21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

3. mál, landsreikningar 1926

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Vestm. lagði fyrir mig þá spurningu, hvaða vitni jeg vildi leiða, ef jeg teldi skýrslur sjómanna ónógar sannanir. Jeg skal svara þeirri spurningu strax: Jeg þekki engin þau vitni, er sannað geti neitt í máli þessu, því að það er ekki hægt að sanna, hvort nokkuð eða hve mikið tjón hlautst af því að „Þór“ var ekki viðstaddur. Þetta má háttv. þm. vel vita og sætta sig við það. Jeg hefi sagt, að stj. hafi enga heimild haft til þess að greiða þetta fje, og hv. 1. þm. Skagf. hefir líka játað, að svo er. Þetta er eitt af því, sem stj. hefir gert á eigin ábyrgð, og það er það, sem jeg er að víta.

Þetta er nú í þriðja skiftið, að þessi saga er sögð, að Þór hafi verið austur með söndum og tekið togara þar í landhelgi. Þetta kemur í rauninni málinu ekkert við. Það er að vísu hægt að færa nokkrar líkur fyrir því, að Vestmannaeyingar hafi orðið fyrir tjóni af þeim orsökum, en það er því alveg óviðkomandi, — sem jeg sagði, að stj. hefði ekki haft neina heimild til þess að greiða þetta fje. Og jeg sje enga ástæðu til þess, að stj. vegna Vestmannaeyinga, jafnvel þótt þeir kunni að vera kjósendur háttv. þm. (JJós), taki fjárveitingavaldið í sínar hendur og greiði annað en lögboðin gjöld.

Hv. 1. þm. Skagf. vildi staðhæfa, að kostnaðurinn við berklavarnir væri alveg sundurliðaður, nema að því er snerti læknishjálp sjúklinga. Þetta er einmitt það, sem jeg er að víta. Í mörgum reikningum stendur aðeins legukostnaður og annar kostnaður sjúklings, svo og svo mikill.

Sami hv. þm. sagði einnig, að enginn hafi getað vitað það fyrirfram, að fráfall Jóns heitins Magnússonar bæri svo brátt að og að ráðherraskifti yrðu svo fljótt. Þetta er auðvitað alveg rjett, en jeg hefði álitið skynsamlegra, að stj. hefði látið gera við landsins eigið hús, því að þá var sú viðgerð eign ríkisins.

Viðvíkjandi aukatekjum skrifstofustjóra stjórnarráðsins sagði hv. þm., að skrifstofustjórarnir fengju þessar 1200 kr. fyrir vörslu kirkjujarðasjóðs og fiskiveiðasjóðs. Þessi upphæð mun vera fyrir vörslu annara smærri sjóða, en að auki hafa skrifstofustjórarnir þessa tvo sjóði og taka laun fyrir. Þar að auki hefir svo annar skrifstofustjórinn laun fyrir það að annast útgáfu stjórnartíðindanna, og allir hafa þeir verulegar upphæðir fyrir endurskoðun á reikningum ýmsra ríkissjóðsstofnana. Eins og sjáanlegt er, hljóta öll þessi aukastörf að draga mjög úr störfum þessara manna, en annars kæri jeg mig ekki um að fara að draga þessa menn inn í umr., en vildi aðeins benda á það, hve mikið er að því gert að hlaða aukastörfum á starfsmenn ríkisins; er það auðvitað mælt til fyrv. stj., en ber ekki að skoða sem árás á þessa starfsmenn.

Hv. 1. þm. Skagf. upplýsti það um ferð Þórs austur með söndum, að gerður hafi verið samningur við Björgunarfjelagið í Vestmannaeyjum um þessa ferð. Jeg hefi ekki fyr heyrt getið um þennan samning, en ef hann hefir verið gerður, hlýtur það að hafa verið eftir að ferðin hefir verið farin. Hv. þm. Vestm. hefir upplýst, að ferðin var farin og ráðin með svo miklum skyndingi, að óhugsandi er, að samningur hafi verið gerður áður.

Jeg þarf ekki að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin við fyrirspurn minni. Hann sagði aðeins, að mjer hefði verið innan handar að afla mjer upplýsinga um þetta, þar eð jeg hafi haft greiðan aðgang að því að kynna mjer tekjur ríkisins. Jeg geri ráð fyrir, að hann eigi þar með við störf mín í ríkisgjaldanefndinni. En henni var aðeins falið að athuga útgjöld ríkisins. Þetta atriði hafði nefndin enga aðstöðu til að kynna sjer öðrum fremur; hún hefir að vísu sjeð reikninga viðkomandi sýslumanns, en þeim fylgdi engin skýrsla um eftirgjafir þá. — Hæstv. fjmrh. sagði, að það gæti vel verið, að jeg gæti fengið upplýsingar um þetta með hans hjálp einhvern tíma síðar. Jeg get sannast að segja ekki verið honum neitt sjerlega þakklátur, því að jeg held, að jeg hafi fullan rjett á að vita þetta. Hitt veit jeg, að þessi eftirgjöf er ákaflega mikill hluti af öllum tekju- og eignarskatti í hjeraðinu á árinu, nærfelt 75%, ætla jeg.

Þá upplýsti hæstv. fjmrh., að það væri sín skoðun, að starfsmenn ríkisins eigi að fá laun sín goldin í gjaldeyri þess lands, þar sem þeir eru búsettir. Þetta kemur áreiðanlega í bága við gildandi lög, og er auk þess hreinasta fjarstæða, ef hann á við það, að sömu upphæð, sem fjárlögin ákveða í íslenskum krónum, skuli greiða að tölunni til í mynteiningu þess lands, sem starfsmaðurinn er búsettur í, t. d. með dönskum krónum í Danmörku, pundum í Englandi, frönkum í Frakklandi o. s. frv. Þetta nær auðvitað engri átt.

Skoðun ráðherrans getur vitanlega ekki breytt gildandi lögum. Þess vegna sje jeg enn enga ástæðu til að flytja brtt. um þetta efni. Sjerstök lög og fjárlögin ákveða konungsmötuna í íslenskum krónum, og ber því auðvitað að greiða hana, eins og önnur gjöld fjárlaganna, samkvæmt því.