07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg þarf engu við það að bæta, sem stendur í greinargerð frv. þessa. Sýslunefnd, sóknarprestur og biskup samþykkja söluna. Ástæðan fyrir sölunni er sú, að jörð þessi hefir aldrei verið og verður aldrei notuð sem embættisbústaður; hún liggur í eyðifirði, svo erfitt er að ná þangað til prestsins, enda hefir enginn prestur í Ögurþingum búið þar, nema sjera Páll Sívertsen, sem mun hafa búið þar frá því síðari hluta sumars og fram á þorra. Sjera Sigurður Stefánsson notaði kot þetta lengst af sem hjáleigu.

Nú hafa feðgar tveir búið þar í 14 ár, og hafa þeir gert þar töluverðar jarðabætur; er nú svo komið, að ábúendurnir vilja ekki búa þar lengur, nema með því móti að fá kotið keypt. Aðalástæðan fyrir því er sú, að óhjákvæmilegt er að gera þar allstóra girðingu, til þess að verjast ágangi, því að kot þetta liggur í eyðifirði og er þar afrjetti tveggja hreppa. Sækir því þangað mikill búpeningur, svo ógerningur er að verjast nema með girðingu, en slíka girðingu vill ábúandinn ekki kosta, nema hann nái kaupum á jörðinni.

Sóknarpresturinn óttast, að kotið fari í eyði, ef bóndi þessi flytur þaðan; vill hann því umfram alt selja honum kotið. Ábúandinn á timburhús á jörðinni, sem svo er um búið, að auðvelt er að kippa því burt. Biskup hefir lagt það til, að peningarnir fyrir jörðina verði lagðir í kirkjujarðasjóð og svo notaðir til þess að kaupa betra ábýli handa prestinum í Ögurþingum. En jeg hefði talið hentugra að verja þeim í hús handa prestinum, og þá helst í Súðavíkurþorpi, en það er dálítið þorp, sem heldur fer vaxandi, og í nánd við það býr presturinn, sem nú er í Ögurþingum. Öll skjöl snertandi þetta mál hefi jeg hjer og mun afhenda þau nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar.

Læt jeg mjer svo á sama standa, hvort heldur frv. fer til fjhn. eða allshn.