18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg vil aðeins leiðrjetta eitt atriði í ræðu hv. 1. landsk. (JJ). Hann ásakaði stjórnina fyrir laumuspil í þessu máli, af því að lánsupphæðin hefði hvergi verið tekin fram. Út af þessum ummælum háttv. þm. (JJ) vil jeg geta þess, að nefndin spurði bankastjórn Landsbankans, hvort ekki mætti setja lánsupphæðina í frumvarpið, en hún var alveg á móti því. Jafnframt tók bankastjórnin það fram, að hún hefði átt upptökin að því, að farið var að leitast fyrir að fá þetta lán, og ætti því sjálf sök á því, ef um sök væri að ræða. Þessi „hula“, sem jeg nefndi í gær, átti meðal annars við það, hve mjög öll starfsemi bankanna er hulin fyrir þingmönnum og jafnvel stjórninni líka.