21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

3. mál, landsreikningar 1926

Haraldur Guðmundsson:

Jeg get ekki orðið við beiðni hv. þm. (MG) um að gera þá brtt. við fjárlögin, að konungsmatan skuli greidd með ísl. krónum. Fjárlögin ákveða hana í ísl. krónum. Brtt. í þá átt, að ísl. krónur skuli greiddar með ísl. krónum, er kannske samboðin hv. 1. þm. Skagf. Mjer ekki.

Sem afsökun fyrir greiðslunni til bátaeigendanna í Vestmannaeyjum hefir það verið fært fram, að Vestmannaeyingar hafi átt skipið, en aðalatriðið í málinu er ekki það, heldur hvort stjórnin hafi haft heimild til að gera þetta eða ekki. Hún hafði það ekki, og því átti hún að leita heimildar hjá þinginu 1927. Vestmannaeyingar gátu vel beðið eftir því, að forsvarsmenn þeirra mæltu máli þeirra við þingið, og þá hefði alt farið fram lögum samkvæmt.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Skagf. sagði um ráðherrabústaðinn, þá er því til að svara, að aldrei var farið fram á það við þann mann, sem þá bjó þar, að hann ljeti húsið eftir. Þessi valinkunni maður, hv. þm. Dal., er svo konunghollur, að hann hefði áreiðanlega viljið mikið á sig leggja til þess að rýma fyrir hans hátign konunginum, og jeg veit, að stjórnin hefði ekki farið erindisleysu, ef hún hefði leitað til hans.

Hæstv. fjmrh. hefi jeg litlu að svara. En viðvíkjandi því, sem hann sagði um starf mitt í ríkisgjaldanefndinni, þá vil jeg benda hæstv. ráðh. á, að það er tekið fram í erindisbrjefum okkar, hvað við eigum að gera, sem er það að athuga útgjöld ríkissjóðs, og annað ekki. Þá sagði hæstv. ráðh., að vitaskuld þyrfti að greiða starfsmönnum ríkisins erlendis laun með tilliti til þess, hve dýrt væri að lifa þar í landi. En það er alt annað mál, og þá er engin ástæða til að greiða þessa upphæð í dönskum krónum, vegna þess að það er miklu ódýrara að lifa í Danmörku heldur en hjer.