12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Sigurjón Jónsson:

Jeg fyrir mitt leyti get lýst yfir því, að jeg get gengið inn á brtt. hv. þm. V.-Sk. (JK). Jeg tel það rjett, að því sje slept að fella frv. þetta inn í texta laganna frá 1921, þar sem það virðist liggja fyrir, eftir því sem fram kom í efri deild, að lögin verði endurskoðuð innan skamms. Hitt atriðið, að lög þessi öðlist þegar gildi, en komi þó ekki til framkvæmda að því er snertir greiðslur sýslu- og bæjarfjelaga fyr en 1. jan. 1928, get jeg líka gengið inn á.

Um breytingar þær, sem gerðar voru á frv. þessu í efri deild, er það að segja, að jeg tel þær skýra betur það, sem meint var með frv. þessu í upphafi, að sjúklingurinn geti orðið styrks aðnjótandi, þó að ekki sje greiddur allur kostnaður fyrir hann.

Þá hefir því verið bætt inn í frv., að stjórnarráðið geti sett reglugerð um efnahagsskýrslur berklasjúklinga o. fl. Sömuleiðis að hjeruðin fái endurgreitt úr ríkissjóði, ef framlag þeirra, 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann í lögsagnarumdæminu, fer fram úr 2/5 kostnaðar við berklavarnir vegna sjúklinga þeirra, sem dvöl áttu í hjeraðinu. Þetta síðara atriði tel jeg skifta litlu máli fjárhagslega fyrir hjeruðin, en vel má vera, að það verði hvöt fyrir þau til þess að halda gjaldinu sem mest niðri.