09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Magnús Torfason:

Jeg ætla alls ekki að biðja afsökunar á því, þótt jeg hafi lagt orð í belg um málið, því að jeg vissi ekki, að því myndi liggja svo mikið á, að ekki mætti fara þinglega með það.

Hæstv. fjrh. (JÞ) þóttist finna einhverja mótsögn í því, er við hv. þm. Str. (TrÞ) mintumst á í sambandi við hann og Íslandsbanka. Þess er þá fyrst að geta, að jeg hefi aldrei haldið því fram, að hæstv. forsrh. væri óvinur Íslandsbanka af ásettu ráði. Jeg býst við, að hann hafi breytt svona gegn bankanum af hreinni og beinni einfeldni.

Hæstv. fjrh. ljet í veðri vaka, að Íslandsbanki hafi verið því samþykkur, að stofnaður væri hjer nýr banki.

Já, jeg segi þá ekki annað en: Guð hjálpi stjórn Íslandsbanka og gefi henni að vaxa að náð og visku!

Það vita margir, að nýr banki yrði Íslandsbanka hættulegur keppinautur. Nýr banki með nóg fje og laus við gamlar skuldir getur lánað út fje með lægri vöxtum en Íslandsbanki og með því móti tekið frá honum bestu viðskiftavinina. Í öðru lagi er það víst, að nýr banki hjer mundi taka mikið af innlánsfje Íslandsbanka, sem nú er upplýst, að hefir minkað mikið þessi síðustu ár, og hefði þó orðið enn meira, ef nýr banki hefði komið hjer. Það fara ekki allir með sparisjóðsfje sitt í Landsbankann hans vegna, heldur vegna hins, að það er ekki í annan tryggari stað að venda.

Hæstv. forsrh. sagði, að landbúnaðurinn ætti ekki viðreisnar von nema því aðeins, að hann fái gjafir, og þá líklega frá útgerðinni. Þetta kalla jeg dálítið grálega mælt og öðruvísi en hæstv. ráðh. talaði á Skeiðunum. (PO: Hann sagði, að þm. Str. (TrÞ) hefði sagt þetta). Já, gerði honum upp orðin. Við fulltrúar landbúnaðarins höfum ekki slíka skoðun sem þessa. Við álítum, að landbúnaðurinn gæti heimtað og eigi skilið að fá bætur fyrir þann skaða, sem honum er gerður með þúsunda- og miljónatapi útgerðarinnar og ber nú þungann af. Það er framlag, en ekki gjöf, er sá, sem fyrir skaða verður, fær bætur frá þeim, sem skaðanum olli.