09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Jónsson:

Það er leiðinlegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) skuli vera svo illa að sjer í skattalöggjöfinni, að hann veit ekki, að mestur hluti útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum rennur ekki í þá sjóði, sem hann talaði um. Það lítur helst út fyrir, að hæstv. fjrh. sje ekki kunnugt um það, að mest af gjaldinu gengur beint í ríkissjóð.

Það kemur ekki til neinna mála, að landbúnaðurinn eigi að greiða til langframa kostnað við landhelgisgæsluna, og þess vegna er sá skattur ranglátur.

Það lítur helst út fyrir, að hæstv. fjrh. haldi, að gengisviðaukinn nái aðeins til tolla á tóbaki og vínum; en hann kemur niður á mörgum öðrum vörum, sem eru allþungt skattaðar undir, en mikið notaðar á hverju heimili, ekki síst á hinum fátækari heimilum. Það gægðist því upp hjá hæstv. ráðherra (JÞ) nú, eins og oft endranær, að hann vill hafa skattana sem þyngsta á þeim, sem síst eru færir um að bera þá, en ljetta sköttum af hinum.