26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Halldór Stefánsson:

Við höfum tveir nefndarmenn skrifað undir nál. með fyrirvara, og er hann af sömu ástæðu hjá okkur báðum. Því ætti að nægja, að jeg gerði einn grein fyrir honum af beggja hálfu. Jeg hygg, að það hafi komið mönnum nokkuð á óvart, er þetta frv. var borið fram, sakir þess, að það var ekki boðað er fjárlög voru hjer fyrst til umræðu. Hefði verið nokkurnveginn sjálfsagt að geta frv. þá, ef hugsað var að bera það fram. En með því að bera frv. ekki fram fyr en meðferð fjárlaganna var komin svo langt, þá lítur svo út, sem hæstv. stjórn vilji láta atvikin neyða menn til að ganga að því. Hinsvegar ber frv. vitni um þá óreiðu, sem nú er í tolla- og skattamálum hjer á landi. Það sýnir ljóslega, að þörf er að taka þau mál til gagngerðrar yfirvegunar, svo sem stungið var upp á í þessari hv. deild í vetur, en felt var, mest fyrir atbeina hæstv. stjórnar og flokks hennar. Hefði sú till. verið samþykt, væri frá okkar sjónarmiði minna á móti því að fallast á þetta frv. til bráðabirgða, meðan á endurskoðun stæði. Eins og nú er komið, sjáum við okkur þó ekki annað fært en að fallast á frv., úr því sem komið er, einkum þar sem við álítum gengisviðaukann rjettlátari en t. d. vörutoll, og að þegar, eða ef, að því kæmi að ljetta af álögum á þjóðina, þá ætti að fella niður vörutollinn, en að því leyti, sem hann gæti ekki fallið niður með öllu, þá að hækka verðtollinn um það. Annars hefi jeg áður lýst afstöðu minni til tolla- og skattamála og sje ekki ástæðu til að fara um hana fleiri orðum, að sinni.