07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) að öðru leyti en því, að mjer þykir líklegt, að hann álíti þessa skriflegu brtt. svo sanngjarna, að hann telji það nokkurt atriði, hvort hún nær samþykki eða ekki. En með henni er farið fram á, að þau hjeruð, sem ekki hafa fengið berklavarnastyrk sinn endurgreiddan, sjeu ekki skattlögð framvegis á þennan hátt fremur en önnur hjeruð.

Háttv. 5. landsk. (JBald) snerist heldur illa við brtt. og kallaði þær vera til skemda. Hann virtist ánægður með framkvæmd laganna og taldi ekki þörf á betri tilhögun. Jeg get ekki verið samdóma hv. þm. í þessu. Eins og hjer hefir verið lýst af hæstv. forsrh. (JÞ), og allur almenningur veit, ekki síst þeir, sem verið hafa milliliðir um að koma sjúklingum fyrir til hælisvistar á Vífilsstöðum, er þar oftast nær svo fult, að sjúklingar, sem mikla þörf hafa hælisvistar, verða að bíða von úr viti vegna annara manna, sem þar sitja, án þess að þeir hafi eins mikla þörf fyrir það og hinir, sem bíða. Þó að hv. 5. landsk. sje ánægður með þetta, býst jeg við, að fáir verði honum samdóma. Hann hjelt, að það mundi draga úr framkvæmd berklavarnalaganna, ef farið væri inn á þá braut að fella úrskurð um, hvort sjúklingar væru styrkhæfir að nokkru eða öllu leyti. En hann veit, að í 14. gr. berklavarnalaganna frá 1921 eru ákvæðin um þetta svo rúm, að þau geta svo að segja náð til allra, því að allir bíða tjón við að fara í sjúkrahús. Hitt er vitanlegt, að ástæður manna eru mismunandi, og því rjett að gera greinarmun á því, hvort menn skuli taldir styrkþurfar að öllu leyti eða nokkru leyti. Væri efnahagur bæjarfjelaga, sýslufjelaga og ríkisins svo góður, að engrar aðgæslu væri þörf í þessu efni, þá væri óhætt að láta þessi ákvæði standa. En því miður er það ekki svo. Það eru líka fleiri sjúklingar en berklasjúklingar, sem eiga örðugt uppdráttar, en þeir verða að bera hita og þunga dagsins af þessari löggjöf eins og hún er nú. Það er ekki hægt að segja, að breytingartillögurnar miði til skemda, nema svo sje ályktað, að heimildin til að ákveða styrkhæfi sjúklinga verði misbrúkuð. Sje gengið út frá því, að lögunum verði samviskusamlega framfylgt, er óhætt að fullyrða, að brtt. miða til bóta. — Jeg sje ekki ástæðu til að fara lengra út í ummæli hv. 5. landsk. Jeg held, að þetta uppþot hans standi í sambandi við það, að hann sje óánægður með úrslit næsta máls á undan og sje því eitthvað úrillur, en ekki af því, að hann sjái ekki, að brtt. nefndarinnar fara í rjetta átt.