07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal aðeins gera þá grein fyrir einu atriði að því er snertir betri tilhögun á framkvæmd þessara laga. Með núverandi tilhögun eru orðin talsverð brögð að því, að sumt fólk dvelur lengur en það þarf í sjúkrahælum. Jafnvel þó að við höfum fleiri rúm fyrir berklasjúklinga að tiltölu við fólksfjölda en aðrar þjóðir, er það svo, að þeir, sem hælisvistar þurfa, verða að bíða vegna annara, sem fyrir eru, sem síður þyrftu þar að vera. Fyrir þessu hefi jeg umsögn yfirlæknisins á Vífilsstöðum. En á því ríður einmitt mest, að þeir, sem sýkjast, komist undir læknishendur í tæka tíð, áður en veikin kemst á hátt stig.