07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði, að hann hefði ekki viljað sem þingmaður taka við þeim upplýsingum, sem þingmönnum stóðu til boða, en hann hefði frjett úti í bæ um eitthvað þessu viðvíkjandi og beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort sú frjett væri rjett. Jeg vona, að þó að hv. þm. (HjV) sje ungur og óþingvanur, skilji hann það, að þegar jeg hefi svarað þingmönnum eins og jeg gerði, fer jeg ekki að svara frjettum, sem borist hafa af götunni. Meira hefi jeg ekki að segja hv. 4. þm. Reykv. Aðeins vil jeg óska, að hann þroskist að aldri og þingvisku, því að jeg veit, að til þess hefir hann fulla greind.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) fór út í gengismálið, og einkum var honum ant um að fá yfirlýsingu frá stjórninni um það, hvort hún hjeldi fast við fyrri stefnu sína í því máli. Jeg verð að segja, að það hefði farið betur á því, ef hv. þm. hefði orðað þetta öðruvísi og spurt, hvort stjórnin ætlaði sjer að halda fast við fyrri stefnu hv. þm. sjálfs. Sú stefna hefir verið skýrt yfirlýst af honum hjer, sem sje að stöðva lækkun krónunnar og hækka hana, ef mögulegt er. Jeg ætla ekki að fara að gefa neinar yfirlýsingar hjer. Jeg hefi skrifað um þetta mál í blöðin, og þar má sjá, að mín stefna er fyllilega í samræmi við þessa yfirlýstu stefnu hv. þm. (HStef).

Hv. þm. (HStef) vildi afsala sjer allri ábyrgð á lántökunni, og það er alveg rjett af honum. Það hefir blandast óþarflega mikið inn í umr. umhugsunin um það, hvort það væri skynsamlegt af stjórn Landsbankans að taka þetta lán, af því að jeg held, að hvorki þingmenn nje stjórnin hafi tök eða kunnugleika til þess að gera sig að yfirdómara landsbankastjórnarinnar um þetta. Það er heldur ekki það, sem um ræðir í frv., hvort bankastjórnin eigi að taka slíkt lán, heldur hitt, hvort þingið vill veita bankanum ábyrgð ríkissjóðs. Þetta er það, sem um er spurt í frv., og er rjett að gera sjer ljóst, að þetta eitt kemur til atkvæða, eftir því sem enn er fram komið.

Þá sagði háttv. 1. þm. N.-M., að hækkunin væri það, að liggja á velgengni atvinnuveganna. Því skaut upp hjá honum, að alt væri gengishækkuninni að kenna og fyrir því þyrfti engin rök að færa. Jeg vil minna hv. þm. á það, að áður hafa komið ljeleg ár og skuldir safnast í erlendum bönkum, og það meira en nú er. Við þurfum ekki að fara lengra en til ársins 1920. Af hverju stafaði þá þetta sama fyrirbrigði? Var það af gengishækkun árin 1919 og 1920? Það er ekki hægt að kenna því um, því að þá stóð einmitt svo á, að í 1 ár og 10 mánuði samfleytt áður en kreppan byrjaði hafði íslenska krónan altaf verið að falla. Hún fjell úr gullgildi 1. janúar 1919 niður í 50% í nóvember 1920. Úr því að þá fór samt á sömu leið og 1926, er þá ekki dálítið varhugavert að slá því fram, að nú undanfarið hafi gengishækkunin ein verið orsök kreppunnar? Jeg held, að allir hugsandi menn hljóti að viðurkenna, að það liggur nær að hugsa, hvort ekki sjeu sömu ástæður til kreppunnar nú og 1920–1921, enda vita allir, sem það mál vilja kynna sjer, að allar þær ástæður eru fyrir hendi nú. Útflutningsvörur okkar hafa fallið í verði á móts við verðlag alment í heiminum. Jeg get því látið mjer í ljettu rúmi liggja alt hjal hv. þm. (HStef) um fjármálastjórn mína í þessu sambandi. Stjórnin hefir ekki getað ráðið verðlagi á fiski í Miðjarðarhafslöndunum, ekki fremur 1926 en 1920–1921. Því er ver, að stjórn landsins hefir ekki tök á þessu. Enginn hv. þm. gengur þess dulinn, að ef stjórnin gæti ráðið, mundu slík verðföll ekki koma fyrir.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) þarf jeg ekki að svara. Hann var alment tekið að lýsa sinni skoðun á ástandinu og hag bankanna, einkum Íslandsbanka. Jeg vil þó taka undir þau orð hans, að til eru menn, sem álíta fjárhagsástand bankanna verra en það er. Það er óheppilegt, að slíkar skoðanir skuli vera uppi, en það er erfitt við því að gera. Háttv. þm. (MT) sagði, að Landsbankinn ætti óráðstafað fje erlendis. Hann á það ekki, en hann á ónotað lánstraust, og meðal þess er sú tiltrú, sem þessi ameríski banki vill sýna honum.

Háttv. 1. þm. Árn. kunni ekki við, að í brtt. væri nefndur ákveðinn banki. Þetta getur verið álitamál. En sumir hv. þm. óska þess, að ábyrgðarheimildin sje takmörkuð við það lán, sem Landsbankinn ætlar að taka nú, og einmitt til að verða við óskum þessara manna, hefi jeg borið brtt. þessar fram, til þess að einskorða þetta. Þá hafði hann það ekki rjett eftir mjer, að jeg hefði sagt, að mjer væri það sjerstakt gleðiefni að leggja frv. þetta fyrir þingið. Slíkt hefi jeg aldrei sagt. Jeg mótmælti því bara hjá hv. þm. Str. (TrÞ), að það hefðu verið neitt sjerstaklega þungbær spor; jeg taldi jafnsjálfsagt að gera það, þegar þess var beiðst, eins og hvert annað verk, sem stjórnin þarf að gera. Þá má náttúrlega segja, að framkoma frv. sje afleiðing af vondri afkomu atvinnuveganna, og að því leyti sje ekkert gleðiefni að flytja það.

Þá spurði hann mig, hvort jeg vildi vera með að hækka krónuna ekki meira. Að sjálfsögðu mun jeg ekki gefa nein ákveðin loforð í því efni fyrir framtíðina, en hinsvegar vil jeg taka það fram, að jeg sem þingmaður og að einhverju leyti sem ráðherra átti minn þátt í þeim lagaboðum, sem sett voru 1924 og miðuðu að hækkun hennar, en þær stjórnarráðstafanir, sem gerðar hafa verið milli þinga, hafa allar hnigið í þá átt að hafa hemil á hækkuninni. Það er því ekki rjett, að stjórnin hafi gert beinlínis ráðstafanir til hækkunar.

Þá spurði hann og ennfremur, hvort lánið mundi fást framlengt með sömu kjörum. Um það er ekki hægt að segja. Bankalöggjöf Bandaríkja bannar að veita slík lán lengur en til eins árs í senn. Verður því Landsbankinn að fara eftir því, sem lánstraust okkar leyfir, og nota gætilega lánsheimildina. Jeg fyrir mitt leyti treysti bankastjórninni vel til þess.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) spurði, hvort ekki væri nægilegt að fá heimild til að ábyrgjast lánið um eitt ár eða svo. Hann hefir því skilið orð mín þannig, að lánið ætti að borgast eftir eitt ár. Um þetta er ekki hægt að segja, því ekki er hægt að vita nú, hvort Landsbankinn getur orðið skuldlaus við þennan banka frekar en aðra í árslok. Annars skýrði jeg í fyrri ræðu minni, hvað væri átt við með lausum lánum; það væru þau lán, sem ekki ættu að standa lengur en brýnasta nauðsyn krefði, aðeins þangað til búið væri að draga inn það fje, sem ætti að borga þau með.

Eins og jeg hefi bent á áður, má ganga að því vísu, að einhverntíma komi betra árferði en 1926, t. d. eins og 1924. Þá borga bankarnir öll lán sín upp, og í stað þess að skulda, eiga þeir inni við erlenda banka.

Þá bjóst hann ekki við, að hægt yrði að borga lánið upp eftir 10 mánuði, sem mjög er sennilegt. Það er því ekki rjett að fá ábyrgðarheimildina aðeins til 10 mánaða, heldur líka til að framlengja lánið, ef það verður ekki borgað upp.

Út af því, að viðskiftum Íslandsbanka og Landsbankans hefir verið blandað inn í umræðurnar, vil jeg taka það fram, að eins og öllum er kunnugt, hefir Íslandsbanki látið seðlaútgáfuna af hendi, og hún því flust til Landsbankans. Hefir það aftur haft í för með sjer, að Landsbankinn hefir færst meira í horf seðlabanka og þar af leiðandi orðið að taka upp þau viðskifti við Íslandsbanka, sem alment er um seðlabanka gagnvart öðrum bönkum, að fá þeim í hendur starfsfje gegn vel trygðum víxlum og öðrum tryggingum. Viðskifti þessara tveggja banka okkar eru því fyllilega eðlileg, þegar það er athugað, að Íslandsbanki er ekki lengur seðlabanki.

Þá afsakaði hv. þm. Str. það, að hann hefði ekki borið fram fyrir stjórnina kvartanir um skiftingu lánsfjárins milli atvinnuveganna, heldur hefði hann komið með þær til löggjafarvaldsins. Jeg býst við, að hann hafi því aðeins farið með þær til þingsins, að hann hafi ekkert haft við skiftingu bankastjóranna að athuga, sjeð, að því varð ekki kipt í lag nema með breyttri löggjöf.

Að því er snertir ummæli hans um verk mín viðvíkjandi lánum til landbúnaðarins, þá vil jeg taka það fram, að það er ekki nóg að koma með tillögur um bætt lánskjör fyrir hann. Þær till. þurfa að minsta kosti að vera svo úr garði gerðar, að þær reki sig ekki á almenna löggjöf og bankastarfsemi. En eins og kunnugt er, hafa sumar till. háttv. þm. Str. (TrÞ) haft þann ágalla. Þá vildi hann og halda því fram, að þessi lántaka væri óhjákvæmileg til þess að halda uppi núverandi gengi á íslenskri krónu. Þó svo væri, tel jeg það engin mótmæli á móti frv., því það ætti öllum að vera ljóst, að eitt hið versta, sem fyrir okkur gæti komið nú, væri það, ef krónan færi að lækka.

Annars er meira, sem þarf að gera en að halda uppi gengi peninganna. Það þarf líka að sjá um, að heilbrigð fyrirtæki í landinu velti ekki um koll; þau þurfa að fá það fje, sem þeim er nauðsynlegt til þess að komast yfir krepputímann.

Þá vissi jeg ekki, hvernig átti að skilja þau ummæli þessa hv. þm., að þeir þm., sem væru með því að veita þessa ábyrgðarheimild, vildu ekki stöðva fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna. Jeg satt að segja skil ekki sambandið í þessu. En það vil jeg taka fram, að það er ekki hin rjetta leið til þess að stöðva þennan straum að leggja sjávarútveginn á höggstokkinn með því að neita honum um fje, sem hann nauðsynlega þarf til rekstrar og erlendir menn vilja lána honum.

Svo lauk hann ræðu sinni með nokkrum velvöldum orðum sem stjórnarandstæðingur, og gerði það með því að slíta út úr sambandi orð, sem jeg hafði sagt 1922. Jafnframt endurtók hann það, sem svo oft hefir heyrst frá honum áður, að þessi stjórn hafi snúið góðærinu í illæri. Þetta var oft sagt um konunga áður, þegar þeim var kent um harðærin. Þannig var einn t. d. kallaður Ólafur hungur. En nú eru það ráðherrarnir, sem eiga að eiga sök á harðærunum.

Jeg hefi oft gert grein fyrir því áður og veit, að hv. þm. Str. skilur það, að afkoma atvinnuveganna mótast af verði afurðanna, sem stjórnin því miður ræður ekki yfir.

Jeg veit ekki, hvort hann ætlar að kenna gengishækkuninni í fyrra um það mikla verðfall, sem varð á íslensku saltkjöti síðastliðið haust í Noregi. (TrÞ: Já, um 20% af því eða meira). Það held jeg þó, að sje vafasamt. En hafi hann ekki betri vopn á stjórnina en þau, að kenna henni um verðfall þetta á íslensku saltkjöti, sem byrjaði í október í haust og hefir haldið áfram síðan, þá get jeg fyrir stjórnarinnar hönd verið ánægður með þann átakanlega skort hjá háttv. þm. á rjettmætum aðfinslum á hendur stjórninni. Því meiri röksemdaþrot er tæplega hægt að komast í.