frv. um berklavarnir komi fram á næsta þingi, þá er enganveginn víst, að það verði samþykt, því að það er svo oft, að stjfrv. ganga ekki fram á fyrsta þingi, sem hefir þau til meðferðar.