02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) mælti fremur á móti þeirri tillögu nefndarinnar, að þessi jörð væri seld, en jeg hafði nú raunar ekki sagt mikið um það, hve nauðsynlegt það væri, að sala færi fram, því að jeg hefi jafnan verið á móti þjóðjarðasölu. En eins og stefnan hefir verið á undanförnum árum, þá er ekki frekar nauðsyn á að fara að halda þessu býli eftir, því að það hefir löngum verið venjan að selja betri jarðirnar, en þær lakari hafa orðið eftir í eign hins opinbera, og það, að jörðin sje ekki hentug til afnota fyrir prestssetur, þótt þar sje góð sauðfjárbeit, bendir til þess, að enginn prestur hefir getað notað hana fyrir aðsetur. Við erum gengnir úr skugga um það, að þetta kot getur ekki verið prestssetur þarna, og það sýnir líka reynslan, því að prestur hefir aldrei setið þar, nema einu sinni ofurlítinn part úr ári.

En það er nú heldur ekki um það að tala, að hv. þm. (JBald) geti haldið því fram, að þetta býli sje selt fyrir eitthvert ákveðið, kannske of lágt verð, því að það ákvæði hefir verið felt úr frv., og er ætlast til, að farið sje eftir venjulegum aðferðum um sölu kirkjujarða. Verðið hefir máske verið í lægra lagi, en þingið ákveður ekkert um það, þó að frv. verði samþykt.

Svo er spurningin um stærð jarðarinnar. Það athugaði nefndin líka, en kannske ekki fyllilega; það er kannske nokkuð stórt land, en það er fremur harðbalalegt og sama sem engar engjar þar, en auðvitað hefir þetta kot tún, sem hefir tekið miklum bótum í ábúð núverandi ábúanda. Þegar hann kom þangað, gaf túnið ekki nema 40 hesta af sjer og engar engjar nema eitthvað örlítið í beitilandi.

Svo talaði hv. 5. landsk. um ár, sem kynnu að vera í landi jarðarinnar, en jeg hygg, að hún muni aldrei gefa mikið af sjer á þann hátt, því að þar er varla um verulegar stórár að gera; en svo er það líka auðvitað, að ef þar væri um nokkra fossa eða stórár að gera, þá myndi ríkissjóður halda þeim eftir, svo að hann tapaði þeim ekki, ef um eitthvað slíkt væri að gera.