07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil láta þess getið, að mjer finst það ekki sitja á hæstv. forsrh. (JÞ) að vera að kenna mjer þingsiði, því að hann er víst ekki nema sex ára gamall á þingi, og reynslan af hegðun hans þar, að minsta kosti á fyrsta þingi hans, ekki sem glæsilegust, svo að þar er ekki af miklu að láta. í þessu atriði finst mjer, að jeg ætti frekar að kenna hæstv. forsrh., hvernig ráðherrum beri að hegða sjer á þingi. Jeg álít það skyldu þeirra að koma fram með málin opinberlega, en ekki að segja við þingmenn: Komið til mín; þá skuluð þið fá að vita alt um þetta mál, og svo tölum við um þetta án þess að aðrir viti nokkuð um það. Þetta er það, sem hæstv. ráðh. (JÞ) gerir nú, en það er rjettur minn og skylda sem þingmanns að fá upplýst opinberlega, hver kjör sjeu á þessu láni, og það er skylda hæstv. ráðh. (JÞ gagnvart þjóðinni að svara opinberlega þeim spurningum, sem til hans er beint. Að hæstv. ráðh. (JÞ) ekki gerir þetta, það er vottur þess, hvert álit hann hefir á skyldum ráðherra yfirleitt og hversu litla ábyrgð hann telur sig hafa gagnvart þjóðinni.

Jeg hefi ekki viljað fara til hæstv. forsrh. til þess að láta binda mig þagnarheiti, þegar um opinber mál er að ræða, og mjer þykir það, satt að segja, mjög leitt, að sumir af þeim hv. þm., sem hjer sitja, virðast telja það rjetta aðferð, sem hjer hefir farið fram. Það gleður mig samt, að á svari hæstv. forsrh. til mín var hægt að merkja, að það, sem jeg sagði um lánskjörin, var rjett. Það stendur því óhaggað, enda veit jeg, að þær upplýsingar, sem jeg hefi fengið um það mál, voru rjettar. En viðvíkjandi hinu atriðinu, hvernig fjenu ætti að verja, þá hlýtur það að koma í ljós, og er þegar farið að koma í ljós, að þótt lánið sje tekið í nafni Landsbankans, þá er það þó aðallega tekið vegna Íslandsbanka. Það ætti að vera auðvelt fyrir hvern meðalgreindan mann, sem lán tekur, að skýra frá því, hvernig fjenu eigi að verja. Jeg þykist vita, að ef hæstv. forsrh. tæki fje að láni handa sjálfum sjer, þá mundi hann geta sagt, til hvers hann ætlaði að nota fjeð. Það er heldur enginn vafi á því, að vilji Landsbankinn á annað borð taka lán, þá veit hann líka, til hvers hann þarf að nota peningana. Annars vildi bankinn auðvitað ekkert lán taka. En nú er það sannanlegt, að Landsbankanum liggur ekki á fje nú, heldur Íslandsbanka, og hjer er einungis verið að dylja sporin á þeirri krókaleið, sem þinginu er ætlað að fara til að sökkva í hann nýju fjármagni.

Það er að vísu sjálfsagt, að um leið og seðlaútgáfan fer yfir á ríkissjóð og Landsbankann, þá verður nauðsynlegt fyrir Íslandsbanka að útvega sjer nýtt starfsfje. En það fje þarf ekki að koma frá því opinbera. Svo stór banki sem Íslandsbanki er á pappírnum ætti að geta orðið sjer úti um annað fje en frá því opinbera, og með því opinbera tel jeg Landsbankann, þar sem hann er ríkissjóðs eign. En nú er svo farið, að mestalt starfsfje Íslandsbanka er lán frá Landsbankanum og breska lánið frá ríkissjóði. Þegar kemur að því að auka enn þessi opinberu lán til Landsbankans, eins og nú er fyrirhugað, þá verður að athuga, hvaða tryggingar eru fyrir hendi af hálfu Íslandsbanka. En sje það satt, sem haft er eftir nákunnugum mönnum, að bankinn vegi salt milli lífs og dauða, hlutafjeð sje að minsta kosti mestmegnis tapað, verður naumast sagt, að tryggingarnar geti verið góðar og að verjandi sje að sökkva í þann banka meiru af opinberu fje. En það er skiljanlegt, hvers vegna hæstv. forsrh. vill koma málinu fram. Hann er formaður í bankaráði Íslandsbanka og því ekki óeðlilegt, frá hans sjónarmiði, að taka sjerstakt tillit til hagsmuna þess banka. En áhrifa hæstv. forsrh. vita allir, að gætir mjög mikið í Landsbankanum, þar sem hann er fjármálaráðherra.

Jeg mun nú haga atkvæðagreiðslu minni eftir þeim svörum, sem jeg fæ frá hæstv. forsrh. Ef ekki fást opinberlega hjer á þingi upplýsingar um það, hve mikið af láninu eigi að fara til Íslandsbanka, og nánar verði skýrt opinberlega alt viðvíkjandi lántökunni, þá mun jeg greiða atkvæði á móti láninu.