26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil þakka hv. fjhn. undirtektir hennar undir þetta frv. Mjer skilst, að hún leggi í einu hljóði til, að það sje samþykt, og fyrirvari tveggja hv. nefndarmanna sje af öðrum ástæðum en þeim, að þá greini á við hina um frv. sjálft eða efni þess.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að frv. bæri vitni um óreiðu í tolla- og skattamálum. Þessu verð jeg algerlega að mótmæla. Á þessum málum er alls engin óreiða, og síst af öllu sýnir þetta frv. nokkuð slíkt. Frekar mætti kalla óvenju þann sið, er hið háa Alþingi hefir tekið upp á síðari árum, að binda ýms tekjuaukafrv. við ákveðinn tíma, svo að altaf þarf að vera að endurnýja þau. — Annars hafa verið gerðar aths. við það utanþings, og nú einnig af hv. 1. þm. N.-M., að þetta frv. sje seint fram komið. Út af þessu vil jeg aðeins segja, að eins og tekjuhlið fjárlaganna var áætluð frá minni hálfu, kom mjer ekki til hugar, að nokkrum manni gæti skotist yfir, að stjórnin ætlaðist til, að lögin um gengisviðauka hjeldust í gildi. Það var annað, sem gerði það, að þetta var ekki lagt fyrir þegar í þingbyrjun. Eins og jeg hafði getið um þegar á síðasta þingi, og eins og jeg gat um í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárlaganna í ár, var það tilætlun stjórnarinnar að yfirvega, hvort unt væri að komast af með þær tekjur, sem nú eru lögmæltar, eða hvort þyrfti að stinga upp á tekjuauka, sem að einhverju leyti bætti upp þá tekjurýrnun, sem leiddi af þeirri breytingu á vörutollslögunum, er gerð var á síðasta þingi, þegar lækkaður var kola- og salttollur og feldur burt tunnu- og kornvörutollur. Jeg lýsti því þá þegar við meðferð þessa máls í fyrra, og nú aftur í þingbyrjun. En það var nú svo, að til þess að ráða það endanlega við sig, hvort stjórnin vildi stinga upp á einhverri uppbót fyrir tekjumissi þessara laga, var frv. látið bíða, því að þá var auðvitað hægt að fá fyllri grundvöll undir þessar athuganir, því lengra sem leið frá áramótum og því meiri reynsla sem fengin er eftir þessa skerðingu á tekjunum.

Ef nú hefði þurft að stinga upp á tekjuauka, þá var stjórninni það ljóst, að eitt af því, sem komið gat til mála, það var að fara ekki fram á að framlengja gengisviðaukann óbreyttan, heldur stinga upp á breytingum, sem snerti það mál; en að eiga það á hættu að þurfa að leggja tvö stjfrv. um það sama fyrir þingið, vildi hún ekki, og þess vegna var dregið að leggja þetta stjfrv. fyrir þingið, þar til jeg var búinn að afráða það við mig, að jeg ætlaði ekki að fara fram á neinar hækkanir á þeim álögum, sem þetta frv. leggur á landsmenn. Jeg vil þó ekki segja, að það sje þar með alveg loku fyrir það skotið, að stjórnin biðji um frekari tekjur en nú er komið, en þykir þó sennilegast, að hún reyni að hliðra sjer hjá því nú og skjóti því máli á frest til næsta þings.