03.03.1927
Neðri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Það er ekki nema sjálfsagt, að Alþingi geri sitt til þess að greiða fyrir viðskiftum Landsbankans eftir nauðsyn og þörfum. Jeg get vel skilið, að ýmsar ástæður sjeu fyrir því, að ekki sje hægt að gefa upplýsingar þessu viðvíkjandi hjer í heyranda hljóði. En hæstv. forsrh. (JÞ) hefir gefið fyrirheit um að láta fjhn. í tje allar þær upplýsingar, sem hann hefir fram að færa, og þá eiga þingmenn að sjálfsögðu kost á að fá þær upplýsingar áður en málinu verður ráðið til lykta. Jeg gæti ekki unað því að greiða atkvæði með þessu máli án þess að fá eitthvað meira um það að vita en hjer hefir komið fram Mjer þykir því gott að mega eiga von á frekari upplýsingum. Þó að rjett kunni að vera, að þessi breyting fari ekki fjarri því, sem gildandi lög ákveða, held jeg þó, að þingmenn hafi ekki búist við, að stjórnin gæti takmarkalaust ábyrgst lántökur fyrir bankann án samþykkis Alþingis, og jeg held, að undangengnar lántökur handa bankanum bendi í sömu átt. Á það bendir líka ákvæði það, er sett var inn í fjáraukalög fyrir nokkrum árum, um að stjórninni væri heimilt að ábyrgjast lán fyrir bankann, sem þá stóð til að taka, að þingið þá hefir álitið, að slíkrar heimildar væri þörf. Og jeg hygg það rjett vera. En sú heimild nær ekki nema til þess ákveðna láns. Um þetta virðist full þörf glöggra skýringa, en samkvæmt þessu frv. hefir stjórnin frjálsar hendur í þessu efni. Að svo stöddu skal jeg ekkert um það segja, hvort jeg get verið með svona rúmri heimild, en jeg verð að segja, að mjer finst stjórninni fengið ákaflega mikið vald í hendur með þessu frv. Fljótt á litið virðist mjer Alþingi sleppa hjer miklu valdi og mikilsverðu úr höndum sjer, ef þetta frumvarp verður samþykt eins og það liggur hjer nú fyrir. Það, sem jeg vildi gjarnan heyra áður en frv. fer út úr deildinni, er, hve stórt lán fyrirhugað er að taka, með hvernig kjörum og til hvers á að verja því, hvort það er tekið til greiðslu áfallinna kvaða eða sem alment viðskifta- og rekstrarlán. Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið að þessu sinni, þar sem fyrirheit eru frá hæstv. forsrh. um frekari upplýsingar, en jeg geri ekki ráð fyrir að geta greitt þessu frv. óbreyttu atkv. hjeðan úr deildinni.