07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf ekki að segja margt til viðbótar því, sem jeg hefi áður sagt. Jeg gat þess þá, að jeg mundi ekki taka endanlega afstöðu til þessa máls við þessa umræðu, jeg væri ekki fullkomlega undir það búinn. Jeg skal aðeins taka það fram, að jeg tel mjög hæpið, að við getum staðið í skilum með lán þetta um næstu áramót, eftir því útliti að dæma, sem nú er. Árið sem leið var útkoma atvinnuveganna svo slæm, að hagur okkar er 15 miljónum króna verri en í fyrra. Þessu höfum við tapað á búskapnum. Jeg sje ekki, að betra blasi við framundan. Það lítur ennþá svartara út fyrir landbúnaðinum. Mikill hluti aðalframleiðsluvöru bændanna er óseljanlegur og mjer skilst, að horfurnar sjeu alt annað en glæsilegar hvað sjávarútveginn snertir. Hinsvegar eru engar horfur á því, að kostnaðurinn við framleiðsluna lækki að mun. Það standa stórkostlegar verklegar framkvæmdir fyrir dyrum. Ef verkstjórarnir „misreikna“ sig eins og í fyrra, þá verða þeir skæðir keppinautar framleiðslunnar. Jeg verð að telja það víst, þegar jeg hugsa um ástandið, sem blasir nú við okkur, að þegar búið er að taka þetta lán, komi það sem nýtt fjármagn inn í atvinnuvegina og sitji þar fast. Og þá er opnuð leið fyrir þeim fyrirspurnum, sem jeg beindi til hæstv. forsrh. (JÞ), en hann vjek hjá að svara. En geti hæstv. ráðh. bent mjer á vissu fyrir því, að aðstaða okkar sje sú, að við getum borgað lánið upp um næstu áramót, fell jeg að sjálfsögðu frá þeim atriðum í ræðu minni, sem það snerta.

Jeg er búinn að sýna, hvernig þetta mál horfir við mjer. En það er annað atriði einstaks eðlis, sem jeg þarf að fara út í. Jeg hefi vikið að því, að jeg tæki til athugunar, hvernig peningunum væri skift milli atvinnuvega okkar og hvaða áhrif ný lántaka mundi hafa í þá átt. Jeg gat þess, að þetta viki að stjórninni aðallega, en væri ekki þingmönnum óviðkomandi. Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, að jeg sem endurskoðandi Landsbankans hefði átt að snúa mjer til stjórnarinnar um þetta. Það hefi jeg ekki gert, heldur hefi jeg snúið mjer til þingsins. Þegar jeg tókst á hendur að verða endurskoðandi Landsbankans, var það með það fyrir augum að athuga, hvernig peningunum væri skift á milli atvinnuveganna. Fyrsta árið varði jeg til þess mikilli vinnu, og síðan hefi jeg á hverju þingi borið fram hluti bygða á þeim rannsóknum. Fyrsta árið bar jeg fram frv. um stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbankann. Annað árið bar hæstv. ráðh. (JÞ) fram frv. um ræktunarsjóð Íslands, og þá ber jeg fram annað frv. um ræktunarsjóð hinn nýja. Á þriðja þinginu mínu ber jeg svo ásamt hv. 1. þm. N.-M. (HStef) fram brtt. við landsbankafrv., um það, að af verðbrjefaeign bankans skuli ákveðinn hluti vera í jarðræktarbrjefum. Og jeg skal lofa honum því, hæstv. ráðh., að hann skal enn fá að greiða atkvæði um tillögu frá mjer í þessa átt.

Mjer þykja góð þau orð, sem hæstv. ráðh. hefir látið falla um sinn hug í þessu máli, en jeg verð að segja, að þau góðu orð eru ekki í samræmi við verk hæstv. ráðh. Hann var á móti frv. mínu um búnaðarlánadeildina. Á öðru þinginu mínu feldi hann það úr sínu frv. um ræktunarsjóðinn, að Landsbankinn ætti að leggja ákveðna fúlgu til landbúnaðarins, og í fyrra barðist hann gegn því með oddi og egg, að sparisjóðsfje Landsbankans ætti að hverfa til ræktunar. Jeg vona, að hans góðu orð eigi eftir að koma fram í öðrum og betri verkum en áður.

Hv. frsm. fjhn. (KIJ) gat þess, og það kom fram hjá hæstv. ráðh. (JÞ) líka, að það væri misskilningur, að þessi lántaka stæði í sambandi við gengi peninganna. Jeg vil geta þess, að jeg tók fram í minni ræðu, og hæstv. ráðh. viðurkendi, að það væri rjett, að það fje, sem bankarnir eiga í útlöndum, mundi nálega vera á þrotum. Sú „kredit“, sem bankarnir eiga utanlands og nota nú til þess að annast yfirfærslu peninga, er að smáþrjóta. Ef þetta lán er ekki tekið, er spurningin bara um, hvað margar vikur sjeu þangað til bankarnir hætta að yfirfæra peninga. Hvað tekur þá við? — Það er ekki gengisnefnd, sem ræður gengi peninganna, ef svo er komið, heldur framboð og eftirspurn. Ef lánið er ekki tekið, má búast við, að krónan falli. Jeg get bent á það, að á síðasta fundi gengisnefndarinnar var gert yfirlit um það, hvað mikið hefði verið notað af erlendum gjaldeyri mánuðina mars, apríl, maí og júní í fyrra. Það voru áætlaðar 17 miljónir. Hinsvegar eru ekki til nema 5–6 miljónir í óseldum afurðum. Þó má að vísu búast við, að eitthvað falli til af nýrri framleiðslu á þessum mánuðum, en það er ekki mikið. Jeg býst nú við, að öllum sje ljóst, að með því lánstrausti, sem bankarnir eiga nú við að búa, er ekki hægt að halda áfram gjaldeyrisverslun. Til þess þarf annaðhvort þessa lántöku eða önnur skilyrði til þess að halda gengi peninganna föstu.

Hv. frsm. fjhn. og hæstv. forsrh. ljetu báðir orð falla um, að það væri misskilningur, að hjer væri stórmál á ferðinni. Jeg verð nú samt að halda fast við mína skoðun. Jeg lít jafnan á það sem stórmál, þegar á að gefa banka heimild til að binda lánstraust landsins í svo stórum stíl. Við megum ekki gleyma því, hvað við erum fáir. Við erum 30 sinnum færri en Danir. Ef um þá upphæð er að ræða, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir heyrt úti í bæ, svarar hún til 270 miljóna í Danmörku, og það býst jeg við, að þætti mikið þar. Þetta eitt ætti að vera nægilegt til þess að kalla þetta stórmál. En jeg er sannfærður um, að þetta lán verður fast, áframhaldandi lán. Það verður að veita því inn í atvinnureksturinn, og jeg er sannfærður um, að það mun setja sinn stimpil á okkar þjóðlíf, ekki einungis á næstu árum, heldur á næsta mannsaldri. Út frá þessari hlið málsins mun jeg taka afstöðu til 3. umr., bæði um það, sem hæstv. ráðh. hefir svarað, og hitt, sem hann hefir ekki svarað.

Þá á jeg aðeins eftir að gera eina persónulega játningu. Jeg ætla að „citera“ í gamlan hlut, þó að jeg í þetta sinn þurfi ekki að fara alla leið aftur í Sturlungu, heldur aðeins til ársins 1922, og jeg ætla að „citera“ orð hæstv. núverandi forsrh. Hann var þá stjórnarandstæðingur. í B-deild Alþt., bls. 117, segir hæstv. ráðherra: „Á slík stjórn sem þessi og ekki skilið, að henni sjeu afhent tekjuhallalaus fjárlög“. Jeg lít svo á, að einhver æðsta skylda hvers þings sje sú, að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög. Hæstv. ráðh. áleit, að sjer bæri að hugsa svo, að stjórnin ætti ekki skilið að fá tekjuhallalaus fjárlög. Mjer dettur ekki í hug að fara eins langt í grimdinni og hæstv. ráðherra. En jeg vil segja, að jeg dæmi núverandi stjórn svo þungt fyrir fjármálastarfsemi hennar, — fyrir það að snúa því góða ári 1924 í illæri —, að jeg mun skoða huga minn um, hvort jeg á að fá slíkri stjórn meiri peninga í hendur, hvort jeg á að gefa heimild til þess, að hún fái í hendur fleiri miljónir, í viðbót við þær miljónir, sem hún hefir látið sökkva.