09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Jónsson:

Jeg var ekki við 2. umr. þessa máls, en hafði sjerstöðu í nefndinni að því leyti, að jeg álít það neyðarúrræði að framlengja þessa tolla lengur en til er ætlast. Vil jeg nú spyrja hæstv. stjórn og fá að vita álit hennar um það, hvort ekki á að verða á sú breyting, sem ætlast var til í upphafi, að gengisviðaukinn lækki með hækkun krónunnar. En sje það ekki gert, hvort þá á ekki að koma með annan eðlilegri skattstofn, þegar grundvöllurinn, sem á var bygt með þessum lögum, lággengi krónunnar, er fallinn. Og eins vil jeg spyrja hæstv. stjórn að því, hvernig á því stendur, að þetta frv. kom svo seint fram.