07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja það, að þá er jeg sá þetta mál komið hjer á dagskrá og hvað var á seiði, þá varð mjer á að hugsa svo: „Verður það, er varir, og svo það, er ekki varir“. Þó verð jeg að játa það, að í fyrra lágu fyrir þinginu tvö mál, sem gátu bent til þess, að slík málaleitan sem þessi mundi liggja fyrir þessu þingi. En eins og þetta hefir að borið, þá datt mjer ekki í hug, að til slíkra óskapa gæti komið.

Um flutning málsins er það að segja, að mjer skilst, að hjer sje verið að fara í feluleik — að hjer sje verið að fara í „aumu“. Mjer er illa við það, og eins og allir vita, þá er ekki haft eins rangt við í neinu spili eins og laumu. Þetta segi jeg í sambandi við þau orð hæstv. fjrh., að hjer væri aðeins um formsatriði að ræða. Jeg neita því algerlega, að svo sje, og tek undir það, er hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að þetta er áreiðanlega stærsta málið, sem fyrir þessu þingi liggur. Og að mínum dómi er allur stjórnmálaferill hæstv. forsrh. (JÞ) einmitt innifalinn í þessum 5 frumvarpslínum.

Út af því, að hjer sje aðeins um formsatriði að ræða, tek jeg það skýrt fram, að til þess var aldrei ætlast, að frv. þetta kæmi fyrir þingið, heldur að hæstv. stjórn ábyrgðist eftir sem áður lán fyrir Landsbankann án íhlutunar Alþingis. Þetta er öllum háttv. þdm. vitanlegt, enda sanna svör og skýrslur hæstv. forsrh. það. Hann hefir skýrt frá því, að frv. sje eingöngu komið fram vegna þess, að banki sá, sem ætlar að lána Landsbankanum fje, hefir heimtað, að til væri skýr og skýlaus lagaheimild fyrir því, að stjórnin mætti takast á hendur ábyrgð á láninu. Og enn er það vitanlegt, að það er langt síðan samningar tókust um þetta lán. Og það hefi jeg frá áreiðanlegum heimildum, að nú sje rekið svo fast á eftir þessu máli vegna þess hvað langt er síðan það kom á döfina.

Það vakir fyrir mjer, að mál þetta sje miklu víðtækara og hafi miklu meiri þýðingu heldur en hjer er látið í veðri vaka. Jeg skal jafnframt viðurkenna það, að það fer ef til vill best á því að fara ekki berum orðum opinberlega hjer á þingi Um ýms fjármálaatriði. Það getur oft verið rjett, að slíkt verði ekki hljóðbært fyr en til framkvæmda kemur. En um þetta mál er það að segja, að jeg álít alls ekki heppilegt, að farið sje í neinn feluleik með það. Segi jeg þetta vegna þess, að kunnugir menn hafa sagt mjer, að fjárhagsástand bankanna hjerna, og þó sjerstaklega annars þeirra, sem ekki má nefna, sje mikið verra en sagt er. Sú yfirhylming er aðeins til þess fallin að ala á þeirri tortrygni, sem lengi hefir gert vart við sig, og kem jeg síðar að því, hve nauðsynlegt er, að dregið sje úr þeirri tortrygni með því að tala hreinskilnislega um ástandið í fjármálunum eins og það er.

Það hefir verið sagt ýmislegt um það, hvernig á því stendur, að þessi lánsábyrgðarbeiðni kemur nú frá Landsbankanum. Jeg held því ekki fram, að rangt hafi verið skýrt frá um það, hvers vegna beiðnin er fram komin, en jeg verð að segja það, að ekki hafa komið fram nægilegar upplýsingar um það, sem mestu varðar um þetta atriði.

Jeg þykist vita, að sjerstök ástæða sje til þess, að mál þetta er fram komið eins og það er í pottinn búið. Það er fjárhagsástand Íslandsbanka. Þó vil jeg ekki drótta því að þeim banka, að hagur hans sje ekki eins og ráða má af gengi hlutabrjefa hans. Hlutabrjef hans munu nú ganga kaupum og sölum fyrir 33. (KIJ: 34). Jæja, 34, það munar minstu, því að þetta getur breyst smávegis dag frá degi. En því verður ekki neitað, að hlutabrjefin standa illa og að bankinn hefir ekki traust erlendis.

Jeg bið menn að gæta þess, að jeg er ekki að tala um þau töp, sem Íslandsbanki hefir orðið fyrir. Jeg býst við því, að hann hafi skrifað mikið af af skuldum og að bankastjórnin hafi farið svo gætilega að ráði sínu hin síðari árin, að nokkuð af gróða bankans hafi gengið upp í töpin. En hitt þykir mjer ískyggilegt, hvað innlánsfje bankans hefir minkað mikið á þessu ári, og einmitt vegna þess álít jeg, að hjer sje um stórmál að ræða, þar sem þetta frv. er.

Í árslok 1925 átti Íslandsbanki innstæður á hlaupareikningi, innlánum og sparisjóði alls um 19 milj. króna. Þar frá á svo að draga póstskuld, sem var um 5 milj. danskra króna, eða um 6 milj. íslenskra króna. Þá verða um 13 milj. eftir af innlánsfje bankans. En af kunnugum og gætnum mönnum er mjer sagt, að bankinn hafi á þessu ári mist um 6 milj. króna af innlánsfje, eða nær helming. Þetta er hið varhugaverðasta í þessu máli; vegna þess þarf nú að taka þetta stórlán. Þetta er ekkert leyndarmál; reikningar bankans hljóta að sýna þetta og að vegna þessa þarfnast bankinn hjálpar. Nú er spurningin þessi: Hvernig stendur Íslandsbanki að vígi að uppfylla skyldur sínar gagnvart hinum fjárfrekasta atvinnuvegi þjóðarinnar, að sjá honum fyrir veltufje? Haldi innlánsfjeð áfram að minka, getur hann það alls ekki, einkum vegna þess að til stendur að hætta því að láta bankann gefa út seðla og láta hann kalla inn þá seðla, sem hann hefir nú í umferð. Og þá kemur að því, að Landsbankinn verður að sjá honum fyrir veltufje, og eykst þá að sama skapi áhætta Landsbankans. Er það því stóra spurningin, hvort halda á lengra áfram á þessari braut en komið er. Íslandsbanki stendur nú í stórri skuld við Landsbankann og stórri skuld við ríkissjóð, þar sem enska lánið er. Jeg held, satt að segja, að fyrir þá menn, sem álíta, að nauðsyn sje á að halda Íslandsbanka — „prívatbankanum“ — uppi, þurfi að grípa til annara ráðstafana en þessarar, er hæstv. forsrh. kemur hjer með. Það verður að gera gagngerðar ráðstafanir til þess, að sá banki geti fengið fje og öðlast það traust, sem hann hefir mist.

Jeg hefi tekið þetta fram til þess að hæstv. fjrh. gefist kostur á að ræða þessi atriði málsins. En hafi jeg missagt eitthvað, þá er það af ókunnugleika.

Hæstv. forsrh. hjelt því fram, að lán þetta ætti að fá vegna Landsbankans. Það get jeg ekki fallist á. Landsbankinn á mikið fje aflögu í útlöndum, og miklar líkur eru til þess, að hann hefði ekki þurft á láni að halda fyr en útsjeð var um frv. þau hjer í þinginu, er Lansbankann snerta. Ef þau frv. hefðu ekki verið samþykt, þá var þó enn nægur tími til að koma fram með þetta.

Hæstv. forsrh. sagði, að hjer væri um lausalán að ræða. En sje það nú meiningin, þá skil jeg ekki brtt. hans, sem er miðuð við sjerstakan banka og ætlast til, að lánið sje tekið til eins árs í senn. En fari nú svo, að þessi viðkomandi banki vilji ekki framlengja lánið, þá liggur engin lánsheimild fyrir samkvæmt þessu frv., því að í lok fyrstu greinar á að standa, samkvæmt breytingu hæstv. forsrh.: „Heimilt er ráðherra einnig að endurnýja ábyrgðina frá ári til árs“ o. s. frv. Þetta gæti nú verið gott og gilt, ef sjerstakur banki væri ekki nefndur á nafn í greininni. Jeg kann heldur ekki við það, að nefndur sje sjerstakur banki í þessu sambandi, enda er það algerlega óþarft, og tilgangi hæstv. forsrh. mátti ná á allan annan hátt en þennan. En úr því að bankinn er nefndur á nafn, er ekki í annað hús að venda. Jeg álít, að nánari skilyrði, er þingið hefði viljað setja um slíka lántöku sem þessa, hefðu mátt koma fram í gerðabók fjárhagsnefndar og að það hefði komið í sama stað niður fyrir hæstv. fjrh., því að það, sem fjárhagsnefnd mundi gera í slíku máli, yrði vitanlega í samræmi við vilja meiri hluta þingsins.

Þá vildi hæstv. fjrh. rengja það, að fjárhagsástæður landsins út á við væru eins slæmar og háttv. þm. Str. hjelt fram. Hann vildi ekki viðurkenna, að það munaði 15 miljónum króna frá því í fyrra. Jeg er þessu nú ekki vel kunnugur, en jeg ætla, að skýrsla hæstv. ráðherra um þetta efni muni vera ærið einlit. Ef út í þá sálma er farið, kemur margt til greina, sem gerir það efasamt, hvort skýrslan um skuldir bankanna fari ekki nærri lagi. Hæstv. ráðherra færði það sem ástæðu til rengingar, að skýrslur um innieign bankanna í fyrra sýndu ekki fjárhagsástandið út á við, heldur bæri að leggja skýrslur um útflutning og innflutning til grundvallar. Jeg hygg, að það muni nú vera deildar skoðanir um það, hvort hægt sje að leggja innflutningsskýrslur til grundvallar. Þar munu oft vera töluverð vanhöld, einkum á hinum dýrari vörum.

Þá vildi hæstv. ráðherra með einu orði slá striki yfir það, að gengið hafi haft áhrif á skuldirnar. Þessi kenning er afar vafasöm. Árið 1925 töpuðust 300 þúsund krónur í gengismun á einum farmi, og fleira slíkt mun hafa farið á eftir. Þá sagði hæstv. ráðherra, að sjer væri gleðiefni að leggja þetta frv. fyrir. Jeg get nú ekki fyllilega skilið það samkvæmt hans eigin kenningum áður. í bók sinni „Lággengið“ tekur hæstv. ráðherra það skýrt og vel fram, að eigi að halda uppi krónunni, þá verði að minka lánsfjeð sem mest, takmarka útlánin og minka skuldirnar. Með því að leggja til, að nýtt lán verði tekið, breytir hann á móti þessari kenningu sinni. Með því að taka lán má að vísu halda genginu uppi í bili, en það reynist erfitt, er til lengdar lætur, því meir sem erlendu lánin aukast.

Þá er önnur stefnubreyting hjá hæstv. fjrh. frá því í fyrra í gengismálinu. Þá vildi hann afsaka hækkun krónunnar með því, að gildi peninga færi eftir eftirspurn og framboði. En nú kemur það greinilega á daginn, að hann fylgir ekki þessari kenningu sinni, því að ef hann hefði trú á henni, þá væri hann fyrir löngu búinn að fella krónuna.

Þá vildi hæstv. ráðherra neita því, að skattabyrðin hafi aukist á þjóðinni á síðustu árum. Jeg veit að vísu, að hann gerði í fyrra tilraun til að lækka suma skatta, en sú lækkun var hvergi nærri nóg, eftir því sem ástæður voru til. Það var eðlilegt um leið og krónan hækkaði, að reynt væri að lækka skattana. En nú er það svo, að skattarnir eru að mestu leyti hinir sömu og meðan krónan stóð í 50, en nú er hún rúmlega 80, og hafa því hækkað að sama skapi. En það er alviðurkent með öðrum þjóðum, og heimtað harðlega að framfylgt sje, að skattar lækki þegar krónan hækkar.

Þá vildi hæstv. fjrh. ekki svara svo skýrt, að eigi yrði um vilst, þeirri fyrirspurn frá háttv. þm. Str., hvort hann ætlaði að hætta við þá stefnu sína að hækka krónuna. Jeg býst nú ekki við, að hann fáist til þess að lýsa yfir því, að hann sje algerlega horfinn frá þeirri stefnu sinni. Það væri til of mikils mælst. En nú vil jeg spyrja hann að því, hvort hann vill ekki lofa því að vinna ekki að hækkun krónunnar fyr en landið hefir borgað skuldir þær, sem það hefir stofnað til síðan krónan hækkaði. Jeg legg áherslu á þetta, því að jeg er hræddur við hækkun krónunnar meðan skuldir landsins eru of miklar. Jeg vil láta grynna á þeim fyrst.

Hv. 1. þm. Rang. (KIJ) lýsti yfir því, að lán þetta væri bráðabirgðaráðstöfun. Jeg skal játa, að það skiftir öðru máli, ef svo er, en spurningin er, hvort við fáum við það ráðið, að svo verði. Þessi háttv. þm. leit bjart á framtíðina. Jeg er yfirleitt bjartsýnn, en jeg sje ekki enn rofa fyrir. Jeg býst því miður ekki við því, að þessi kreppa sje liðin hjá; jeg er hræddur um, að við eigum eftir að sjá hann svartari. Við verðum að muna eftir því, að altaf geta komið fyrir óhöpp, t. d. höfðum við ekki reiknað með kolaverkfalli, en hygginn maður reiknar altaf með óhöppum. En jeg vjefengi, að betri tímar sjeu nú framundan, og skal jeg reyna að finna orðum mínum nokkurn stað. Það er vitanlegt, að tekjur ríkissjóðs hafa til þessa verið að þverra, og það svo mjög á seinni hluta ársins 1926, að engan gat órað fyrir því. Hæstv. atvrh. (MG) lýsti yfir því á þingmálafundi í Tryggvaskála í haust, að stjórnin byggist við því, að tekjuafgangur yrði 2 miljónir króna. En hann er enginn. Venjulega eru meiri tekjur seinni part ársins en fyrri partinn. En þær brugðust gersamlega síðara missirið. En það er mjög bjart álitið, að byggja tillögur um fjármál á því, að bráðlega rofi til.

Að síðustu vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JÞ), hvort hann getur sagt um það, hvort lánið muni verða framlengt með sömu kjörum. Það gæti verið, að hjer væri um gildru að ræða. Jeg vil því spyrja hann, hvort vissa sje fyrir því, að lánið verði framlengt með sömu kjörum, ef við ekki getum hreinsað okkur af skuldinni.