03.03.1927
Neðri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir um breyting á Landsbankalögunum frá 1885, er borið fram af fjhn., eftir beinni beiðni hæstv. fjrh. (JÞ), og því fylgir ítarleg greinargerð, og þó það mætti að vísu nægja, sem í henni stendur, þá álít jeg þó rjett að fara nokkrum orðum um frv. við 1. umr.

Það mun hafa verið um 1920, að ríkisstjórnin fór fyrst að taka á sig ábyrgð á erlendum lánum fyrir Landsbankans hönd, og það mun fyrst hafa verið án sjerstakrar lagaheimildar, en slík lagaheimild fjekst þó árið 1921, og var þá tekin fram í fjáraukalögum fyrir 1920 og ’21, í 11. gr. Hún var að vísu almenn, en þar sem þau lög voru tímabundin, gátu þau tæplega talist gild nema fyrir þau ár, sem fjáraukalögin gilda fyrir, árin 1920–'21. Þess vegna verður að skoða það svo, sem heimildin væri útrunnin þegar árið 1921. Á jólaföstu 1923 fór Kaaber bankastjóri til London til þess að semja um 200000 £ lán, og undir umræðunum um það spurðist lánveitandi fyrir um það, hverja heimild ríkisstjórnin hefði til að ábyrgjast þetta lán, og var málið þá tekið til athugunar í stjórninni, hvort heimild væri fyrir slíkri ábyrgð, og rannsóknin endaði með því, að það væri ekki bein heimild til að ábyrgjast slík lán, en þar sem skýr lagaheimild var til í 7. gr. laga bankans, um að bankinn mætti taka lán, og þar sem bankinn er eign ríkisins, þótti sjálfsagt, að ríkissjóður hefði heimild til að ábyrgjast lán fyrir bankann. Það var meðal annars leitað álits Jóns Krabbe skrifstofustjóra um þetta, og var hann sammála þessu áliti. Að þessari rannsókn lokinni var svo símskeyti það sent, sem hjer er prentað í greinargerðinni fyrir frv.

Jeg verð að álíta, að þessi skilningur sje alveg rjettur, og svo hefir farið, að sú stjórn, er kom næst á eftir þeirri, er skeytið sendi, hefir fallist á þetta, svo það eru þrjár stjórnir, sem hafa haft þennan sama skilning. Þennan skilning ljet bankinn sjer lynda og annar banki til, er Landsbankinn stóð í viðskiftasambandi við, og samkvæmt þessu gekk stjórnin árið 1924 í ábyrgð fyrir slíkum lánum, og síðan hefir stjórnin, og það á yfirstandandi ári, gengið í sömu ábyrgð. Nú fyrir skömmu hefir Landsbankinn hafið málaleitun um að fá reikningslán hjá amerískum banka. Hann hefir gefið vilyrði fyrir því, en sett sem skilyrði, að ríkisstjórnin gengi í ábyrgð fyrir láninu, og hefir honum verið skýrt frá því, að stjórnin þættist hafa heimild til þess, og lítur út fyrir, að bankinn hafi viljað láta sjer þá skýringu nægja, en þó, líklega eftir bendingu frá lögfræðingi sínum, álitið tryggara að heimta skýlausa lagatryggingu. Það er samkvæmt þessu að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir álitið rjettara að fá skýlausa lagaheimild til að ábyrgjast lán fyrir bankann. í raun og veru fer frv. þetta því alls ekki fram á annað en að lögfesta það, sem áður hefir viðgengist. Það er ekkert annað en lögfesting á því fyrirkomulagi, sem er rjett og sjálfsagt. Jeg tel þess vegna, að það sje rjett að gefa slík lög sem þessi; það mætti kannske segja sem svo, að það væri ekki beinlínis nauðsynlegt að gefa stjórninni ótakmarkaða heimild til að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann, eins og stjórnin hefir farið fram á, en hættulaust er það alveg, því stjórnin verður í hvert sinn að taka til yfirvegunar, hvort Landsbankinn hafi þörf fyrir lán og hvort hún eigi að ábyrgjast það, og þá. gerir hún það, sje það óumflýjanlegt. Það er eins og hver önnur stjórnarathöfn, er hún ber fulla ábyrgð á. Jeg skal svo ekki hafa fleiri orð fyrir þessu frv., en aðeins óska þess, að því verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni.