17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Pjetur Ottesen:

Hæstv. forsrh. (JÞ) sagði, að jeg hefði í ræðu minni áðan viðhaft orð, sem ekki mættu heyrast á löggjafarþingi sjálfstæðs ríkis. Jeg mótmæli því algerlega, að jeg hafi viðhaft nokkur slík orð, og vil jeg í því sambandi minna hæstv. forsrh. á, að það er ekki hans, heldur hæstv. forseta, að grípa fram í, ef honum þykir eitthvað óþinglega mælt, og víta þá, sem það gera.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) var að tala um það, að það væri brot á loforðum okkar við Dani, ef þeir fengju ekki ávalt að hafa einn mann frá hverjum stjórnmálaflokki þar í landi í sambandslaganefndinni. Jeg mótmæli þessu algerlega; þessi ummæli eru gersamlega rakalaus; það hefir ekkert loforð verið gefið af okkar hálfu í þessu efni framar því, sem gert var með skipun nefndarinnar í öndverðu.

Annars er jeg hálfhissa á því, jafnskeleggur og hv. 1. þm. Árn. (MT) þóttist vera 1918, að hann skuli nú vera búinn að tína svona hrapallega niður fræðum sínum frá þeim tíma.

Hv. 1. landsk. (JJ) hjelt, að það væri af sparnaðarástæðum einum, að við hv. þm. N.-Þ. (BSv) leggjumst á móti því að fjölga mönnum í nefndinni. En það er fjarri því, heldur byggist andstaða okkar gegn því að fjölga í nefndinni fyrst og fremst á því, að með þessu er tvímælalaust gengið í berhögg við þá stefnu, sem lögð var til grundvallar fyrir samþykt sambandslaganna að þessu leyti á Alþingi 1918, og jafnframt brigðuð þau loforð, sem kjósendum landsins voru gefin áður en þeir greiddu atkv. um málið. Að því leyti sem starf þessarar nefndar er ekki orðið annað en algert „humbug“ enn, þá skortir það, sem eftir er að svo verði, að efnd sjeu þau loforð, sem þjóðinni voru 1918 gefin um, að svo skyldi verða.

Það er líka fullkomlega rjettmætt að tala um kostnað í þessu sambandi; þegar um „humbug“ er annarsvegar að ræða, þá er óþarft að kosta miklu til. Hv. 1. landsk. talaði um 500 kr. þóknun til hvers nefndarmanns og þótti það ekki mikið. En þessar tölur gefa algerlega villandi upplýsingar um kostnaðinn við nefndina. Það árið, sem nefndin heldur fundi sína í Kaupmannahöfn, kostar hún okkur miklu meira fje. Þannig komst kostnaðurinn við nefndina eitt árið upp undir 12 þús. kr., og er lítið efamál, að þeirri upphæð hefði verið betur varið til einhvers þarfara.

Þá vil jeg mótmæla því harðlega hjá sama hv. þm. (JJ), að okkar málum sje því betur komið, sem fleiri Dönum er greidd gata að því að gera till. um íslenska löggjöf.

Mitt álit er það, að þessum málum sje best komið í okkar höndum, og því betra, sem við erum lausari við íhlutun eða afskifti erlendra valdhafa um þau mál.