09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer er vel kunnugt um það, að ekki rennur alt útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum í ræktunarsjóðinn, en hv. 1. landsk. missýnist mjög, er hann heldur, að nokkuð af því gjaldi gangi til úthalds varðskipanna. Það er ákveðinn hluti af útflutningsgjaldsaukanum — er þó svarar meiru en því, sem landbúnaðurinn leggur til — sem rennur til ræktunarsjóðs upp í þá miljón, sem honum var lofað. Sjávarútvegurinn hefir nú í 11/2 ár greitt sinn hluta af útflutningsgjaldsaukanum í ræktunarsjóð, en það er fyrst frá byrjun þessa árs, að gjaldaukinn af sjávarafurðum fer að ganga til landhelgisgæslu.

Þegar talað er um það, hverjir eigi helst að borga tollana, þá tel jeg rjett, að þeir beri talsverðar byrðar af þeim, er telja sig hafa efni á því að kaupa munaðarvörur, sem hár tollur og gengisviðauki hvílir á. Þar skilur okkur hv. 1. landsk. Hann vill, að þeir, sem eyða fje í óþarfa, sleppi sem allra mest við gjöld í ríkissjóð, en á hina, sem halda uppi atvinnurekstri og framkvæmdum í landinu, vill hann leggja svo miklar skattabyrðar, að þeir sligist undir, þegar harðnar í ári. Jeg er óhræddur að leggja út í samanburð á stefnu okkar í þessum málum, en þar sem háttv. 1. landsk. hefir nú talað sig dauðan, mun jeg ekki fara frekar út í það að sinni.