18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

93. mál, greiðsla verkkaups

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Með lögum nr. 4, 14. febr. 1902, voru sett ákvæði um það, að verkkaup skyldi greitt með peningum fyrir þá vinnu eða þau vinnubrögð, sem þar eru nánar talin, en í lögunum er ekki nákvæmlega til tekið, hvenær eða hvernig greiðsla þessa verkkaups skuli fram fara.

Frv. þetta, sem nú er komið hingað frá hv. Nd., er viðauki við lög þessi, og eru þar settar reglur um það, að kaup fyrir sjerstaka vinnu skuli greitt vikulega.

Allshn. hefir haft mál þetta til meðferðar, en hún var ekki allskostar ánægð með orðalag frv. eins og það kom frá háttv. Nd., sjerstaklega vegna þess, að ekki er hægt að sjá á frv., að ákvæði þess eigi að ná til annara en þeirra, sem vinna daglaunavinnu í landi, eða hina svo nefndu tímavinnu.

Það þarf nú kannske að setja ákvæði um það, hvenær verkamönnum á að greiðast kaup, enda þótt víðast hvar sjeu um það fastar reglur. En það, sem allshn. fanst ónákvæmt í þessu frv., er, að fleiri eru daglaunamenn en þar eru taldir, og henni fanst, að ekki þyrfti síður að setja tryggingarráðstafanir um greiðslu á kaupi þeirra, sem ráðnir eru upp á mánaðarkaup, svo sem eru sjómenn og ýmsir aðrir, sem eiga miklu meira í hættu heldur en daglaunamenn, sem hvergi eru bundnir föstum samningi um vistráðningu. Þetta var orsök þess, að formaður allshn., hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hann áleit, að endurskoða þyrfti lögin um greiðslu verkkaups, þannig, að allir, sem taka dagkaup, verkamenn í erfiðisvinnu, aðrir daglaunamenn og ekki síst sjómenn á smábátum, sem eru svo litlir, að sjóveð nær ekki til þeirra, væru nokkurnveginn jafntryggir með það að fá kaup sitt goldið.

Eins og frv. lá fyrir, hefði orðið að gerbreyta því til þess að allir nefndarmenn hefðu orðið sammála um það. Þó varð samkomulag um að leggja til, að það verði nú samþ. með nokkurri breytingu, sem er á þskj. 619. Eins og sú brtt. ber með sjer, fanst nefndinni ekki óhugsandi, að það gæti orðið samningsatriði milli verkveitanda og vinnuþiggjanda í landi, að greiðsla verkkaups færi fram á öðrum tímum en vikulega, og vill ekki binda vinnuveitendum þau bönd, að þeir megi ekki fá verkamenn til þess að hliðra eitthvað til um greiðsluna, ef þeir sjá sjer ekki fært að inna hana af hendi vikulega.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg geta þess fyrir hönd allshn., að enda þótt hún leggi til, að frv. verði samþykt með þessari breytingu, þá álítur hún, að rjett sje, að stjórnin taki lögin um greiðslu verkkaups til endurskoðunar, sjerstaklega um kaup þeirra manna, er ráða sig í mánaðarvinnu, eða eru á vjelbátum, sem eru svo litlir, að núgildandi löggjöf, með þessari viðbót, kemur þeim ekki að gagni.