25.02.1927
Neðri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

38. mál, landskiftalög

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Landskiftalögin frá 1913 eru í 14 greinum. Þau lög eru að ýmsu leyti hagkvæm, og ekki síst nú á tímum, þegar jarðrækt er mjög að fara í vöxt og sú stefna ríkir, að skifta jörðum í fleiri parta. Ástæðan til þess, að jeg flyt samt þetta frv. um breytingu á þessum lögum, er sú, að reynslan hefir sýnt — og einkum eftir því sem lengra líður —, að lögin eru ófullnægjandi að sumu leyti; og að einu leyti er ákvæði þessara laga andstætt öðrum ákvæðum og anda laganna.

Í þessu frv. eru því fólgnar breytingar á fimm fyrstu greinum laganna.

Aðalbreytingarnar eru í þrennu lagi.

Lögin heimila ekki skiftingu á þeim landsnytjum, sem áður hefir verið skift, svo sem túni og engjum. Fyrsta aðalbreytingin, sem í frv. er fólgin, gengur út á það að heimila endurskiftingu, að svo miklu leyti, sem skipulagsbreyting er. En það er eindregið tekið fram í frv., að það megi ekki gera hlutfallsbreytingu. Þessar skipulagsbreytingar eru oft nauðsynlegar, sökum þess að áður fyr hefir skifting ekki verið gerð með hliðsjón af því, sem síðar kom í ljós, að var miklu hentugra. Og þótt svo væri, að menn ættu að geta gert slíka skiftingu sjálfir, þá er það oft og einatt, sem erfitt er að fá því komið í kring.

Önnur aðalbreytingin er viðvíkjandl því ákvæði laganna, að öll skifting, sem fram fer á sambýlisjörðum, sje miðuð við jarðamat. Vitanlega getur þar ekki verið átt við annað jarðamat en það, sem gildir í hvert skifti, sem skifti fara fram.

Nú hefir það komið í ljós eftir síðasta jarðamat, að slík skifting á óskiftu landi, sem miðuð er við nýja matið, yrði þá eftir öðrum hlutföllum en eignahlutföllum. Það hefir t. d. komið fyrir, að 1/4 hluti úr jörð, sem er í raun og veru sjereign, hefir orðið hærri í mati en 1/4 af mati allrar jarðarinnar óskiftrar. Og ef nú ætti að fara að skifta einhverju óskiftu landi, þar sem svona stendur á, og farið væri eftir því ákvæði laganna að miða skiftingu við jarðamat, þá fengi sá, sem á 1/4 jarðarinnar — sem er í hærra verði —, meira af óskiftu landi en honum bæri.

Jeg álít nauðsynlegt að breyta þessu; því að jeg veit dæmi til þess, að þar, sem svona stóð á, hefir eigandi þess partsins, sem hækkaði í verði, haldið fram, að skifta ætti eftir því jarðamati, sem nú gildir. Í greinargerð frv. eru einnig tilfærð dæmi, sem sýna, að breyting á þessu ákvæði er nauðsynleg.

Jeg skal taka það strax fram, að þessar tvær aðalbreytingar, sem jeg fer fram á, miða einungis að því að færa lögin í fullkomnara horf, með Öðrum orðum: það eru ekki eiginlegar breytingar, heldur viðauki við lögin.

Þriðja aðalbreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, gengur aðallega út á að nema úr gildi eitt ákvæði laganna, sem að mínu áliti gengur alveg í öfuga átt við aðalanda laganna. Það er ákvæðið um það, að þegar krafist er skifta á landi einhverrar sameignarjarðar, og landinu fylgja einhver hlunnindi, sem nánar er tiltekið um í lögunum, þá má ekki skifta landinu, nema meiri hluti eigenda jarðarinnar samþykki skiftin.

Það getur staðið svo á í þessu tilfelli, að einn sje eigandi meiri hluta jarðarinnar, og hinir tveir eða fleiri. Þá geta þeir ekki fengið skiftingu á landinu, nema eigandi meiri hluta samþykki, jafnvel þótt þeir færu ekki fram á að skifta hlunnindum. Þetta ríður alveg í bága við önnur ákvæði laganna, og það svo freklega, að jafnvel þótt eigendur meiri hluta landsins væru tveir, eða hvað margir sem vera skal, þá ætti einn eigandi að minni hluta jarðarinnar að geta fengið skiftingu. Yfir höfuð er sama, hvernig á þetta er litið; það er ekki sanngjarnt, að skifti geti ekki farið fram á landi, enda þótt skifting sje ekki gerð á hlunnindum, sem landinu fylgja. Þess vegna leggur frv. til, að landskifting geti farið fram eins og önnur skifting samkv. lögum, ef einhver hlutaðeigenda krefst. Aftur á móti er látin fylgja þessu ákvæði upptalning á ýmsum hlunnindum, sem ekki má gera staðbundin skifti á, nema samþykki allra komi til. í langflestum tilfellum er erfitt að gera staðbundin skifti á hlunnindum, t. d. reka, veiði í vötnum og sjó og mörgu fleiru, þar á meðal námarjetti, og því tel jeg slíkt ákvæði nauðsynlegt.

Aðrar smærri breytingar á lögunum eru t. d. þær, að í staðinn fyrir að lögin tiltaka þóknun til skiftamanna og matsmanna í krónutali, þá sje farið eftir lögunum frá 14. nóv. 1917 um þau efni. Þá var þóknunin hækkuð til þeirra manna. Frv. gerir ráð fyrir. að þetta ákvæði standi, sökum þess, að það var sett þegar dýrtíðin var komin alt að því á fylsta stig. Aftur á móti gerir frv. ráð fyrir að hækka nokkuð þóknun til yfirmatsmanna, af því að jeg man ekki til, að það hafi verið gert annarsstaðar í lögum.

Ennfremur gerir frv. ráð fyrir þeirri smábreytingu, að sýslumaður, sem er oddviti yfirmatsmanna við yfirmatið, megi kveðja mann í sinn stað. Getur þetta verið hentugt, ef sýslumaður á langa leið að fara, eins og víða er, en nú eru menn svo að segja á hverju strái, sem eru færir til að standa fyrir slíkum skiftum, enda þótt yfirmat sje. Mundi þetta koma sjer betur fyrir hvoratveggja aðilja.

Í lögunum er ekki gert ráð fyrir, að sá, sem skifta beiðist, greiði einn kostnaðinn, nema við yfirmat, ef skifti haldast óbreytt; þá legst kostnaður á þann, sem yfirmatsins krefst. En frv. gerir þá smábreytingu, að sá, sem um skiftin biður, eigi að borga allan kostnað, ef skiftatilraun verður árangurslaus sökum vanheimilda. Það er nauðsynlegt, að menn hafi ekki of greiðan aðgang að því að heimta skifti, svo að síður sje farið að hreyfa þeim, nema ekkert sje til fyrirstöðu frá laganna hálfu.

Fleiri eru ekki breytingarnar en þær, sem jeg þegar hefi minst á, nema jeg tel hagkvæmara að gera breytingu á skipulagi greinanna og skipulagi efnisins í greinunum, þar sem efnisbreyting á lögunum hefir verið gerð.

Jeg hefi nú tekið fram alt, sem talist geta breytingar. Jeg tel þær allar nauðsynlegar. Hefi jeg reynslu í þessum efnum og hefi orðið að synja um framkvæmd á skiftum, sem mjer voru falin á hendur sem oddamanni matsmanna, — aðeins vegna þessara galla á lögunum. Og þetta atriði, sem jeg álít skifta mestu máli að breyta, er alls ekki heldur í samræmi við önnur ákvæði laganna. Jeg vænti þess, að hv. þdm. hafi litið á greinargerð frv., þar sem alt er tekið fram, sem nauðsynlegt er að athuga þessu viðvíkjandi. Leyfi jeg mjer svo að óska, að málinu verði vísað til landbn., að þessari umr. lokinni.