21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

3. mál, landsreikningar 1926

Jóhann Jósefsson:

* Hv. þm. Ísaf. reyndi enn að vjefengja rjettmæti þess, að Vestmannaeyingum hafi verið greiddar bætur fyrir þessi veiðarfæraspjöll og fanst óþarfi fyrir mig að rifja upp það mál. Jeg sje ekkert á móti því, þar sem slíkur maður og hv. þm. Ísaf. vjefengir rjettmæti þeirrar kröfu og heimild stj. til þess að inna hana af hendi.

Þá beindi hv. þm. þeirri spurningu til mín, hvaða sannanir væru fyrir hendi um, að veiðarfæraspjöll þessi hefðu orðið af völdum togaranna í fjarveru „Þórs“. Jeg skal nú með fáum orðum upplýsa hv. deild um þetta mál.

Um nokkurra ára skeið hafa eyjarskeggjar lagt undir sig hafið kringum eyjarnar og stundað þar veiðar á bátum sínum utan landhelgi, með hjálp gæsluskipsins „Þórs“. Nú er það kunnugt, að í apríl 1926 — frá 19. til 21. apríl — urðu tugir báta alt í einu fyrir svo stórfeldu tjóni á tveim nóttum, að slíks eru ekki dæmi. Það er ennfremur vitað, að kringum þetta netasvæði sveimar mikill fjöldi togara á vertíðinni, svo að erfitt er að halda þeim frá netasvæðinu, enda þótt gæsluskipið sje altaf við. Loks er það sannað af skýrslum, að á þessum sama tíma fór „Þór“ frá gæslu og tók 4 togara meðfram söndum, við Portland og Hjörleifshöfða, sem voru þar að veiðum í landhelgi. Getur hv. þm. látið sjer koma það til hugar, að nokkur sjómaður geri sjer það að leik að koma afla- og veiðarfæralaus í land, þegar mest aflast? Nú þegar tekið er tillit til þessa, sem nú er um getið, svo og þess, að hver formaður hefir gefið skýrslu eftir bestu vitund um tjón sitt, sem hv. þm. getur kynt sjer, þegar hann er að gagnrýna reikninga landhelgisjóðs, þá held jeg, að hjer sje um svo miklar líkur að ræða, að þær megi sannanir kallast. Að lokum vil jeg svo beina einni spurningu til hv. þm., ef tekið er tillit til alls þessa, sem jeg hefi fært fram, og honum þykja skýrslur sjómanna ónógar: Hvaða vitni ætlast hann þá til, að leiddi verði til þess að upplýsa málið?

*Ræðuhandr. óyfirlesið.