09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Umræður um þetta mál hafa nú orðið alllangar, og vil jeg gera mitt til þess, að málinu geti orðið lokið á þessum fundi, svo að það glepji ekki fyrir nefndarstörfum.

Þó verð jeg að minnast á ýms atriði, sem komu fram í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), þar sem hann varð þess valdandi, að málið tók heilan dag við 2. umr. Vil jeg taka það fram hjer þegar, að á því átti jeg enga sök. Það var einhver hv. þm., sem átti hlut að því, að málið var ekki tekið fyrir fyrri hluta dags, vegna þess að einhver hv. þm. hafði hugsað sjer að halda langa þingræðu, og honum fanst, að ekki hæfði að klippa hana sundur, þannig, að fundarfrestun hefði orðið áður en hann gæti lokið henni. Þó mundi ræðu hans hafa verið lokið fyrir kl. 4, ef hv. þdm. hefðu eingöngu talað um það mál, sem hjer liggur fyrir. En með málalengingum hans, sem fóru út um alla heima og geima, hlýtur hv. þm. að bera ábyrgð á þeim tíma, sem til þess fer, að aðrir verða að mótmæla honum.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) þarf jeg ekki að svara. Hann blandaði inn í málið einhverri atkvgr. frá árinu 1925 í gengisnefnd (MT: Það var annar þingmaður.) og sagði, að jeg hefði ekki mótmælt því, sem þar um stendur í Alþt. En þá vil jeg taka fram, að jeg viðurkenni ekki sem neitt sönnunargagn gegn mjer, þótt mjer hafi einhverntíma láðst að mótmæla einhverju því, sem stendur í einhverri ræðu eftir einhvern hv. þm. í Alþt. Það er ekki hægt að tryggja sjer það, að þar sje svo frá ræðum gengið, er ekki koma fram fyr en löngu eftir fundi í þingdeildum, að ekki verði einhverju ósvarað í ræðum ýmsra þingmanna, sem maður hefir ekki tíma til að lesa.

Hv. þm. Str. mintist á hinn mæta mann, sem hjer var borinn til grafar í gær, og sagði, að hann hefði altaf greitt atkvæði í gengisnefndinni í samræmi við skoðanir sinna umbjóðenda, sem sje stjórnarinnar. Út af þessu verð jeg að segja það, að hann sem fulltrúi stjórnarinnar í gengisnefndinni talaði oft við stjórnina um þau atriði, sem fyrir lágu í gengisnefndinni í hvert skifti. Og jeg skal líka taka það fram, að jeg spurði hann altaf fyrst um hans álit í hvert skifti, til þess að vita, hvort mín skoðun í málinu væri í samræmi við hans skoðun og hvað hann hefði hugsað sjer, að ætti að gera. Það verð jeg að segja, að skoðanir okkar í gengismálinu fóru altaf saman. Á þetta hefði jeg þó ekki minst, ef ekki lægi í aðbeining hv. þm. Str. aðdróttun um það, að þessi nýlátni merkismaður hefði greitt atkv. í gengisnefndinni þvert ofan í skoðun sína. Jeg slæ því hjer með föstu, að stjórnin fór aldrei fram á það við þennan mann, að hann greiddi atkvæði öðruvísi en samviska hans sjálfs bauð honum — enda mundi hann ekki hafa gert það.

Hv. 1. þm. Árn. sagði, að jeg væri fjandsamlegur Íslandsbanka með því, að jeg vildi endilega fá nýjan banka inn í landið. Hv. þm. Str. sagðist ekki trúa mjer fyrir þessu láni, vegna þess að jeg sem forsætisráðherra væri formaður stjórnar Íslandsbanka, og mundi honum því hlutdrægur.

Jeg læt nú þá samherjana, hv. þm. Str. og hv. 1. þm. Árn., um það að rífast um þetta sín á milli.

Hv. 1. þm. N.-M. þarf jeg ekki að svara öðru en því, að mjer finst skjóta undarlega skökku við um skoðanir hans og hv. þm. Str. um afleiðingar gengishækkunarinnar. Hv. þm. Str. kennir gengishækkuninni um það, hvað verð á íslensku saltkjöti hafi lækkað í Noregi að undanförnu. En hv. 1. þm. N.-M. álítur, að gengishækkunin hafi í Noregi haft þveröfug áhrif. Jeg ætla að láta þessum flokksbræðrum eftir að bera saman þessar andstæðu skoðanir sínar og komast að einhverri niðurstöðu um þær.

Vegna þess, að hv. þm. Str. hefir nú talað tvisvar, skal jeg svara honum miklu minna en efni eru til. Jeg ætla ekki að fara út í hugleiðingar hans um laust og fast lán. Það, sem um það hefir verið talað hjer í þinginu, er svo skýrt, að enginn maður ætti að villast um það. En jeg vil grípa þetta tækifæri til þess að láta í ljós ánægju mína um það, að einn Framsóknarmaður, háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), hefir sýnt fram á það, að „Framsókn“ á innan sinna vjebanda mann, sem hefir kjark og vit til þess að vera forystumaður á þessu sviði.

Enda þótt jeg sje búinn að hnekkja ummælum hv. þm. Str. um ráðstafanir stjórnarinnar í gengismálinu árið 1925, þá verð jeg samt að svara honum nokkrum orðum. Vil jeg þá fyrst undirstrika, að hann hefir staðfest það, sem jeg hefi sagt, að stjórnin hefir engar ráðstafanir gert til hækkunar krónunnar. En á hinn bóginn hefir hún ekki gengið eins langt og hv. þm. Str. hefði viljað til þess að hindra hækkun krónunnar. En það, sem hv. þm. Str. misskilur í þessu máli, er það, að munur er á því, hvort ráðstafanir eru ekki gerðar til þess að hindra, að eitthvað komist í framkvæmd, eða menn eiga frumkvæði að því, að það komist í framkvæmd.

Þá sagði hv. þm. Str., að jeg hefði neitað Íslandsbanka um stuðning til þess að halda gengi sterlingspunds í 26 krónum. Jafnvel þótt þetta væri satt, þá væri sú ráðstöfun ekki til þess að hækka gengið, heldur neitun á ráðstöfun til þess að hindra hækkun gengisins. En þetta er alveg ósatt. Jeg skal lýsa yfir því, að Íslandsbanki hefir aldrei farið fram á seðlaútgáfu sjer til handa í því skyni að kaupa sterlingspund fyrir ákveðið verð. En hitt er satt, að það var orðað við mig af manni, sem ekki er í stjórn Íslandsbanka, hvort jeg vildi gera ráðstafanir til þess að verðfesta sterlingspundið. En jeg vildi það ekki.

Um það himindjúp, sem er á milli skoðana okkar hv. þm. Str. um fjárskiftingu milli sveita og bæja, þá er það djúp aðeins í höfði hv. þm. Str., því að hann álítur, sem jeg geri ekki, að landbúnaðurinn sje gjafaþurfi. Jeg verð að segja það, að jeg trúi á landbúnaðinn og jeg treysti því, að hann taki framförum, enda þótt hann verði að greiða fulla vexti af lánsfje því, er hann fær.

Um till. hv. þm. Str. þarf jeg ekki að ræða. Hann hefir ekki skýrt hana svo vel. En verði hún samþ., þá efast jeg um, að hún verði skilin svo, að framkvæmanleg sje sú greining á fje Landsbankans, sem þar er farið fram á. En um þetta atriði talaði háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) svo ljóst, að jeg þarf engu þar við að bæta. Þó er jeg honum ekki sammála um það, er hann sagði um gengismálið og að því sje um að kenna, hvernig fór um brtt. hans 1925, hvernig nú er ástatt. Það er verðfall afurðanna, sem skapað hefir hinn óhagstæða greiðslujöfnuð árið 1926. Það er býsna mikill munur á því, hvort okkar afurðir falla í verði um 20%, en útlenda varan helst í óbreyttu verði, eða að peningar okkar hækka um 20% , því að þá lækka útfluttar og innfluttar vörur jöfnum höndum í verði. Það hefir mikið að segja og er sitt hvað, hvort okkar vörur lækka í verði um 20% eða gjaldeyrir okkar fellur um 20%.