09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg var hlutlaus við atkvgr. við 2. umr., en vil nú lýsa endanlegri afstöðu minni til málsins.

Fyrst langar mig til að víkja að nokkrum ágreiningsatriðum, sem voru milli mín og hæstv. forsrh. (JÞ) við 2. umr. málsins. — Hæstv. ráðh. vildi leita sjer skjóls hjá mjer og sagði, að afstaða sín til hækkunar peninganna væri hin sama og mín hefði verið á þingi 1924, sem hann lýsti rjett með þeim orðum, að jeg vildi stöðva fall peninganna, og hækka þá, ef við gœtum. Afstaða mín var þannig ekki fyrirvaralaus. Nú er reynsla þess tíma, sem á milli er, fram komin, og mjer sýnist hún þannig, að það muni um megn bæði efnahag þjóðarinnar og mætti atvinnuveganna að hækka krónuna fullkomlega í sitt fyrra gengi. Enda er það sýnilegt, að öðrum þjóðum hefir reynst það fullþung byrði, þótt auðugri væru en Íslendingar og peningar þeirra engan veginn eins lágt fallnir. — Munurinn á mjer og hæstv. forsrh. nú er því aðeins sá, að jeg hefi getað lært af reynslunni, en hann ekki. Jeg get því ekki gert að því, þótt hæstv. ráðh. verði minna skjól af afstöðu minni 1924 en hann vildi láta sýnast.

Þá þótti hæstv. ráðh. það heldur hatramlega mælt af mjer, er jeg sagði, að með hækkun krónunnar væri ætlað að liggja á velgengni atvinnuveganna allan þann tíma, sem hækkunin stendur yfir. En vill hæstv. ráðh. neita því, að hækkunin sje atvinnuvegunum til byrði? — Hæstv. ráðh. kvaðst byggja sína von um að geta hækkað gengið á velgengni atvinnuvega þjóðarinnar. Þetta er nákvæmlega það sama, aðeins sagt með öðrum orðum, því á meðan hækkunin er ekki fullkomnuð, eru með henni teknir möguleikar atvinnuveganna til velgengni og þeim haldið í sífeldri kreppu.

Hæstv. forsrh. talaði svo, sem jeg hefði sagt, að hækkun krónunnar væri eina orsökin til þeirrar kreppu, sem hjer er nú. En jeg sagði aldrei neitt þess háttar, heldur sagði jeg, að hún væri þar stór liður.

Þá spurði sami hæstv. ráðh., hvort verðfallið á íslensku kjöti á tímabilinu okt. 1926 til mars 1927 stafaði af hækkun íslensku krónunnar. Auðvitað gerir það það ekki beinlínis, því að á þessum tíma hefir íslensk króna staðið alveg í stað. En þar fyrir getur þetta átt orsakir sínar að rekja til gengisbreytinga, því að norska krónan hefir hækkað mikið á þessu tímabili, og það gæti hugsast, að hækkun hennar hefði bitið svo bakfiskinn úr kaupmætti neytendanna, að þar lægi nokkur ástæða til verðlækkunarinnar.

Þá þótti hæstv. forsrh., að við festingarmenn ættum að geta tekið því vel, er hann býðst til að ganga þessi „þungu spor“. Jeg skil þetta sem sáttaboð til okkar, en jeg vil ekki taka því. Það er skiljanlegt, að því meiri lán sem tekin eru erlendis handa bönkunum, því meiri ástæðu hafa þeir til að óska hækkunar, svo að greiðsla lánanna verði þeim sem ljettust. Á þann hátt örva nýjar lántökur viljann til hækkunar hjá þessum stærstu aðiljum og styðja þar með hækkunarstefnuna. Og jeg vil benda á, að ef hækkunarstefnan nær fram að ganga til hlítar, verður hún því meiri byrði á landsmönnum, sem þeir nota meira lánsfje.

Hæstv. forsrh. benti á aðra hugsanlega leið til að komast úr vandræðunum, að reyna að komast hjá nýjum lántökum með því að nota hagsýnilega og sparlega það veltufje, sem við höfum yfir að ráða, og bíða svo átekta. Þetta er leið, sem jeg get mjög vel fallist á og vil fara. Annars þykir mjer undarlegt, hve áfjáðir sumir eru nú að fara þessa lántökuleið, þegar þess er gætt, hver afstaða þeirra var gagnvart lausaskuldum ríkissjóðs. Það getur farið svo, að ekki sje mikill munur á því, hvort landið skuldar sjálft eða hvort það er í ábyrgðum. Og hjer er farið fram á heimild fyrir ábyrgð á upphæð, sem er hærri en það, sem við höfum greitt af skuldum síðan 1924.

Ný lántaka getur komið þannig fram, að hún myndi falska kaupgetu í landinu, en við þeirri hættu hefir enginn varað meira en hæstv. forsrh. Ef þetta lán verður nú fast í atvinnuvegum þjóðarinnar, er, eins og ástæður eru, ekkert líklegra en að það komi einmitt þannig fram.

Mín endanlega afstaða er því sú, að mjer þykir, að ekki hafi tekist að koma frv. í það horf nje að ástæður sjeu þannig, að rjett sje að samþykkja það, og mun því greiða atkvæði á móti því.