26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

17. mál, landsreikningar 1925

Frsm. (Jakob Möller):

Um frumvarpið sjálft þarf jeg ekkert að segja umfram það, sem sagt er í nál. Það hefir slæðst inn í það prentvilla, sem þó kemur ekki fram í niðurstöðutölum neinum og breytir því engu. Frá nefndinni á jeg að skila því viðvíkjandi 7. till. yfirskoðunarmanna um gjöld úr landhelgissjóði, að nefndin felst á þá skoðun yfirskoðenda, að það sje tæplega heimilt að greiða slík gjöld úr landhelgissjóði, enda má komast hjá því, þar sem sjerstök fjárhæð er ætluð í fjárlögum til landhelgisgæslu, og mætti taka það þar.

Þá eru það sjerstaklega 18.–20. till. yfirskoðunarmanna, sem til athugunar koma. Þó að nefndin yfirleitt geri mun á skuldum steinolíuverslunarinnar og vínverslunarinnar, þá verður að taka undir það með yfirskoðunarmönnum, að það er rjett að gæta hinnar mestu varúðar og takmarka sem mest lánsverslun og leggja áherslu á innheimtu. En það stendur nú svo á, að það verður ekki hjá því komist að veita nokkur lán, úr því að þessar verslanir eru reknar. Það er nú þannig háttað högum atvinnuvega vorra, að það verður alls ekki hjá því komist að því er steinolíuverslunina snertir. En hvað snertir vínverslunina, þá tekur nefndin algerlega undir það með yfirskoðunarmönnum, að útistandandi skuldir eru orðnar alt of miklar, og það verður að gera gangskör að því að draga úr þeim. Enda mun nú, eins og einn yfirskoðunarmaður landsreikninganna tók fram í gær, í ráði að koma fram með sjerstaka till. um þetta, og skal jeg því ekki fjölyrða um það frekar.

Um 19. gr. er það að segja, að einstakir nefndarmenn hafa ýmislegt að athuga við hana, og sjerstaklega þykir nefndinni 27. liðurinn í 19. gr. mjög rífleg borgun í samanburði við starfið. Jeg man svo ekki, að það sje fleiri sem jeg á að skila frá nefndinni.