21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

3. mál, landsreikningar 1926

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skal geta þess, að auðvitað er bygt á reikningum verslunarinnar fyrir árið 1926; um aðrar tölur gat ekki verið að ræða. Jafnframt skal þess getið, að unnið hefir verið að framkvæmd þál. frá síðasta þingi og — mjer er óhætt að segja það — í fullkomnu samráði og samstarfi við fyrverandi landsstjórn. Þótt svo sje tekið til orða í þál., að reikninga verslunarinnar skuli gera upp þegar í stað, þá er auðsjáanlega ekki ætlast til, að því sje fylgt bókstaflega. Þá væri einungis um tvent að gera, annaðhvort að gefa upp meira eða minna af skuldum, eða lögsækja menn hlífðarlaust og jafnvel gera fleiri eða færri gjaldþrota. Þess vegna hefir verið farin sú leið, sem sjálfsögð er, að ganga svo ríkt eftir skuldum sem fært þótti, því þó að viðskiftunum verði ekki lokið á einu ári, þá er — hyggilegra að fara að með lempni og gætni.

Annars held jeg, að þeir hv. þm., sem þál. báru fram, hafi ekki gert sjer ljóst, að um jafnstór viðskifti væri að ræða og raun varð á. Viðskifti landsverslunar frá byrjun voru orðin um 100 milj. kr. En allar útistandandi skuldir, bæði fyrra og seinna tímabils, námu ekki meiru en 1 milj. kr., eða um 1% af viðskiftaveltunni. Jeg hugsa, að ekki sje hægt að benda á neitt hliðstætt dæmi. t. d. ekki bankana, og er þar þó engin upphæð látin af hendi nema fullkomin trygging eigi að koma á móti. En við verslun er ekki til þess ætlast, að heimtað sje veð fyrir því, sem lánað er út.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta, en aldrei mun jeg þurfa að bera kinnroða fyrir starf mitt við landsverslun. Jeg á frekar lof en last skilið fyrir það, þótt þakkirnar hafi hingað til verið mjög litlar. Þegar öllu er á botninn hvolft, mun verslunin hafa komist betur út úr viðskiftum sínum en nokkur önnur stofnun hjer á landi.

Málið er nægjanlega skýrt með þeim upplýsingum, sem fram hafa komið. Það verður haldið áfram að innheimta útistandandi skuldir á sama hátt og áður. Og jeg er sannfærður um, að hvorki háttv. 1. þm. Reykv. nje nokkur annar leggur til að fara að ganga hranalega eftir þeim skuldum, sem eftir eru, því þær eru litlar í samanburði við viðskiftin. Jeg geri ráð fyrir, að af þeirri upphæð, sem útistandandi er, muni tiltölulega mjög mikið nást inn. Og er allir reikningar verða gerðir upp, býst jeg við, að allir geti látið í ljós ánægju sína yfir því, hvernig þessu fyrirtæki hefir farnast. Þegar jeg kom að versluninni fyrir 10 árum, hafði öll reikningsfærsla verið í höndum stjórnarinnar sjálfrar. Þá var tiltölulega meira útistandandi heldur en nú. Þá hafði ríkið lagt 10 milj. kr. til rekstrarins. Það var skuld fyrirtækisins þá. Nú hefir verslunin greitt ríkissjóði hvern einasta eyri af því, sem hann hefir lagt í fyrirtækið. Hún hefir greitt 6% vöxtu árlega af öllu því fje. Ríkissjóður hefir fengið fullkomlega það, sem honum bar. Reikningslega á verslunin varasjóð, þótt mikið hafi verið notað af honum til að greiða með kolatap á sínum tíma. Þegar kolaverkfallið stóð yfir, var heimtað, að verslunin birgði landið upp að kolum. Varð þá að kaupa þau dýru verði hvar sem var, og varð á því tap mikið. Gekk þá varasjóður verslunarinnar mjög til þurðar. En sá varasjóður, sem verslunin á nú reikningslega, er að mestu bundinn í rekstrinum og er því ekki strax handbær, þótt verslunin sje lögð niður. En jeg geri mjer vonir um, að mikir af honum muni nást, ef skynsamlega er að farið. Og þess vænti jeg, að hvert það þing, sem getur kynt sjer niðurstöðu þessara mála, geti látið í ljós ánægju sína yfir útkomunni.