07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Jón Baldvinsson:

Mjer finst ennþá ljósara eftir ræðu hv. 6. landsk. (JKr), að brtt. þær, sem nefndin ber fram, sjeu frekar til skemda, því þegar fara á að framkvæma lögin á þann hátt að láta hvern borga það, sem hann getur, má búast við, að það verði gert á kostnað þess bata, sem hann hefir fengið í heilsuhælinu. Því að maður, sem kemur af heilsuhæli, þarf að láta Sjer halda áfram að batna, en til þess að hann geti það, þarf hann undir flestum kringumstæðum fje; þess vegna tel jeg rjett að fara þá sömu leið í þessum efnum og farin hefir verið hingað til, að láta alla fá ókeypis heilsuhælisvist, sem ekki eru því betur efnum búnir. Jeg sje því enga ástæðu til að klípa af þessum styrk, enda gæti það haft hin verstu áhrif. Hvað á t. d. maður, sem búinn er að dvelja lengi í heilsuhæli og eyða öllum efnum sínum, að gera, þegar hann kemur þaðan? Hann á enga peninga og á engan að, sem getur hjálpað honum. Fyrir honum liggur því ekkert annað en að fara á sveit sína, vinna þar sjer um megn, veikjast aftur og lenda enn á ný í heilsuhælinu, og þá vitanlega að öllu leyti á kostnað hins opinbera, þegar efnin eru búin. Hefði þá ekki verið betra að lofa honum að halda sínum litlu efnum, svo að hann hefði getað notað þau til þess að láta sjer halda áfram að batna og ná fullri heilsu?

Hjer er líka breytt um stefnu, þar sem ráðuneytið á að meta það, hvað hver borgi. Þannig getur stjórnin t. d. heimtað af manni, sem á 500 kr., að hann láti þær allar upp í legukostnaðinn og standi svo uppi með tvær hendur tómar og verði annað tveggja að fara að vinna og veikjast aftur, eins og hv. 6. landsk. (JKr) var að tala um, eða fara á sína sveit.

Þá drap háttv. frsm. (JJós) á það, að jeg mundi vera svo mjög á móti þessu máli meðal annars af því, að jeg væri svo ergilegur út af afdrifum síðasta málsins, sem hjer var til umræðu. Þetta eru bara, hugarórar hjá háttv. frsm. Og satt sagt hjelt jeg, að hann myndi ekki fara að ýfa það upp aftur, hvernig fór um það mál, því að afgreiðsla þess var honum og hans flokksbræðrum síst til sóma.