07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð í framhaldi af umr. þeim, sem farið hafa hjer fram, að láta í ljós undrun mín og beiskju yfir því, að hæstv. stjórn skyldi taka þetta mál á dagskrá í dag og heimta afgreiðslu þess. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að við 1. umr. bauð hæstv. forsrh. (JÞ) upplýsingar í málinu, en þær komu svo seint fram, að fjhn. hafði ekki í morgun tekið neina afstöðu til málsins. Og þess vegna hlaut jeg að gera ráð fyrir því, þar sem nefndin hafði ekki tekið afstöðu til málsins, að það kæmi ekki til umræðu í dag. Jeg lít svo á, að þetta sje eitt allra stærsta málið, sem lagt verður fyrir þetta þing. Jeg get ekki annað en endurtekið undrun mína yfir þessum flutningi málsins.

Jeg fullyrði, að hæstv. stjórn hefir hlotið að vera það fyrir löngu ljóst, að svona mál hlyti að berja á dyr á þessu þingi. Ástandið í landinu hefir verið slíkt nú um hríð, að ekki gat hjá því farið, að landsstjórnin þyrfti að koma til þingsins til að biðja um einhverjar aðgerðir til þess að bjargast út úr vandræðunum. Henni hlaut að vera ljóst, að gera þyrfti alvarlegar ráðstafanir. Þess vegna bar henni rík skylda til að bera málið fram vel undirbúið og upplýst frá öllum hliðum. Það hefir hæstv. stjórn með öllu vanrækt. Þá er það ennfremur með öllu óverjandi af hæstv. landsstjórn að heimta af þm., að þeir taki afstöðu til slíks stórmáls nálega umhugsunarlaust. Mjer hefir skilist, að helsta ástæðan til þess að flýta málinu svona sje sú, að aðalbankastjóri þess banka í Ameríku, sem taka á lánið í, sje nú staddur í Kaupmannahöfn og að það þurfi að afgreiða málið áður en hann fari vestur um haf. Mjer hefði þótt betur viðeigandi, að sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn hefði farið til Ameríku fyrir landsins hönd, til þess að semja um lánið, heldur en að vera að leita uppi hinn ameríska bankastjóra, staddan á ferðalagi í öðru landi. — Jeg met þessa ástæðu að engu.

Málinu er fylgt svo fast, að tekinn er fundatími fjvn., og er það alveg óvenjulegt og leiðir beinlínis af sjer lenging þingtímans. Jeg býst við, að málinu verði fylgt fram með svo miklum krafti, að ekki sje um annað að gera en að hefja umræður um það ný þegar. En jeg þykist ekki nærri nógu vel undir það búinn að taka afstöðu til málsins að svo stöddu og að rækja þá skyldu, sem jeg og fleiri þm. telja sig hafa, að hafa eftirlit með því, hvernig hæstv. stjórn stýrir fjármálum þessa lands. En jeg verð þó jafnframt að geta þess, að jeg tel meiri þörf slíks aðhalds nú en nokkru sinni áður.

Næst vil jeg beina orðum mínum til hæstv. forseta (BSv), og verð að óska þess að fá við þessa umr. að tala alment um málið. Jeg vil gera grein fyrir þeirri ósk með því, að við 1. umr. bauð hæstv. fjrh. (JÞ) upplýsingar um málið eftir þá umræðu, en fyr ekki. Jeg taldi það skyldu mína að tala ekki verulega um málið fyr en upplýsingar um það væru fram komnar, en þar sem þær voru ekki komnar við 1. umr., var ekki hægt að ræða málið alment þá, svo að það verður að gera nú við 2. umr.

Svo liggur enn ástæða til þess, að ræða ber málið alment nú. Fyrst er það, að nú kemur málið fram í alt annari mynd en áður. Ráðherra kemur sjálfur fram með brtt. Fyrirsögn og efni aðalgreinar frv. er breytt. Aðeins það stendur óbreytt eftir, að frv. eigi að verða að lögum þegar í stað.

Jeg vil fyrst gera þá almennu aths., að jeg álít betra, að brtt. yrði samþ. heldur en hin upphaflega frumvarpsgrein, því að jeg álít rangt, ef Alþingi afhenti stjórninni alt vald til að taka lán eða ótakmarkaða heimild til að ábyrgjast lán eins og fyrst var ráð fyrir gert í frv. Jeg vil, að bæði þing og þjóð fái fulla vitneskju um það, hve hæstv. stjórn ábyrgist mikið af lánum, og að ekki sje farið á bak við tjöldin með það. Og jeg vil geta þess, að rjettara hefði verið að nefna lánsupphæðina, eins og einn maður úr fjvn. stakk upp á. Það er rangt að fara í felur með nokkurt atriði þessu máli viðvíkjandi.

Jeg álít best, að hispurslaust sje sagt frá því, hve mikla upphæð eigi að ábyrgjast. Það er svo alvarlegur hlutur að binda lánstraust landsins, að það á ekki aðeins að liggja undir „kritik“ þingsins, heldur þjóðarinnar líka. Til þess að taka eða ábyrgjast slík miljónalán þurfa að liggja svo skýr rök, að þau þoli að koma fram í dagsbirtuna.

Í Noregi bar það við fyrir skömmu, að forsætisráðherrann fór á bak við þingið um stórkostlega lánveitingu til banka. Hann er nú undir ákæru fyrir það. Jeg vona, að slíkt komi aldrei fyrir á Íslandi.

Jeg skal nú víkja að frv. Þó að ekki megi nefna upphæðina, þá er það á allra vitorði, að hjer er um að ræða langstærsta lánið, sem íslenskur banki hefir látið sjer í hug koma að taka. Enska lánið nafnkunna er eitt stærra af þeim, er tekin hafa verið handa Íslandi. En það var tekið af ríkinu, sællar minningar.

Það mikla lán hefir að mjög litlu verið afborgað síðan. En 1924 tók Landsbankinn sitt stóra enska lán, sem og hefir aðeins lítil afborgun orðið af. Þá var fyrir 9 mánuðum síðan tekið 3 miljón króna lán ytra handa veðdeildinni, en horfið er það. Loks munu báðir bankarnir hafa notað sitt erlenda lánstraust til hins ítrasta. Og ofan á alt þetta þarf nú að taka þetta nýja stóra lán. Er ekki von, að menn spyrji undrandi: Hvers vegna er þörf á þessari miklu nýju lántöku?

Ber að svara þeirri spurningu fyrst með því, að þörfin er ekki sú, sem venjulegast hefir valdið lántökum okkar, þ. e. til einhverra sjerstakra verklegra framkvæmda. Engar slíkar sjerstakar verklegar framkvæmdir eru framundan. Nýja lánið á að taka blátt áfram til að afla peninga til hinna daglegu útgjalda.

Þegar hæstv. fjrh. (JÞ) lagði fjárlögin fyrir, gerði hann grein fyrir fjárhagsástæðum okkar og horfum á því sviði. Þó að jeg sæi ekki ástæðu til að gera aths. við þá skýrslu, þá álít jeg, að hún hafi ekki að fullu gefið rjetta mynd af ástandinu. Jeg álít ástandið miklu alvarlegra en hæstv. ráðh. (JÞ) vildi vera láta, og miklu alvarlegra en í fyrra. Aðstaða peningastofnananna út á við gefur besta hugmynd um þetta. Er fróðlegt að gera samanburð á aðstöðu bankanna nú og í fyrra að þessu leyti. Sá samanburður skal miðast við síðastliðin mánaðamót, en tölurnar, sem jeg fer með, eru frá gengisnefndinni: Um mánaðamót febrúar-mars í fyrra áttu bankarnir inni erlendis ca. 11/2 milj. kr. — föstum lánum slept. Nú skulda þeir á sama tíma ca. 10 miljónir kr. — föstum lánum slept. Hjer við bætist 3 milj. kr. lánið til veðdeildar, sem vitanlega hefir lækkað skuldina erlendis, og loks hefir Landsbankinn síðan í fyrra selt útlend verðbrjef fyrir ca. 14 milj. kr. Útkoman er sú, að aðstaða bankanna út á við er 15 milj. kr. verri en í fyrra.

Þessi aðstöðumunur okkar út á við er höfuðástæðan til þessarar nýju miljónalántöku. Þeir sjóðir, sem áður hafa verið handbærir til að lána atvinnurekendunum, þeir eru nú ekki lengur til, þeir eru horfnir. Það þarf að fá nýja sjóði í staðinn. Og nú er ástæða til að halda áfram að spyrja: Hvers vegna stöndum við svona miklu ver að vígi en í fyrra og þurfum því að fá þetta nýja miljónalán?

Jeg þarf ekki lengi að leita svarsins, og jeg hygg, að það liggi hverjum þeim í augum uppi, sem vill hugsa um málið með athygli. Það er hin öra og ógætilega hækkun á gengi íslenskra peninga, fyrst 1924, en einkum haustið 1925, sem er höfuðástæðan til þess, hvernig nú er komið. En helsta afleiðing hækkunarinnar er t. d. sú, að allir launamenn, æðri og lægri, fengu í hendur miklu verðhærri peninga en áður. Útlendu vörurnar kostuðu nú færri íslenskar krónur. Eftirspurn eftir þeim óx. Eyðslan á þjóðarbúinu varð miklu meiri en áður. Munu verslunarskýrslurnar sanna þetta, þegar þær koma út. Hinsvegar fjellu framleiðsluvörurnar í verði. Framleiðendur fengu svo miklu færri krónur í hendur sem gengishækkuninni nemur. Útkoman er aukin eyðsla og fyrir heildina tap. Það er opinbert mál, að nálega allur atvinnurekstur á Íslandi var rekinn með tapi árið sem leið, en innflutningur með mesta móti fyrri hluta ársins.

Jeg vil ekki fullyrða, að þessi 15 milj. kr. aðstöðumunur út á við gefi nákvæma mynd af því tapi, sem þjóðarheildin hefir beðið af gengishækkuninni 1925. Jeg býst við, að erfitt verði að gera þann reikning upp, en jeg býst við, að tapið fyrir heildina af gengishækkuninni 1924 og 1925 verði reiknað í enn stærri tölum.

Jeg vil minna á, að það er líka til önnur mynd af tapinu af gengishækkuninni. Það eru bankareikningarnir. Miljónatöpin, sem þar eru nú afskrifuð árlega og á enn eftir að afskrifa, stafa að miklu leyti af gengishækkuninni. Við höfum ekki bitið úr nálinni enn á því sviði — ef við þá getum það, er á reynir.

Jeg get ekki stilt mig um að minna á, að 1925 sagði jeg fyrir þau voðatíðindi, sem nú eru orðin af gengishækkuninni. Eftir dönskum hagfræðingi orðaði jeg það svo, að leiðin upp í gullgildið lægi yfir lík atvinnurekendanna. Því miður er svo komið, að þetta hefir átakanlega ræst.

Það er gengishækkunin, sem veldur, að beðið er nú um heimild til að ábyrgjast þetta miljónalán. Það er hæstv. landsstjórn og þið aðrir háttv. hækkunarmenn hjer í deildinni, sem berið ábyrgðina á hækkuninni, og þar af leiðandi af þessari nýju miljónalántöku. Það er engin tilviljun, að við 1. umr. þessa máls varð einn hv. deildarmanna til þess að lýsa ánægju sinni yfir lántökunni, og það var einmitt háttv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann og hans flokkur ber ábyrgðina með hæstv. landsstjórn. Ef við Framsóknarmenn hefðum fengið að ráða, ef farið hefði verið að kröfu okkar beggja fulltrúa atvinnurekendanna í gengisnefndinni og aukaþing kallað saman haustið 1925, þá er jeg viss um, að krónan hefði ekki verið látin hækka eins mikið og gálauslega. Og þá hefði hæstv. landsstjórn ekki þurft að stíga þessi þungu spor nú og biðja um heimild til að ábyrgjast þetta miljónalán.

Tilgangurinn með lántökunni er að leysa til bráðabirgða úr þeirri kreppu, sem gengishækkunin hefir skapað, að útvega nýjar miljónir í stað þeirra 15, sem nú síðast hafa tapast, að halda búskapnum gangandi með þessu nýja lánsfje á sama grundvelli og áður. Jeg vil benda á, að þetta er engin lækning á ástandinu. Hið hættulega er það, að atvinnuvegirnir eru reknir með tapi. Lántaka er engin bót við því. Frá hæstv. landsstjórn heyrist hvorki stuna nje hósti um það, að gera ráðstafanir til þess að grafa fyrir sjálfar rætur meinsins.

Um hið þýðingarmikla atriði, t. d. fyrir afkomu atvinnuveganna, hvort líklegt sje, að þeir megi byggja á, að sama verðgildi peninganna haldist, hefir bæði hæstv. fjrh. (JÞ) verið spurður á fundi fjvn. og sömuleiðis bankastjórn Landsbankans. Það hefir ekkert svar fengist frá hvorugum þessara aðilja. Það liggur ekki fyrir, að landsstjórnin hafi nokkra hugsun á því, hve hjer er um mikilsvert atriði að ræða. Þvert á móti heyrist það af munni hæstv. fjrh. (JÞ), að nota eigi fyrsta tækifæri til að íþyngja atvinnuvegunum með nýrri gengishækkun.

Þá hefir stjórnin og alveg lagst undir höfuð að fylgja þeirri verðhækkun krónunnar eftir, sem orðin er, með tilsvarandi lækkun á innlendum framleiðslukostnaði, að svo miklu leyti, sem það er í stjórnarinnar valdi. Og vitanlega hefði hún í mörgu getað stuðlað að því. En stjórn og þingmeirihluti hafa gert ráðstafanir í öfuga átt. Hinar miklu verklegu framkvæmdir nú undanfarið og hið háa kaup við þær hafa verkað á móti eðlilegri verðlækkun í landinu til handa atvinnuvegunum. Útkoman hefir líka orðið sú, að nær allur atvinnurekstur landsmanna hefir orðið fyrir stórkostlegu fjártjóni árið sem leið. Í stað þess, að stjórnin hefði átt að gera ráðstafanir til, að atvinnuvegirnir fengju að njóta tilsvarandi verðlækkunar, hafa þeir líka hinsvegar ekki fengið annað en aukna skattabyrði, sem hefir vaxið stórkostlega hlutfallslega út af gengishækkuninni.

Í framhaldi af þessu verð jeg að spyrja hæstv. forsrh. (JÞ), hvers eðlis þetta lán er, sem nú á að fara að taka. Hvort hjer er um að ræða bráðabirgðalán, sem á að greiðast að fullu við næstu áramót, eða hvort það er bráðabirgðalán aðeins að forminu, en nokkur vissa fyrir að það verði framlengt frá ári til árs.

Ef þetta er aðeins bráðabirgðalán og á að greiða það við næstu áramót, vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (JÞ): Getur hann sagt oss, að trygging sje fyrir, að hægt verði að greiða lánið á tilskildum tíma? Þegar einstaklingar taka lán, verða þeir altaf að spyrja sig þessarar spurningar, ef þeir vilja vera heiðarlegir menn. Ætti ekki síður að vera ástæða til þess fyrir ríkið. Þetta er ekki sagt út í bláinn hjá mjer. Ef vjer eigum að borga lánið um áramót, verðum vjer að hafa vissu fyrir að geta það. Nú standa íslenskir bankar 15 miljónum króna ver að vígi gagnvart útlöndum en fyrir ári. Og verði atvinnuvegir landsmanna reknir með svipuðu gengi næsta ár eins og hið síðasta, þá efast jeg stórlega um, að hægt verði að greiða lánið við næstu áramót. Vil jeg óska þess, að hæstv. forsrh. (JÞ) láti opinberlega koma fram upplýsingar um þetta atriði.

En það er von mín, að lánið sje ekki bráðabirgðalán, þó að svo líti út á pappírnum, heldur sje hjer í raun og veru um fast reikningslán að ræða. Sje hjer verið að veita nýju blóði inn í atvinnulíf þjóðarinnar með þessari lántöku, þá vil jeg alvarlega benda á annað atriði. Jeg áliti það blátt áfram ósiðferðilegt að fá atvinnuvegunum þetta fje í hendur með þeirri ætlun að heimta það síðar aftur í 20% verðmeiri peningum, er þeir hefðu fest það í ýmsum atvinnufyrirtækjum. Sjerstaklega væri þetta harðleikið sakir þess, sem á undan er gengið, því að með gengishækkuninni 1924–’25 voru atvinnuvegir landsmanna lagðir í rústir svo að segja.

Þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) má vera það ljóst öðrum fremur, hve sorgleg þessi saga er, þá vil jeg alvarlega beina því til hans nú, er hann biður um þessa heimild, hvort hann vill ekki jafnframt lýsa yfir því, að hann skuli ekki íþyngja atvinnuvegunum á nýjan leik með því að hækka peningagengið. Nú, þegar hæstv. ráðh. (JÞ) verður að stíga hin þungu spor að koma til þingsins og biðja það um heimild til að ábyrgjast lántöku til að bæta fyrir glappaskotin, vill hann þá ekki lofa, að slík ólánsspor verði ekki stigin aftur? Vill hann ekki lofa því að keppa ekki að því að hækka gengi íslenskra peninga á ný? Fyrir mína afstöðu til þessa máls hefir það afarmikið að segja, hvernig hæstv. forsrh. svarar þessum spurningum mínum: Ef lánið er til skamms tíma, — hver vissa er þá fyrir að geta borgað það? — Ef það er til langs tíma, — vill hann þá afgreiða málið með þeirri yfirlýsingu, að gengi peninganna skuli ekki hækkað með lántökunni?

Þá er enn ný hlið, sem skylt er að víkja að, og vil jeg þar enn beina aths. mínum til hæstv. stjórnar: Hvernig á að nota þetta mikla fje? Stjórnin getur að sjálfsögðu sagt, að það sje fyrst og fremst bankastjórnanna mál að ráðstafa þessu fje, (því að það hefi jeg fyrir satt, að það eigi að notast handa báðum bönkunum). — En jeg verð að halda því fram, að þingið hafi sjerstakt tilefni til að láta þetta mál til sín taka, því að síðast þegar svipað lán, enska lánið svonefnda, var tekið, var því að mínu viti mjög óheppilega varið. — Hjer fór svo sem hjá öllum nágrannaþjóðum vorum, að eftir stríðið spratt upp margskonar óheilbrigður atvinnurekstur, sem nú er víðast búið að hreinsa burtu; þar hafa þau fyrirtæki verið látin velta um koll, sem engan tilverurjett áttu. En hjer hefir hreinsunin enn ekki verið framkvæmd, og það er mest að kenna því, hvernig enska láninu var varið. Jeg sje ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í þetta, en vil aðeins nefna sem dæmi það, sem kunnugur maður sagði mjer, að hjer í bæ væri verslunarstjettin fjölmennari en í nokkru landi í norðurhluta Evrópu; það yrði að fara alla leið suður til Grikklands eða Armeníu til að finna jafnfjölmenna verslunarstjett. Í nágrannalöndum vorum er hún 50–60% fámennari. — Hvað er nú það, sem heldur þessu uppi? Heildverslanirnar halda uppi smábúðunum, sem eru margfalt fleiri en þær þurfa að vera, en heildverslununum er aftur á móti haldið uppi af bönkunum. — Nú vil jeg spyrja: Á að nota þetta nýja blóð, sem á að veita inn í atvinnulíf þjóðarinnar, til þess að halda þessu öllu gangandi? Það álít jeg, að megi ekki gera, heldur eigi að minka þetta sem mest. Jeg tek þetta fram vegna þess, að þegar enska lánið var tekið, var drýgð synd í þessu efni; það fje var nærri alt látið ganga til annars bankans, og hann hjelt svo uppi þessum óheilbrigða atvinnurekstri. — Á sviði útgerðarinnar má segja hið sama; þar er áreiðanlega mikill atvinnurekstur, sem ekki verður talinn hvíla á heilbrigðum grundvelli. Þessu þarf að ryðja burtu. Það þarf að koma meiri „centralisation“, og þar hafa bankarnir öflugustu vopnin í höndum.

Nú vil jeg fá að heyra af munni hæstv. forsrh. sjálfs, hvaða stefnu eigi framvegis að hafa um þetta. Jeg læt ekki í ljós vantraust á neinum bankastjóra til að gera það, sem rjett er, en áður en jeg tek fullnaðarafstöðu vil jeg heyra stefnu hæstv. ráðh. (JÞ) í þessu máli.

Loks á jeg eftir að benda á enn eina nýja hlið á þessu máli, sem við mjer blasir og jeg tel mjer skylt að tala um. — Það má segja um mig eins og Jón Ögmundsson sagði um sjálfan sig, að ætíð er hann heyrði góðs manns getið, kæmi honum ísleifur biskup í hug. Ætíð þegar jeg heyri, að draga eigi nýtt fjármagn til íslenskra atvinnuvega, kemur mjer landbúnaðurinn í hug. Hvernig á að skifta þessu fjármagni milli atvinnuveganna? Hversu mikið af því á að renna til landbúnaðarins? Það er stærsta og alvarlegasta fyrirbrigðið í sögu okkar lands á þessari öld, að þyngdarpunktur þjóðlífsins hefir verið að flytjast úr sveitunum og í kaupstaðina. Höfuðástæðan til þessa er sú, að veltufje landsmanna hefir að langmestu leyti verið beint til sjávarins. Svo hefir og verið um megnið af þeim útlendu lánum, sem tekin hafa verið, og svo var um langstærsta lánið, enska lánið. Í vor sem leið var tekið 3 milj. króna lán til veðdeildarinnar. Sem endurskoðandi Landsbankans hefi jeg haft tækifæri til að athuga, hvernig þetta lán hefir skifst á milli kauptúna og kaupstaða annarsvegar og sveitanna hinsvegar. Niðurstaðan af rannsókn minni hefir orðið sú, að ekki minna en 95% hefir farið til kaupstaða og kauptúna. Nú heyrist talað um, að taka eigi 3–4 milj. króna lán á ný til veðdeildarinnar, og svo þetta stóra lán, sem hjer er til umræðu. Ef þessir peningar eiga enn allir að renna til kaupstaðanna, verð jeg að álíta það alvarlegt mál. Þá er þar enn nýtt stórt spor til að soga fólkið frá sveitunum og leggja þær í auðn. Því vil jeg enn beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh. (JÞ), hvort hann álítur þetta ekki alvarlegan hlut og hvort hann vill ekki gera eitthvað til að sporna við, að svona fari.

Nú get jeg farið að ljúka máli mínu. Jeg harma það mjög að hafa ekki fengið tækifæri til að búa mig betur undir þessa ræðu. Jeg vil ekki krefjast þess af hæstv. forsrh., að hann svari öllum fyrirspurnum mínum þegar í stað; væri mjer nóg, að hann gerði það við 3. umr. Fyr mun jeg ekki taka endanlega afstöðu til málsins. En jafnframt hlýt jeg að áskilja mjer rjett til að mega bera fram brtt. við 3. umr., á grundvelli þeirra upplýsinga, er jeg fæ þá.