19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það má segja, að svo bregðist krosstrje sem önnur trje, þá er hv. frsm. meiri hl. (JörB) vill nú ólmur selja þessa jörð, því að fáir munu hafa talað meira um það en hann, að ekki ætti að selja jarðir þær, sem eru eign hins opinbera.

Hjer í þinginu hefir það jafnan farið svo, að altaf hafa verið fundnar sjerstakar ástæður í hvert skifti, sem jörð hefir átt að selja, og hv. 2. þm. Árn. (JörB) hefir nú haft þessa þrautreyndu aðferð sölumanna þjóðjarða.

Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá er hjer ekki um stóra jörð að ræða, en hún mun geta tekið stakkaskiftum, ef rjett er að farið, og það veit ábúandi; þess vegna vill hann kaupa jörðina. Það mun þurfa að setja upp allstóra girðingu þar, til að verja jörðina átroðningi skepna af afrjettum, en rjettara væri, að ríkissjóður hlypi þar undir bagga, kostaði girðinguna eða veitti til hennar ódýrt lán, heldur en að fleygja jörðinni í ábúandann.

Jeg get ekki hugsað mjer, að nein jörð sje betur til þess fallin að vera einstaklingseign heldur en eign hins opinbera, og svo er um þessa jörð.

Jeg fæ ekki skilið þá ástæðu hv. frsm. meiri hl., að úr því að aðrar jarðir hafi verið seldar, þá sje ekkert við því að gera og óhugsandi, að þær geti aftur orðið þjóðareign. Hafi menn þá skoðun, að jarðir eigi að vera þjóðjarðir, þá verða menn að taka afleiðingunum af þeirri skoðun og vinna að því, að þjóðin eignist aftur jarðirnar úr höndum einstaklinga.

Jeg skal ekki fara neitt út í brtt. Jeg legg á móti því, að jörðin verði seld.