02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg get glatt hv. þdm. með loforði um að vera stuttorður, því frekar sem mjög fáar brtt. eru við þann kafla frv., sem fallið hefir í minn hlut að tala um.

Eins og glöggt kom í ljós í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls, eru fjárhagsástæður ríkissjóðs og fjárhagsútlit alt annað en glæsilegt sem stendur. Yfirlit það, sem hann lagði fram, sýndi að vísu, að tekjurnar höfðu náð áætlun síðastliðið ár, og vel það. En útgjöldin hafa hinsvegar farið alllangt fram úr áætlun, svo að lausaskuld, allveruleg, myndaðist á árinu, eða um 600 þús. kr., eftir því sem skýrsla hans sýnir. Þessi niðurstaða er ískyggileg, enda ólík hví, sem verið hefir undanfarin ár. Reikningsútkoma 4 síðustu ára er þessi:

Árið 1924 var tekjuafgangur full 1½ milj. kr.; 1925 tekjuafgangur fullar 5 milj.; 1926 tekjuafgangur um 300 þús.; 1927 tekjuhalli um 600 þús. kr.

Greiðslur umfram áætlun eru þó langminstar síðasta árið. En af þessu yfirliti sjest, að fjárhagsniðurstaða tveggja síðari áranna er allólík tveggja hinna fyrri. Fróðlegt er að athuga jafnhliða tekjurnar þessi sömu ár. Þær urðu:

Árið 1924: 11,7 milj. kr., 1925: 16,8 milj., 1926: 13,1 milj., 1927: 10,9 milj. Hafa þær farið lækkandi síðan 1925 og eru stórum lægstar síðastl. ár. Stafar lækkunin bæði af kreppu atvinnuveganna síðustu árin og tollalækkun þeirri, sem gerð var á nokkrum vörum á þingi 1926, þ. e. lækkun vörutolls og verðtolls. Er skiljanlegt, að nokkur bjartsýni kom fram á því þingi, eftir hið mikla veltiár 1925, og mönnum fyndist sem óhætt væri að ljetta álögum af þjóðinni. En tekjurýrnun síðasta árs sýnir ljóslega, að ráðstöfun sú, sem gerð var á þingi 1926 um tollalækkunina, hefir verið mjög ógætileg og að nú verður að grípa til sjerstakra ráðstafana, ef hægt á að vera að halda fjárhag ríkisins í sæmilegu horfi framvegis. Eru þá tveir kostir fyrir hendi, að auka tekjurnar eða þrýsta niður útgjöldunum. Þetta síðarnefnda er ekki hægt að gera með öðru móti en því, svo að nokkru verulegu nemi, að takmarka fjárveitingar til verklegra framkvæmda, sem að vísu má telja fullkomið neyðarúrræði.

Nefndin, eða meiri hluti hennar, var ákveðið þeirrar skoðunar, að eins og horfurnar eru nú og jeg hefi hjer að nokkru lýst, hlyti það að vera fyrsta og brýnasta skylda hennar að stuðla að því, að frv. yrði ekki afgreitt með tekjuhalla. Því marki hefir hún náð, því að eftir till. hennar er kr. 37813,23 tekjuafgangur á frv. Og nefndin væntir þess, að hv. deild fallist á stefnu hennar og styðji hana.

Jeg vil geta þess, að nefndin var í raun og veru sammála um það, að nauðsynlegt væri að hækka til muna fjárveitingar til ýmsra liða 13. gr., brúagerða, símalína og vitabygginga, sem stjórnin hafði orðið að takmarka mjög í till. sínum sökum tekjuvöntunar. En eins og kemur fram í nál., varð ágreiningur um meðferð þessa atriðis. Áleit meiri hl. því aðeins fært að bera fram hækkunartill. við þessa liði, að þingið hnigi að því ráði að auka tekjurnar að einhverju leyti. Hversu brýn og aðkallandi sem þörfin er á því að halda áfram að byggja brýr, vita og nýjar símalínur um landið, þá yrði þó að setja hitt ofar, að gæta þess að stofna ekki til þessara verklegu frumkvæmda með aukningu á skuldum ríkissjóðs. Á síðasta ári safnaðist allveruleg skuld. Að vísu er ósjeð enn, hvernig útkoma yfirstandandi árs muni verða. En ef miðað er við afkomu síðastl. árs, með hliðsjón af áætluðum tekjum og gjöldum, er ekki varlegt að búast við betri útkomu fjárlaganna 1928 en 1927. En að stefna til enn frekari skuldaaukningar árið 1929 sýnist meiri hl. nefndarinnar fullkomið óvit. Frestar hann því öllum tillögum um fjárveitingar til aukinna samgöngubóta, þar til sjest, hvort tekjuaukafrv. ná fram að ganga í þinginu.

Brtt. hafa vitanlega komið fram frá ýmsum hv. þm., bæði til hækkunar og lækkunar útgjaldanna. Þær eru raunar ekki með meira móti. En þó er svo, að yrðu þær allar samþyktar, mundi það hafa þau áhrif, að frv. yrði skilað með 157 þús. kr. tekjuhalla. Er einsætt, að slíkt væri slæm niðurstaða, einkum þegar litið er á það, að margt af þessum brtt. er um fjárveitingar og styrki til einstakra manna.

Þá vil jeg snúa mjer að brtt. nefndarinnar. Get jeg þess fyrst, að hún hefir gert nokkrar breytingar við tekjubálkinn. Er útkoma þeirra sú, að tekjuáætlunin hækkar um 300 þús. kr. Háttv. deild furðar e. t. v. á þessu, þar sem nefndin hefir lýst yfir því, að hún vilji fara gætilega. En nefndin þykist hafa farið sæmilega varlega í þessum breytingum. Og hún þóttist þess fullviss, að hækkunartillögur mundu koma fram frá öðrum, ef hún flytti þær ekki. En hún er einhuga um að standa móti allri frekari hækkun tekjuáætlunarinnar, nema ný löggjöf gefi tilefni til hennar.

Skal jeg nú geta einstakra brtt. nefndarinnar og fara um þær nokkrum orðum, hverja um sig.

Nefndin leggur til að hækka fasteignaskattinn um 10 þús. kr., úr 230 þús. upp í 240 þús. kr. Þetta er nokkurnveginn fastur tekjustofn; fer þó heldur hækkandi árlega vegna umbóta á fasteignum, og þá einkum nýbygginga. Síðastl. ár varð þessi skattur 253 þús. kr., og þykir því varlega áætlaður nú.

Tekju- og eignarskattinn vill nefndin hækka um 50 þús. kr., úr 800 þús. upp í 850 þús. kr. Þessi skattur er að vísu allbreytilegur og háður árferði og reyndist tæpl. 800 þús. síðastl. ár. En þess er að gæta, að sá skattur byggist á afkomu ársins 1926, sem var eitt hið erfiðasta ár fyrir atvinnuvegina. Hann er, sem vitanlegt er, lagður á tekjur undanfarandi árs. Síðan 1923 hefir hann aldrei orðið eins lágur og 1927. Árið 1925 varð hann fullar 2 milj. og meðaltal síðustu 5 ára er 1,1 milj. kr.

Sje árinu 1925 slept, af því að það var óvenjulegt veltiár, er meðaltal hinna 4 síðustu áranna 866 þús., og voru þau þó öll fremur erfið ár. Sýnist því rjettmætt og varlegt að hækka áætlunina upp í 850 þús.

Erfðafjárskatturinn er hækkaður úr 20 þús. upp í 35 þús., eða um 15 þús. kr. Hann er nokkuð breytilegur, en meðaltal síðustu 5 ára er 45 þús. kr.

Útflutningsgjaldið er hækkað um 50 þús. kr., úr 900 þús. upp í 950 þús. Það er breytilegt nokkuð eftir árferði og ekki hægt að byggja á meðaltali margra undanfarandi ára, því að það var hækkað um þriðjung 1925, úr 1% upp í 1½%. Meðaltal þeirra tveggja ára, sem hækkunin hefir verið í gildi, er full milj. kr., og voru þó bæði árin fremur erfið. Áætlunin verður því að teljast gætileg.

Þá hefir nefndin lagt til að lækka áfengistollinn allverulega, eða um 175 þús. kr., úr 500 þús. niður í 325 þús. kr. Reynslan sýnir, að þessi tollur fer minkandi. Síðastl. ár var þessi tekjuliður 230 þús. kr. neðan við áætlun. Kemur það af því, að árin 1925 til 1926 flutti áfengisverslunin inn svo mikið af Spánarvínum, að feykilegar birgðir hlóðust upp í landinu. Dregur það úr innflutningi meðan birgðirnar endast, og hefir komið niður á árinu 1927. Og eftir því, sem forstöðumaður verslunarinnar segir, er útlit fyrir minni innflutning vína 1929 en síðastl. ár. Virðist nefndinni því óvarlegt að áætla tollinn hærri en hún gerði í till. sinni.

Með þessari brtt. á vel við að tala um 11. brtt. Þar leggur nefndin til, að tekjur af víneinkasölunni sjeu lækkaðar úr 400 þús. niður í 300 þús. kr. Víneinkasalan er einn sá tekjuliður, sem mest hefir brugðist frá því, sem áætlað hefir verið undanfarin 2 ár. 1926 var áætlunin 450 þús., en tekjurnar reyndust aðeins 200 þús. 1927 var áætl. 500 þús., en tekjurnar 300 þús. Nefndin harmar það að vísu síður en svo, þó að einkasalan gefi litlar tekjur, að svo miklu leyti sem tekjurýrnunin stafar af minkandi sölu vínanna. En hún telur þá aðferð mjög óheppilega og ámælisverða, sem höfð var 1925 og '26, að nota mikið af tekjum einkasölunnar til þess að auka birgðir hennar, í stað þess að láta þær ganga í ríkissjóðinn. Síðastl. ár mun hafa verið horfið frá þessu, enda hafa tekjurnar reynst 100 þús. kr. hærri en árið á undan. Hefir forstöðumaður verslunarinnar talið sennilegt, að tekjurnar 1929 mundu verða svipaðar og síðastl. ár og nefndin fallist á það.

6. brtt. er um að hækka tóbakstollinn um 150 þús. kr., úr 700 þús. upp í 850 þús. kr. Svo sem kunnugt er, var tóbakseinkasalan afnumin 1926 og tollur á tóbaki þá jafnframt hækkaður. Fyrsta árið eftir að innflutningur tóbaks var óhindraður mátti vænta mikilla tolltekna, um leið og birgðir söfnuðust í landinu, enda varð tollurinn 1,13 milj. kr. það ár. Árið 1927 varð hann hinsvegar nærfelt 950 þús. kr. En það ár má sennilega telja meðalár um innflutning tóbaks, og er ekki ástæða til að ætla, að úr honum dragi til muna, ef löggjöfin helst óbreytt. Ætti því áætlunin að standast.

Í 7. brtt. er kaffi- og sykurtollurinn hækkaður um 50 þús. kr., úr 1 milj. upp í 1 milj. og 50 þús. kr. Þessi tekjuliður hefir verið nokkuð jafn mörg undanfarin ár og numið nál. 1100 þús. kr. að meðaltali. Jeg skal taka það fram, að áætlun nefndarinnar er miðuð við það, að framlengd verði 25% gengishækkunin á þessum lið, og yfirleitt eru allar áætlanir hennar um tolltekjur miðaðar við það, að 25% gengisviðaukafrv. stjórnarinnar, það sem nú liggur fyrir þinginu, verði samþykt.

Jeg vil geta þess, að einn nefndarmanna, hv. þm. Ísaf. (HG), var ekki samþykkur hækkunartill. nefndarinnar um þennan lið. Vildi fella niður 25% gengisviðaukann.

8. brtt. er um hækkun vörutollsins úr 1 milj. upp í 1 milj. og 50 þús. kr., eða um 50 þús. kr. Vörutollur var lækkaður, og feldur niður á nokkrum vörutegundum, árið 1926. Sama ár var og feldur niður af honum 25% gengisviðaukinn. Tekjuliður þessi hefir því stórlækkað, og þar sem ekki er nema um eins árs reynslu að ræða með hinum nýju tollákvæðum, má máske segja, að áætlunin sje á nokkuð lausum grundvelli bygð. 1927 var tollurinn 1,12 milj. kr., og þar eð það ár verður varla talið meira en meðalár, telur nefndin óhætt að áætla liðinn 1050 þús. kr.

Þá kem jeg að 9. brtt. nefndarinnar, sem gengur út á, að verðtollurinn verði hækkaður úr 600 þús. kr. upp í 825 þús. kr. Um verðtollinn er það sama að segja og verðtollinn, að honum var breytt á þingi 1926, svo að hin breyttu ákvæði um tollinn hafa ekki nema eins árs reynslu að baki, sem sje fyrir árið 1927, en þá reyndist tollurinn að nema 926 þús. Þetta sýnist því sæmilega varleg till., þó að ekki sje nema þessu eina ári á að byggja. Áætlunin er vitanlega bygð á því sama, er jeg nefndi í sambandi við kaffi- og sykurtollinn, að samþ. verði frv. stj. um framlengingu tollsins.

Þá er það 10. brtt. Nefndin leggur til að lækka pósttekjurnar um 25 þús. og byggir þá till. á áætlun póstmeistara. Hann tekur skýrt fram, að minni tekna sje að vænta árið 1929 en undanfarið, því að hvorki sje þá að vænta gengisgróða nje tekna í sambandi við útgáfu nýrra frímerkja, sem hvorttveggja hafi oft áður gefið talsverðar tekjur. Þó að nefndin kunni því hálfilla, að svo lítur út, sem nokkur halli hljóti að verða á póstmálunum 1929, sjer hún sjer ekki annað fært en leggja til, að tekjuáætlun þessa liðs sje færð niður í 450 þús. kr.

Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að hinar mörgu brtt. við tekjubálkinn eru mjög eðlilegar, því að þegar stj. samdi frv., sem varð að gerast fyr en venjulega, var ekki enn hægt að sjá útkomu ársins, og um suma liði, t. d. verðtollinn, vörutollinn o. fl., giltu ný ákvæði.

Þá kem jeg að gjaldabálknum, og þá fyrst að 12. brtt. Hún er aðeins til að ákveða skýrt og ótvírætt, hvaða svæði hvor þessara lækna skuli hafa til yfirferðar, þar sem komið hafði í ljós, að gildandi ákvæði voru tæpast nógu skýr og ákveðin.

Þá er það 13, brtt., sem er aðeins leiðrjetting á prentvillu og þarf því ekki skýringar við.

Þá er það 14. og 15. brtt., báðar viðvíkjandi „Kleppi“. Það er nú loksins komið svo langt, að búist er við, að hægt verði að ljúka við viðbótarbygginguna við geðveikrahælið komandi sumar, ef samþ. verður till. nefndarinnar um viðbótarstyrk til byggingarinnar, 50 þús. kr., og er sú brtt. borin fram fyrir tilmæli ríkisstj. Í nál. er allgreinilega skýrt frá, hvernig máli þessu horfir við, svo að varla er þörf á að endurtaka það hjer. Vil jeg aðeins fyrir nefndarinnar hönd ítreka og undirstrika hina afar brýnu þörf, sem á því er, að hælið verði fullgert þegar í sumar, því að úti um alt landið bíður hinn mesti fjöldi sjúklinga eftir því að komast á hælið, og eru stórmikil vandræði samfara geymslu þeirra þangað til. Vil jeg því eindregið vænta þess, að brtt. 15 nái samþykki hv. deildar. En í sambandi við það, að hælið verður bygt svo sem nefndin hjer leggur til, þarf að hækka rekstrarstyrk þess fyrir árið 1929, og leggur nefndin til, að til þess sje varið 50 þús. kr. Er nokkur grein gerð fyrir því í nál., á hverju nefndin byggir þá till., en jeg vil í sambandi við þetta geta þess, að í nál. hefir slæðst inn prentvilla, 40 þús. í stað 50 þús., sem jeg vil leiðrjetta hjer með.

Þá er það 16. brtt. í tveim liðum. Í fyrri liðnum leggur nefndin til, að veittar sjeu 18 þús. kr. til byggingar sjúkraskýla og læknisbústaða að 1/3, sem sundurliðast þannig: Til Reykhólahjeraðs 7000 kr., til Stykkishólmshjeraðs 8000 kr., til Sjúkrahússins í Vestmannaeyjum 3000 kr. Er gerð grein fyrir þessum till. í nál., og vísa jeg til þess, sem þar er sagt. Jeg skal aðeins taka það fram, að uppdrættir og áætlanir um byggingar þær, sem hjer ræðir um, lágu að vísu ekki fyrir nefndinni. En kostnaðaráætlanir þær, sem nefndin byggir till. sínar á, eru miðaðar við upplýsingar, sem landlæknir gaf nefndinni. Og vitanlega ætlast nefndin til, að ekki verði ráðist í neinar framkvæmdir um þessar byggingar fyrr en öll gögn eru fyrir hendi, sem heilbrigðisstjórnin telur fullnægjandi.

Í síðari lið brtt. leggur nefndin til, að veittur verði 3600 króna styrkur til þriggja læknisfræðikandidata til ársdvalar í sjúkrahúsi, 1200 kr. til hvers. Það mun hafa komið til orða í lögjafnaðarnefndinni frá Dana hálfu, að Íslendingar fengju ókeypis ársdvöl við danska spítala, en íslensku nefndarmennirnir munu ekki hafa tekið því svo, að úr því yrði, og þess vegna komu fram tilmæli frá prófessorunum við læknadeild háskólans um það, að kandidötunum yrði veittur styrkur til spítaladvalar hjer heima. Og eftir ástæðum vill nefndin veita þennan styrk.

Þá er það 17. brtt., sem gengur út á að lækka styrkinn til geitnalækninga úr 2000 kr. niður í 1000 kr. Till. er bygð á umsögn landlæknis, sem tjáði nefndinni, að sjúklingar með þennan kvilla mundu mjög fáir orðnir. Ekki vitað um nema nokkra einstaklinga, aðallega gamalmenni. Er þess getið í nál., að enginn geitnasjúklingur hafi gefið sig fram til lækninga síðastl. ár. Skildi nefndin landlækni svo. En þetta mun á misskilningi bygt og umsögn hans átt að miðast við þennan vetur. Hefir forstjóri röntgenstofunnar, Gunnlaugur Claessen, skýrt nefndinni frá því, að 6 sjúklingar með geitur hafi verið læknaðir 1927 á röntgenstofunni. Er þetta leiðrjett hjer með. En nefndin telur það engin áhrif þurfa að hafa á till.

Í 18. brtt. sinni leggur nefndin til, að tillagið til sýsluvega verði hækkað um 5000 kr. Vildi nefndin lítils háttar verða við þeim fjölmörgu óskum og kröfum úr ýmsum hjeruðum landsins um að hækka fjárveitingar til sýsluvega. Þarf ekki að fjölyrða um þetta, því að þarfirnar eru svo vel þektar. Jeg vil aðeins taka það fram, að upphæðin svarar hvergi nærri til þess, er beðið er um.

19. brtt. nefndarinnar er aðeins töluleiðrjetting og þarf því engrar skýringar.

Þá er það 20. brtt., um að fella niður tillagið til „Hydrographic Bureau“ í Monaco. Nefndin lítur svo á, að þar sem takmarka verður svo mjög framlög til vitabygginga sökum fjárskorts, geti þessi ráðstöfun einnig beðið án mikils baga, enda fjelst vitamálastjóri fúslega á það. Árstillagið er allhátt. 3530 kr. með núverandj gengi. Skýrslur allar, sem stofnunin gefur út og sem helst mætti vænta gagns af, kvað vitamálastjóri einnig auðvelt að fá án þess að gerast meðlimur stofnunarinnar.

Fleiri brtt. liggja ekki fyrir, og jeg mun ekki gera að umtalsefni brtt. einstakra þm. að svo komnu máli.