26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil leiðrjetta þau ummæli hv. 4: þm. Reykv. (HjV), að Íhaldsflokkurinn hafi stært sig af því á þingmálafundum, að gengisviðaukinn væri afnuminn. Þetta er misskilningur, sem sýnir, að hv. þm. (HjV) hefir ekki fylgst nógu vel með í þingmálum áður en hann varð þingmaður.

Það hafa ýmsir getið þess á þingmálafundum, að það væri búið að afnema gengisviðaukann á vörutolli, en það er alt annað en að afnema gengisviðauka í heild sinni. Þessu hefir hv. þm. (HjV) auðsjáanlega ekki veitt eftirtekt. En hvað það snertir, að því hafi verið lofað, að þessi gengisviðauki skyldi falla niður, þá hefir því aldrei verið lofað, nema að því leyti eins og lögin voru upphaflega úr garði gerð, að það mátti búast við, að hann fjelli niður, þegar gengi íslenskrar krónu hækkaði; en þar fyrir hefir aldrei verið lofað neinu um það frá stjórnarinnar hálfu, nje heldur hafa komið fram ummæli um það frá þingmönnum, heldur þvert á móti. Þegar fjhn. þessarar hv. deildar á síðasta þingi bar fram breytingar á vörutollslögunum, þá voru færðar þær ástæður fyrir þessari breytingu að lækka toll á nauðsynjavörum, að það væri rjettara að breyta tollum okkar í þá átt að lækka hann á nauðsynjavörum heldur en að lækka á munaðarvörum, og þess vegna er búið að skerða tekjur ríkissjóðs sem svarar til nokkurs af því, sem gengisviðaukinn hefir gefið okkur, þó að það hafi þótt rjettlátara að gera þá tekjuskerðing á öðru sviði heldur en gengisviðauka.

Það er alveg rjett hjá hv. 4. þm. Reykv., að stjórnin gerði ráð fyrir því, að þessi lög væru í gildi, að minsta kosti að efni til, eftir 1928. Jeg býst við, að það komi að því, að tolllögin verði endurskoðuð og að þessi gengisviðauki verði þá tekinn upp í ákvæði sjálfra tolllaganna, og þá fellur þessi gengisviðauki burtu að forminu til. En þar sem bæði jeg og hv. frsm. nefndarinnar (KIJ) höfum ekki gert ráð fyrir því, að gengisviðaukinn verði afnuminn, þá vona jeg, að hv. 4. þm. Reykv. muni eftir þessari viðurkenningu sinni á þinginu 1928 og beri okkur ekki á brýn neina brigðmælgi og svik, þótt við þá höldum því fram, að ríkissjóður þurfi að halda á þessum tekjum áfram.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) finst þetta vera óreiða, að þurfa að framlengja þessa tekjulöggjöf frá ári til árs. Hv. þm. (HStef) má þá hafa það orð fyrir mjer, ef hann vill, en annars held jeg, að það sje ekki samkvæmt málvenju að nota orðið „óreiða“ um slíka hluti.

Þá sagði hv. þm. (HStef), að jeg hefði komið með afsakanir fyrir því, að þetta frv. kom svo seint fram. En jeg þarf þess ekki, því að frv. er nægilega snemma fram komið. Hitt kannast jeg náttúrlega við, að mjer láðist að geta um það við 1. umr. fjárlaganna, að fjárlagafrv. væri þannig úr garði gert, að reiknað væri með þessum tekjulið; en það er nú svo, að það má lengi halda áfram að telja upp hluti, sem ekki hefir verið getið um, af því að þeir liggja svo í augum uppi, að ekki er þörf að geta um þá. í þessari framsöguræðu fjárlaganna fanst mjer, að jeg þyrfti fremur að leggja fram skýrslu um það, sem menn gætu ekki vitað um öðruvísi, heldur en að taka fram sjálfsagða hluti, og það er mín afsökun. Enda held jeg, að enginn hv. þm., sem nokkuð hefir litið á tekjuhlið fjárlagafrv., hafi verið í vafa um það, að þar væri reiknað með núgildandi gengisviðauka óbreyttum.