09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Í tilefni af umræðum þeim, sem fram hafa farið um þetta mál, tel jeg mjer skylt að gera grein fyrir atkvæði mínu.

Ríkisstjórnin ber fram frv. eftir ósk Landsbankastjórnarinnar. Landsbankinn þarf ábyrgðarinnar vegna atvinnuveganna, sem honum sem seðlabanka er skylt að sjá fyrir rekstrarfje að svo miklu leyti sem þeir hafa þær tryggingar að bjóða, er hann tekur gildar og samrýmanlegt er útlánsstefnu bankans. Það er ástand atvinnu- og viðskiftalífsins, sem heimtar þessa ríkisábyrgð — en ekki ríkisstjórnin.

Ef hjer hefði verið um lántöku að ræða til greiðslu á gömlum skuldum eða sjerstakra framkvæmda, þá hefði ef til vill verið hægt að neita um ábyrgðina. En þar sem hjer er um að ræða viðskiftalán, þá er ekki hægt að neita — nema menn vilji leggja algerlega árar í bát. Útlitið er að vísu ískyggilegt, en þó má færa rök fyrir því, að yfirstandandi ár verði ekki í tölu hinna verstu ára hvað afkomu atvinnuveganna snertir — og þá aðallega sjávarútvegsins. Þetta er annað eða þriðja kreppuárið. Fiskverð var á síðasta ári mjög lágt og er komið niður undir verðlag fyrir ófriðinn mikla. Bankar, útgerð og fiskverslun starfa með þessa viðvörun fyrir augum. Það gefur nokkrar vonir um, að betur farnist en á horfist. Stærstu áföllin verða þegar stórfeldar verðbreytingar eða gengisbreytingar hitta menn fyrir andvaralausa, en síður eftir óáran um afla og verðlag, sem skotið hafa skelk í bringu þeim, sem fyrir framleiðslunni ráða. Það lætur að vísu hæst í þeim, sem eru vitrir eftir á, þegar aðalhættan er yfirstaðin. En hins þurfum við heldur með, að þingheimur haldi lengst af sínu jafnaðargeði, en fuðri ekki upp af framkvæmdaákafa, þegar sæmilega árar, og sje þá ekki heldur heltekinn af hugleysi og svartsýni, þegar eitthvað harðnar í ári.

Það tjáir ekki að leggja árar í bát, þó á gefi. Bóndinn hættir ekki að búa, þó útlit sje slæmt um árferði eða verðlag. Bankar og atvinnurekendur verða, þegar svo á stendur, að leggja höfuðáherslu á að koma framleiðslukostnaði sem lengst niður til móts við verðlagið á afurðunum. En áfram verður að halda! Það er eins víst og að aukning í atvinnurekstri má ekki eiga sjer stað!

Það er nú svo komið í atvinnulífi voru, að aukna lánsheimild verður að fá til að tryggja það, að hægt verði undir öllum kringumstæðum að hafa þá útlánsstefnu, sem hagkvæmust verður talin fyrir þjóðarbúskapinn. Atvinnuþörf landsmanna og gjaldeyrisverslunin heimtar það. Þó slíkt lán, sem hjer er um að ræða, sje tekið, þá er þar ekki um raunverulega skuldaaukningu að ræða — nema að því leyti, sem atvinnuvegirnir skila ekki fjenu aftur. Og þó vil jeg telja, að áhætta ríkissjóðsins byrji fyrst, þegar atvinnuvegirnir skila minna aftur af láninu en því, sem þeir greiða ríkissjóði í skatta og skyldur. Nú skal jeg ekki gera mig að miklum spámanni um afkomu atvinnuveganna á þessu ári. En jeg vil þó orða það, að ef atvinnuvegirnir væru lausir við hina þungbæru skatta og skyldur, þá býst jeg við, að flestir teldu vísa von um, að þeir mundu geta borið sig. Í sambandi við ríkisábyrgð á viðskiftaláni er þetta ekki þýðingarlaust.

Jeg þykist fyrir mitt leyti hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um það, að þessu viðskiftaláni eigi að verja að mestöllu leyti til atvinnurekstrar á árinu. Og þó að það yrði að einhverju litlu leyti notað til þess að greiða annað reikningslán, þá opnast þar sama lánsheimild, sem verður svo notuð fyrir atvinnureksturinn á þessu ári. Atvinnureksturinn kemur náttúrlega við gengismálinu. Það dettur engum í hug að neita, að slík lán tryggi ekki einungis þann atvinnurekstur, sem Landsbankinn telur þess virði að lifi, heldur tryggi það einnig gjaldeyrisverslunina. Gjaldeyrisverslunin er ekki annað en önnur hliðin á atvinnuvegunum. Hitt tel jeg vart þingsins að fjalla um, við hverja viðskiftamenn bankinn skifti. Landsbankinn lánar eftir því, hve góðar tryggingar menn hafa að bjóða, og með tilliti til þeirrar útlánsstefnu, sem hann telur sjer skylt að hafa á hverjum tíma þjóðarinnar vegna. Endurkeyptir víxlar eru ekki verri en víxlar, sem keyptir eru beint, að öðru jöfnu. Og að banna þeim banka, sem á að vera og verður okkar seðlabanki, að endurkaupa víxla, sem annars þyrfti að kaupa beina leið, tel jeg ekki nokkra hæfu í. Um einstök viðskifti bankans verður hjer engin ákvörðun tekin; en sú almenna krafa fylgir vitanlega slíkri lánsábyrgð sem þessari, að Landsbankinn heimti nægar tryggingar af öllum lánþegum og að hann láni með tilliti til þeirrar stefnu, sem hann telur hollasta fyrir þjóðina og hennar afkomu. En þessi skylda stafar ekki á neinn hátt frá ábyrgð ríkissjóðsins, heldur hvílir hún jafnan á bankastjórninni, hvort sem hún þarf að óska eftir ríkisábyrgð eða ekki.

Tilhneiging Alþingis á síðari tímum til þess að ráða einstökum skuldaskiftum Landsbankans stafar vafalaust frá því, að þingið á sem stendur engan fulltrúa í bankastjórninni. Það mun víst ekki til neinn sá ríkisbanki í heimi annar en Landsbanki Íslands, þar sem þingið á engan beinan fulltrúa í bankastjórninni. Mjer virðist það hafa verið fáviska, að kippa gæslustjórunum burt án þess að setja í staðinn fyrir þá nokkurn sjerstakan fulltrúa þingsins. Og ýmsar þær umræður, sem háðar hafa verið á seinni árum á Alþingi um fjármálin, hafa farið miður en skyldi, vegna þessarar vöntunar á fulltrúa þingsins hjá þeirri peningastofnun, sem landið á og rekur.

Það er þegar búið að dragast alt of lengi að gera Landsbankann formlega að seðlabanka. En þó verður að líta svo á, að hann sje samt seðlabanki nú þegar, jafnvel áður en lögin um bankann sem seðlabanka verða afgreidd frá þinginu. Hann hefir toppseðlana, og því fylgir sú skylda að annast seðlabankakvaðir. Sá galli fylgir að vísu þessari seðlabankastarfsemi Landsbankans, að sem stendur er fjrh. nokkurskonar fulltrúi þingsins gagnvart bankanum. Þetta á þó ekki að koma að sök, af þeirri ástæðu, að vald fjrh. er miklu fremur neitunarvald en skipunar. Jeg hygg, að fjrh. geti ekki skipað bankastjórninni að gera neitt, sem henni sjálfri þykir ekki ráðlegt. En það, hversu óviðfeldið þetta fyrirkomulag er, kemur ekki hvað síst fram nú í umræðum um þessa lánsábyrgð, sem jeg veit, að hefði verið talað öðruvísi um, ef hjer væri bankaráð, er fulltrúa hefði frá öllum flokkum.

Jeg hefi einnig — eins og aðrir hv. þm. — fengið upplýsingar um hámark lánsheimildarinnar og kjör lánsins. Hámarkið er fastmælum bundið, og þarf enginn að óttast, að fram úr því verði farið, þó að fjárhæðin sje ekki tiltekin í frv. Og jeg get heldur ekki sjeð, að það sje í sjálfu sjer nokkuð að óttast, þótt þetta hámark lánsheimildarinnar sje töluvert hærra en Landsbankinn telur sjer nauðsynlegt sem stendur. Neitanir á lánsbeiðnum á seðlabankinn ekki að byggja fyrst og fremst á þessu, sem heyrist oft manna á milli, þegar einn er að „slá“ annan: Æ, góði, jeg er alveg „blankur“ og get ómögulega lánað þjer. Það er ekkert hættulegt, heldur sjálfsagt, að almenningur viti, að seðlabankastjórnin hafi ráð, ef hún telur lánbeiðendur hafa nægilegar tryggingar og atvinnureksturinn í samræmi við sína útlánspólitík.

Af þessari ástæðu er mjer lítt skiljanlegt, hvernig á því stendur, að það er verið að fela fjárhæðina í frv. Launungin gerir ekki nema ógagn í þessu sambandi. Hún elur á æsingi kringum málið, bæði á þingi og eins í þeim umræðum, sem fara fram um það á eftir. Auk þess er hún tæplega framkvæmanleg. Einn hv. þm. hjer í deild hefir nýlega spurt, hvort rjettar væru þær upplýsingar, sem hann hafði einhversstaðar fengið um lánið, og tilnefndi bæði fjárhæð og lánskjör. Í Morgunblaðinu í morgun stendur, að nú hafi þessi þingmaður kjaftað frá. Í þessu efni finst mjer að vísu vafasamt, hvor það er, sem kjaftar frá, sá sem spyr, eða hinn, sem segir, að rjett sje spurt. Það má náttúrlega deila um það. En jeg býst við, að hæstv. forsrh. hafi haft þetta í huga, þegar hann gaf ekkert svar af neinu tægi. En huliðshjálmurinn, sem á að bregða yfir þessa fjárhæð um stundarsakir, hann á ekki við. Það er yfirleitt ekki vert að viðhafa launung á málum þess opinbera, nema brýn nauðsyn heimti, og slíkt held jeg, að komi mjög sjaldan fyrir, og aldrei nema um mjög stuttan tíma. Í þessu efni mun það að minsta kosti ekki leyna sjer, hvað bankinn notar mikið af þessari lánsheimild, því að það mun koma fram í reikningum bankans ársfjórðungslega.

Jeg fyrir mitt leyti hefi engu lofað um þögn. En vegna þeirra tilmæla, sem fram hafa komið og okkur þm. eru kunnug, þá mun jeg ekki segja frá neinu sjerstöku í þessu sambandi fyr en að því kemur, að jeg þurfi að gera kjósendum mínum grein fyrir því, hvernig jeg hafi farið með þeirra umboð í þessu efni og öðrum. En þá mun jeg ekki telja mig bundinn, enda hafa tilmælin um þögn ekki verið bundin tímatakmarki; og eilíf hefir þögnin aldrei átt að verða.

Jeg nefndi áðan — sem þó vart þarf að taka fram — að svona lán snerta gjaldeyrisverslunina. Hitt er líka auðvitað, að öll mál, sem snerta gjaldeyrisverslunina, eru í sjálfu sjer gengismál að vissu leyti. En þótt eitthvað snerti gengið, er ekki þar með sagt, að skylt sje að skiftast í þeim efnum í flokka á sama hátt og með tilliti til hækkunar og festingar. Umráðin yfir erlendum gjaldeyri eru jafnnauðsynleg okkar þjóðbanka, hvort sem þingið tekur ákvörðun um að hækka eða festa, hvort heldur í núverandi gengi eða því gengi, sem verður talið raunverulegt að afstaðinni rannsókn. Og eins og nú stendur á, þá verður ekki fyrir þessum erlenda gjaldeyri sjeð nema með lánum.

Hæstv. ráðh. hefir nú heitið því í umr. um þetta mál, að þetta lán skuli á engan hátt verða notað til þess að hækka krónuna. Þess var farið á leit við hann. En jeg fyrir mitt leyti vil nú telja, að þess hefði tæplega þurft, nje neinnar yfirlýsingar, því að það mun enginn hækkunarmaður af þeim, sem nokkru ráða, vera svo blindur að halda, að hægt sje að nota slík viðskiftalán, sem tekin eru af nauðsyn — og vitanlega streyma nokkurn veginn jöfnum höndum inn og út — til gengishækkunar. Það þarf sæmilega velmegun atvinnuveganna til hækkunar, eins og hæstv. ráðh. hefir sagt, enda væri ekki neina velmegun að eyðileggja með hækkun, ef enga væri um að ræða. Eins er það, ef festing á að vera örugg, þá þarf líka sæmilega velmegun þjóðarinnar til þess að örugt sje að framkvæma hana.

Þó að þessar tvær stefnur sjeu fjarskyldar, hækkunarstefnan og festingarstefnan, þá eiga þær samt einn sameiginlegan óvin, en það er stöðvun á gjaldeyrisverslun seðlabankans. Jeg fyrir mitt leyti mun ekki taka neinn þátt í ráðstöfunum, sem gætu orðið til þess að stöðva gjaldeyrisverslun okkar íslenska seðlabanka. Ef stöðvun verður á yfirfærslu, þá verður höfuðfjandi festingarinnar í almætti sínu; en sá höfuðfjandi er einveldi framboðs og eftirspurnar. Hæstv. forsrh. hefir nú þráfaldlega lagt áherslu á, að það sje einmitt þessi regla, sem eigi að ráða. En eins og kunnugt er, höldum við festingarmenn því fram, að þessi regla eigi engu að ráða og þurfi engu að ráða, nema þrot verði gersamlega á lánstrausti og erlendu fjármagni. Að stöðva gjaldeyrisverslun ríkisbankans er sama og að sleppa stýrinu og láta krónuna „kúvenda“ án þess að nokkur hafi stjórn á. Þegar myndast „maximum“ í framboði íslenskrar krónu, en „minimum“ í eftirspurn, á það ekkert skylt við stefnur það er ofviðri, sem ekkert á skylt við stefnur — heldur stjórnleysi. Verði hrun á gengi af þeim ástæðum, þá fá engar þjóðhagslegar ástæður að ráða, heldur er það gengisbraskið, sem ræður öllu.

Höfuðáhersluna verð jeg að leggja á það, að ef einhverjar breytingar verða á núverandi gengi, þá verða þær að vera af ásettu ráði gerðar og með föstum tökum.

Hæstv. forsrh. gat um það við 2. umr. þessa máls, að ein mesta ógæfa, sem gæti hent þessa þjóð á sviði fjármálanna, væri, ef krónan lækkaði frá því gengi, sem staðið hefir nú 11/2 ár, eða vel það. Jeg get tekið undir þetta að því leyti, að það væri mesta ógæfa fyrir þjóðina, ef krónan hryndi niður án þess að það væri ákveðin ráðstöfun á bak við, sem bygðist á ítarlegri rannsókn. Aftur á móti ef gengið væri fært til samræmis við það, sem álitið væri eftir rannsókn hinna bestu manna að væri sannvirði krónunnar, þá teldi jeg það ekki tjón, heldur eina af þeim bestu ráðstöfunum, sem hægt er að gera á fjármálasviðinu. Það á ekki skylt nema að nafninu, að gengið færist til. Ef það færist gagnstætt kaupmáttarjafngengi, þá er það til tjóns, en færist það í áttina til þess, er það til gæfu.

Það, hver kann að vera orsök þess, að þörfin fyrir lán hefir skapast, og veldur því, að sótt er um þessa ábyrgð ríkissjóðsins, hefir ekki áhrif á mína afstöðu til þessa máls. Orsökin getur verið ein eða önnur. Ástandið verður að taka eins og það er og byggja allar ráðstafanir á því. Þó blandast mjer ekki hugur um, að gengisbreytingar 1924 og 1925 eiga höfuðsökina á því, að svo er komið fyrir okkur sem nú er.

Hæstv. forsrh. játaði það fúslega, — enda mun því enginn neita — að 20% verðlækkun á heimsmarkaðinum á íslenskum saltfiski hafi haft slæm áhrif og valdið kreppu. En jeg vildi um leið óska þess af hæstv. ráðh., að hann sýni þá sanngirni að játa hitt einnig, að 20% verðhækkun á gjaldeyrinum, þegar hún verður á milli tilkostnaðar og afrakstrar, hafi nákvæmlega þau sömu áhrif og breyting á heimsmarkaðsverði. Og það var einmitt svo haustið 1925, að sú gífurlega gengishækkun hafði orðið fyrir mörgum á þessu tímabili. Þessari gengisbreytingu fylgdi sú versnandi aðstaða fyrir atvinnureksturinn, sem gerir vart við sig í langan tíma eftir að gengishækkunin hefir átt sjer stað, og hún er litlu betri en breyting á heimsmarkaðsverði.

Gengisbreytingin er vitanlega ein af höfuðorsökunum til þess ástands, sem ríkir. En hverjar svo sem orsakir eru, þá er ástandið eins og það er, og með tilliti til þess þarf að taka ákvörðun um lántöku og ríkisábyrgð. Ákvörðun um endanlega verðfestingu ísl. peninga verður aldrei tekin í sambandi við mál eins og þetta. Þá ákvörðun tekur þingið eftir nokkra daga, þegar frv. um það efni verður til umræðu; en verði það tækifæri ekki notað, þá er það þjóðin, sem fær tækifærið við næstu kosningar að taka ákvörðun um málið. Jeg geri ráð fyrir, að gengið, sem nú er, haldist óbreytt þangað til gengismálið kemur til umræðu í þinginu og atkvæða; jeg geri einnig ráð fyrir, að það haldist óbreytt til kosninganna. Og jafnvel þó að festingarmenn biðu ósigur við næstu kosningar, þá skal jeg ekki taka fyrir, að gengið gæti staðið óbreytt til næstu kosninga þar á eftir. En þó er skylt að neyta hvers möguleika, sem upp í hendur kann að berast.

Jeg mun nú greiða atkv. með frv. því, sem fyrir liggur. Það er komið fram fyrir tilstilli og ósk Landsbankastjórnarinnar. Sú ósk byggist á þörf atvinnuveganna. Og að mínu áliti er bankastjórnin einráð um það, hvernig peningunum er varið. Að minsta kosti hefir hún frumkvæði að því; hæstv. ráðh. hefir aðeins neitunarvald, svo að bankastjórnin ber á allan hátt ábyrgð á, hvernig láninu er ráðstafað. Og í trausti þess, að hún muni ekki nota heimildina, þótt stór sje, meira en nauðsyn og velferð þjóðarinnar heimtar, þá greiði jeg atkv. með frv.