13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

93. mál, greiðsla verkkaups

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv., en meiri hl. hennar leggur til, að frv. verði samþykt. Í frv. eru ákvæði um, hvenær verkkaup skuli síðast útborgað, en meiri hl. nefndarinnar hefir gert nokkrar breytingar á þeim, sem sje, að fast starfsfólk skuli það talið, sem með samningi er ráðið 6 mánaða tíma, og þurfi ekki að greiða því kaupið vikulega. Í öðru lagi vill meiri hluti nefndarinnar gera nokkru skjótari, einfaldari og ódýrari málarekstur út úr vinnulaunum heldur en nú er, með því að heimila, að slík mál megi sæta meðferð einkalögreglumála, en það er sama og gert er nú með vinnuhjú. Með þessu yrði miklu auðveldara fyrir verkafólk að ná kaupi sínu.

Svo skal jeg geta þess, að hæstv. atvrh. (MG) skaut því til nefndarinnar, þegar málið var hjer til umræðu, að æskilegt væri að setja þetta saman í ein lög, en við nánari athugun þótti nefndinni hyggilegra að koma með þetta sem viðauka við þau lög, sem upphaflega voru, vegna þess, að þessi ákvæði ná ekki yfir sömu menn og fyrri partur laganna. Þetta frv. nær yfir verkafólk annarsstaðar en í sveitum, en ekki skráða sjómenn, en fyrri lögin ná yfir verkamenn og sjómenn. Komin eru sjerstök ákvæði um verkkaup sjómanna í siglingalögunum og gjalddaga á því, og þá er ekki óviðeigandi, að ákvæðin um verkafólkið sjeu höfð sjerstök, sem viðauki við lög um verkafólk í landi, svo lengi sem öll slík ákvæði um vinnulöggjöf eru ekki tekin saman í eina heild. Annars skal jeg ekki fara fleiri orðum um þetta frv. Jeg vona, að hv. deild taki frv. vel og leyfi því að ganga til 3. umr.