17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3643 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. forsrh. (JÞ) lýsti yfir því, að það væri eindregin krafa frá Dönum að fá nefndarmönnum fjölgað. — Rjett er það!

En hversu hefðum vjer Íslendingar komist langt í sjálfstæðisbaráttu vorri, ef vjer hefðum látið það ráða að fara eftir eindregnum kröfum og tilmælum Danastjórnar um sjálfstæðismál vor?

Það er krafa frá Dönum, segir hæstv. forsrh. — krafa um danska íhlutun um íslenska löggjöf.

Jeg mintist á það á lokaða fundinum á dögunum, sem jeg ætla annars að leiða hjá mjer, og drap á það aftur í fyrri ræðu minni, að Alþingi beri skylda til að standa á móti slíkum kröfum samkvæmt eindregnum skýringum formælenda sambandslaganna og fullyrðingum þeirra gagnvart íslenskri þjóð. Og jeg get látið hringja um alt Ísland til mótmæla gegn slíkri íhlutun danskra valdhafa um löggjöf Íslendinga.

Annars er það undarlegt, að jafnvitur maður og hæstv. forsrh. skuli tala um þetta eins og hjer sje um eitthvert hjegómamál að ræða. Því að varla mundi Danastjórn sækja þetta með svo miklu kappi, ef henni þætti það hjegómamál.

Hv. 1. landsk. (JJ) sagði, að dönsku nefndarmennirnir hefðu aldrei blandað sjer í íslensk mál. En hvað hafa þeir gert annað?

Nefndin er til þess eins stofnuð, að Danir geti haft hönd í bagga um íslensk mál, en vjer höfum aldrei haft nókkra minstu hvöt til þess að hæutast um löggjöf Dana. Íslendingar hafa verið andvígir þessari nefndarskipun, og einkum því, að fara að efla hana að starfskröftum; Alþingi hefir tvisvar kveðið niður till. um það, og svo ætti það enn að verða í þriðja sinn, þegar þessi draugur stingur upp höfðinu á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Þar sem hv. 1. þm. Árn. (MT) hjelt því fram, að lofað hefði verið af hálfu Íslendinga að hafa fjóra menn í nefndinni frá hvoru ríkinu, ef Danir kynnu að óska, þá hlýtur þetta að stafa af einberu misminni, því að slíkt loforð hefir aldrei átt sjer stað, enda hefði Alþingi þá eigi tvisvar felt till. um þetta, ef svo hefði verið.

Þess vegna leyfi jeg mjer að skora á hæstv. forseta að láta nafnakall fara fram um mál þetta, svo að skjalfest verði, hverjir þeir sjeu, er nú söðla um og láta vilja undan þessum kröfum Dana.