21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

3. mál, landsreikningar 1926

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það var ekki ætlun mín eða nefndarinnar að hefja hjer nokkrar eldhúsdagsumræður, enda get jeg ekki talið, að orð mín fjellu þannig, að ástæða væri að ætla slíkt. Nefndin vildi aðeins benda á, að það skifti ekki alllitlu máli, hvernig meðferð stj. er á fjárlögunum.

Það hefir löngum verið sagt, að Alþingi sje eyðslusamt, og skal jeg ekki um þá umsögn fást; meðal annars hefir þetta verið fært sem ástæða fyrir því, að rjett væri að fækka þingum. En þeir, sem á móti hafa staðið fækkun þinga, hafa hinsvegar sagt, að óvíst væri, að fjárreiðurnar væru öllu betur komnar í höndum stjórnanna en í höndum þingsins. Og jeg hygg þessar athugasemdir mínar leiði nokkur rök að því.

Með því að þessir reikningar, sem hjer liggja fyrir, eru frá tíð fyrverandi stj., var það ekki nema eðlilegt, að hv. 1. þm. Skagf. yrði til þess að svara nokkru til þeirra aths., sem nefndin bar fram, og upplýsa það, sem um var spurt. Jeg ætla mjer ekki — eins og jeg tók fram í upphafi — að gera þessar umr. frá minni hálfu að neinum eldhúsdagsumræðum, og því mun jeg svara fáu einu þeim aths., sem fram hafa komið frá hv. 1. þm. Skagf., enda vill svo til, að þessi atriði hafa verið gerð að umtalsefni af öðrum hv. þm.

Viðvíkjandi greiðslu til sendiherrans fyrir ráðunautsstarf sagði hv. þm., að sig minti, að það ráðunautsstarf hafi verið launað á tímabilinu frá því sveinn Björnsson ljet af sendiherraembættinu og þar til hann tók við því aftur. Jeg skal ekki þræta um þetta, en leyfi mjer aðeins að benda á það, að þetta er ekkert spánnýtt, því að við reikningana 1925 gerðu endurskoðendur samskonar aths., og þá var þessi greiðsla ekki 1500 kr., heldur 3000 kr. Þetta má sjá í 16. aths. endurskoðenda frá 1925. Það má vera, að sú aths. hafi orðið til þess, að greiðsla var lækkuð um helming.

Það stendur óbreytt, sem jeg sagði áðan, að þar sem um mann er að ræða, sem hefir full laun frá ríkinu, sje jeg ekki, að ástæða sje til að greiða honum sjerstaklega fyrir aukastörf, sem unnin eru í þágu ríkisins og náskyld embætti hans. Það hefði verið sýnu nær að bjóða honum að leggja niður embættið, ef hann hefði ekki viljað vinna það, sem fyrir hann var lagt.

Um þær 2500 kr., sem varið hefir verið til húsabóta á Horni í Skorradal, ætla jeg ekki að tala frekar en orðið er.

Viðvíkjandi greiðslu til sendiherra til húsakaupa sagði hv. þm., að það hefði verið borið undir þingið. Jeg skal ekkert um það segja, en jeg vil benda hv. þm. á, að ef það hefði verið borið undir þingið, mundi það hafa komið fram á sjerstökum lið í fjárl., en ekki verið tekið undir þennan lið, óviss útgjöld. Að það hafi verið borið undir þingið í einhverri annari merkingu, hefir enga þýðingu í þessu sambandi.

Um greiðslu til kostnaðar við landsfund kvenna á Akureyri árið 1926 sagði hv. þm., að sig minti, að það hefði verið borið undir þingið. Já, það var gert á þann hátt, sem jeg hefi áður sagt, að tvisvar sinnum komu fram ákveðnar tillögur um að veita fjeð, og tvisvar sinnum var það felt. Þó það væri borið fram 1926 við fjárlögin fyrir 1927 til útgjalda á sama ári, þá var það svo orðað í tillögunni, að fjeð væri veitt til kostnaðar við landsfund kvenna árið 1926.

Um liðina, sem endurskoðendur vildu vísa til sjerstakra aðgerða Alþingis, fór hv. þm. nokkrum orðum, en mjer var ekki ljóst, hvort hann beindi þeim orðum til nefndarinnar eða endurskoðenda. Nefndin ber að engu leyti fram frekari kröfur en endurskoðendur höfðu gert. Þvert á móti gat hún ekki fallist á, að ástæða væri til sjerstakra aðgerða Alþingis, eins og endurskoðendur höfðu lagt til. Þar sem þessi atriði hafa verið rædd allmikið af öðrum hv. dm., skal jeg ekki eyða tímanum í að fara frekar út í þau.

Hv. 1. þm. Reykv. bar fram þá fyrirspurn til nefndarinnar, hvort hún hefði haft með höndum fullgerða reikninga ríkisverslunarinnar eins og þeir voru í árslok 1927. Þessu þarf jeg ekki að svara, því að hæstv. fjmrh. hefir þegar gert það og sagt, að svo hefði ekki verið. Jeg get vísað til þess, sem jeg hefi sagt áður, að það, sem endurskoðendur byggja á nú, er sama skýrslan, sem lá fyrir þegar þál. var samþykt á þinginu í fyrra. Hæstv. fjmrh. hefir svarað þessu að öðru leyti, svo að jeg þarf ekki frekar um það að ræða. Mjer skilst, að hæstv. fjmrh. hafi í sínum aðgerðum út af þál. verið í samráði við fyrverandi stjórn, og veit jeg ekki, hvort hv. þm. (MJ) hefir nokkuð að átelja um þetta. Það er ekkert um sagt í þál. í fyrra, að það eigi að innheimta útistandandi skuldir landsverslunarinnar gömlu tafarlaust, enda mundi það vera jafnóhyggilegt fyrir ríkið og aðra skuldheimtumenn. Með því að gefa gjaldfrest er meiri von um greiðslu.

Hv. þm. Vestm. upplýsti, að sektir til landhelgisjóðs fyrir þessa 4 togara hefðu ekki verið 50 þús. kr., eins og jeg sagði, heldur nær 60 þús. kr. Um þetta skal jeg ekki deila. Jeg hafði fyrir mjer það, sem fram var komið í umræðunum áður. Jeg hygg, að hv. þm. muni, að 50 þúsund krónur voru nefndar hjer í deildinni við umr. á eldhúsdegi, og engar aths. við það gerðar þá, en í svörum hæstv. stj. við athugasemdum endurskoðendanna er upphæðin ekki nefnd, heldur er aðeins sagt, að hún muni nema meiru en tvöföldum skaðabótunum til Vestmannaeyja.