07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

67. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv. er í raun og veru ekki um einkasölu áfengis, heldur um það, að sjúkrahúsum sje heimilað að hafa bein viðskifti við lyfjaverslun ríkisins, alveg eins og læknum. Það sýnist ekki ástæða til þess, að sjúkrahúsum sjeu gerð dýrari þau lyf, sem þau þurfa að nota, heldur en þörf gerist. Jeg álít, að verð lyfja sje svo hátt yfirleitt, að lyfsalar geti sjer að skaðlitlu slept viðskiftum við sjúkrahúsin. Það, sem fyrir mjer vakir, er aðallega, að sjúkrahús geti fengið ýms sóttvarnarlyf og smávegis lyf, er ekki þarf að setja mikið saman, beint frá ríkisversluninni án álagningar. Vil jeg þar t. d. nefna þorskalýsi, sem jeg nota mjög mikið, svo og óhreinsaðan spíritus, sem verður að teljast nauðsynlegt sóttvarnarlyf.

Jeg tel það alveg sjálfsagt, að þetta nái fram að ganga, og getur það líka sparað ríkinu allálitlega fjárupphæð. Ríkið styrkir flest sjúkrahúsin, og eftir því sem kostnaður þeirra verður minni, því minna þarf ríkið að leggja af mörkum til þeirra.

Jeg geri það að tillögu minni, að frv. verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni.